„Við fengum þennan afla norðarlega á Hampiðjutorginu á um 350-500 faðma dýpi; í túninu heima getum við sagt því við erum nánast allt árið að veiða á þessum slóðum,“ sagði Jóel Þórðarson, skipstjóri á Guðmundi í Nesi RE, í samtali við Fiskifréttir er rætt var við hann um aflabrögðin.
Gulllaxinn, sem er utankvótategund, var um 60-70 tonn af aflanum í túrnum og sagði Jóel að þeir hefðu veitt töluvert mikið af gulllaxi á árinu en verulega hefði dregið úr þeim veiðum í síðasta túr. Þá gat hann þess að hlutfall karfa í aflanum hefði einnig aukist miðað við fyrri ár.
Þorskurinn gaus óvænt upp
Lítill þorskur er yfirleitt á Hampiðjutorginu en þó kom það óvænt fyrir í sumar að mikil þorskveiði gaus þar upp.
„Þetta var boltafiskur en samt horaður. Meðalvigtin var um 4 kíló. Mest bara á þorskinum í maí og júní og mér virtist hann koma ofan af grunninu og leita síðan neðar og dýpra í áttina að Dorhnbanka uns hann hvarf. Það er mjög óvenjulegt að fá mikinn þorsk þarna og við vissum varla hvaðan á okkur stóð veðrið. Við gerðum allt til að forðast þorskinn en þó vorum við að fá allt upp í eitt til eitt og hálft tonn af þorski sem meðafla í 5 tonna holi og það er allt of mikið,“ sagði Jóel.
Heldur minni veiði en í fyrra
Jóel sagði að grálúðuveiðarnar hefðu gengið erfiðlega á árinu og heldur verr en í fyrra sem var slakt ár. Hann bjóst þó við því að aflaverðmæti skipsins yrði svipað og í fyrra vegna þess að karfaveiðin hjá þeim hefði aukist. Aflinn hjá þeim núna er um 500-700 kíló á togtímann en hann fór í tonn á tímann þegar mest var um grálúðuna fyrr á árinu.
„Veiðin er heldur minni að jafnaði en í fyrra. Annars er þessi árstími alltaf lélegur á grálúðunni, þ.e. frá því síðla sumars og fram í desember. Eftir það fer grálúðan að ganga aftur inn á svæðið í mismiklum mæli þó alveg fram á vor. Síðan er sumartíminn slakari en það fer auðvitað eftir því hve mikið gengur af grálúðu á slóðina og hversu mörg skip eru þarna á veiðum. Þó tel ég að búrhvalurinn ráði mestu um það hve mikið veiðist,“ sagði Jóel.
Fjöldinn gríðarlegur
Talið er að um 10-11 þúsund búrhvalir séu í hafinu kringum Ísland og Færeyjar. Búrhvalurinn étur hlutfallslega mikið af fiski ef miðað er við aðra tannhvali. Hann getur einnig kafað hvala mest. Fer niður á allt að tvö þúsund metra dýpi og getur verið tvo tíma í kafi í einu. Þannig má reikna með nokkuð mörgum hvölum á svæðinu þótt aðeins einn sjáist blása. Talið er að þessi stóra skepna éti um eitt tonn á dag og er þar að stærstum hluta um fisk að ræða í fæðunni.

Jóel sagði þeir hefðu orðir varir við búrhval í vaxandi mæli á Hampiðjutorginu og þeir hefðu fylgst með hval kafa allt niður á 800 faðma dýpi þar sem hann hefði verið að gæða sér á grálúðunni.
„Hvalurinn liggur þarna í hitaskilunum alveg út að miðlínu sem er allt að 70 mílna svæði. Þegar mest er þá höfum við séð um sex búrhvali blása í einu í kringum okkur. Eftir því að dæma er fjöldi búrhvala gríðarlegur á öllu svæðinu. Hann hefur einnig verið til mikilla vandræða fyrir línuskip sem veitt hafa grálúðu. Hann klippir lúðuna af línunni og það er meginástæðan fyrir því að veiðar á grálúðu með línu hafa lagst af,“ sagði Jóel.
Liggur í grálúðunni
Jóel sagði ennfremur að yfirleitt væri grálúða um 80-90% af afla þeirra enda ekki um marga aðra fiska að ræða á slóðinni alla jafna. Eftir því að dæma hlyti búrhvalurinn að liggja í grálúðunni, sérstaklega þegar hann kafar djúpt.
„Meðan hvalveiðar voru stundaðar hér við land fór veiðin fram vestur af landinu og ég geri ráð fyrir að það helgist af því að stór hluti stofnsins hafi haldið sig þar. Hvalurinn er hér aðallega á sumrin og haustin. Ef við gefum okkur það að um þriðjungur stofnsins, eða um 3 þúsund búrhvalir, séu hér fyrir vestan þá má ætla að þeir éti um 3.000 tonn af dag. Þótt við gerum ekki ráð fyrir því að grálúða sé nema þriðjungur í fæðu hans að meðaltali gæti hann verið að éta 1.000 tonn af grálúðu á dag. Samkvæmt þessu tekur það hann ekki nema 12 daga að éta sama magn og Íslendingar veiddu af grálúðu á síðasta ári, eða 12 þúsund tonn. Enginn veit í raun hvað búrhvalurinn étur mikið af grálúðu á ári en ef við höldum áfram með dæmið þá gæti búrhvalurinn verið að éta 100-120 þúsund tonn af grálúðu yfir sumartímann, þ.e. á um það bil fjórum mánuðum. Þetta eru hrikalegar tölur ef rétt reynist. Ársveiði okkar bliknar í samanburði við þetta. Í ljósi þess finnst mér hlægilegt að heyra menn segja að slakt ástand á grálúðustofninum sé ofveiði að kenna,“ sagði Jóel.
Nauðsynlegt að hefja hvalveiðar „Við getum ekki lengur hlustað á þetta eilífa umhverfishjal um að vernda þurfi hvali hvað sem það kostar. Ég tel því nauðsynlegt að Íslendingar hefji atvinnuveiðar á búrhval hið fyrsta. Að minnsta kosti er afar brýnt að við förum að stunda vísindaveiðar til að fá úr því skorið hvað búrhvalurinn étur mikið af fiski og þá sérstaklega hvað hann étur mikið af grálúðu. Í ár stefnir allt í það að grálúðuafli Íslendinga verði ekki nema um 10 þúsund tonn en þegar mest var veiddum við tæp 60 þúsund tonn af grálúðu. Hér er því mikið í húfi fyrir okkur,“ sagði Jóel Þórðarson.