Togararnir Asanda (áður Siglfirðingur SI) og Stella Karina (áður Svalbarði SI) eru byrjaðir á rækjuveiðum hinum megin á hnettinum – nánar tiltekið í rússneskri lögsögu í Okotskhafi við austurströnd Rússlands. Skipin komu á miðin fvrir um það bil mánuði og hafa aflabrögðin verið slök það sem af er miðað við það sem tíðkast hefur undanfarin ár, að því er Hörður Hólm, skipstjóri á Stellu Karinu, sagði í Fiskifréttum 3. maí 2002. Það er hins vegar bót í máli að rækjan er mjög stór og verðmæt, á bilinu 40-100 stykki í kílói í móttökunni, og fer allur aflinn í eins kílós pakkningar.
„Það er búið að vera ævintýralega gott fiskirí á línuna alveg síðan í haust. Það er sama hvar borið er niður, alls staðar er þorskur. Eina vandamálið er að fá ekki of mikið af honum. Okkur er skammtaður 30 tonna þorskkvóti á viku og það er erfitt að takmarka sig við það. Núna erum við til dæmis á öðrum veiðidegi og fyrirsjáanlegt að þorskskammturinn klárast í dag. Við verðum því að fara að svipast um eftir ýsu,“ sagði Kolbeinn Marínósson skipstjóri á beitningarvélabátnum Albatros GK frá Grindavík í samtali við Fiskifréttir 11. apríl 2003.