Einn sérstæðasti íslenski bankinn, sem starfræktur er í dag, hlýtur að vera Íslenski lúðubankinn í Höfnum. Þar hefur Jón Gunnlaugsson viðskiptafræðingur alið smálúður, sem hann hefur keypt af dragnótabátum, upp í sláturstærð og selt framleiðsluna á erlendan markað á veturna þegar framboð á lúðu er í lágmarki. Auk lúðueldisins hefur Jón reynt eldi á steinbít og fleiri fisktegundum og hann segir möguleika Íslendinga á þessu sviði vera gríðarlega. Fyrir réttu ári setti Jón einnig á stofn Sæfiskasafnið í Höfnum og hefur starfsemi þess gengið vonum framar. Frá þessi sagði í Fiskifréttum 15. september 1995.
Heimili Guðjóns Halldórssonar, gamals sægarps og fyrrum starfsmanns Tilkynningarskyldunnar, ber þess greinileg merki að þar búi sjómaður. Veggirnir eru prýddir myndum af skipum og bátum, þar er jafnvel að finna gamalt skipsstýri á vegg og einnig efsta hlutann af gömlu siglutré. Í loftinu í setustofu heimilisins hangir glæsileg eftirlíking af stóru skólaseglskipi sem Guðjón smíðaði og setti saman úr óteljandi fjölda hluta. Frá þessu sagði í Fiskifréttum 31. maí 1991.