Enn á ný er réttur Norðmanna til yfirráða á Svalbarðasvæðinu í brennidepli, - nú í tengslum við veiðar á norsk-íslensku síldinni. Norðmenn líta svo á að meðan ekki hefur náðst samkomulag milli Íslands og Noregs um veiðarnar geti þeir bannað Íslendingum að veiða síldina í Svalbarðalögsögunni. Þannig hófst frétt í Fiskifréttum 23. maí 2003.
Frystitogarinn Baldvin Þorsteinsson EA kom til hafnar 2. maí síðastliðinn eftir 33 daga veiðiferð sem farin var á veiðisvæði innan og utan landhelginnar. Alls fengust um 940 tonn af fiski upp úr sjó í veiðiferðinni og þar af voru um 330 tonn af djúpkarfa sem flokkast undir úthafskarfa. Frá þessu sagði í Fiskifréttum 8. maí 1998.
Það þykir jafnan tíðindum sæta er sjómenn koma með stórlúður að landi. Stundum setja trillukarlar í rígvænar lúður sem oft eru á annað hundrað kíló að þyngd og það er tilkomumikil sjón þegar þessir stóru fiskar eru hífðir upp á hafnarbakkana. Frá þessu sagði í Fiskifréttum 11. ágúst 2000.