„Þetta er búið að vera heldur dapurt eftir að við fórum út úr Flóanum en það kom smáufsaskot inn í Sandvíkina um daginn,“ sagði Karl Knútur Ólafsson, skipstjóri á dragnótabátnum Erni KE 14, í samtali við Fiskifréttir þann 14. desember 2001.
Mokveiði er rétta orðið yfir aflabrögðin hjá línutrillunum að undanförnu nánast allt í kringum landið. Í síðustu Fiskifréttum var sagt frá mjög góðum afla smábáta frá Sandgerði og samkvæmt eftirgrennslan Fiskifrétta virðist sömu sögu vera að segja úr flestum öðrum landshlutum. Prýðilegur afli á línuna og allt upp í mokveiði og ævintýralegt fiskirí. Frá þessu sagði í Fiskifréttum 3. mars 2006.