Við lenginguna í Póllandi breyttist brúttótonnatala Hólmaborgar úr 1172 brt. í 1681 brt. Burðargetan hefur einnig aukist gríðarlega. Í stað þess að bera tæp 1.600 tonn af síld eða loðnu er nú hægt að koma með allt að 2.600 tonn að landi.

Í tveimur nýjum lestum er nú hægt að geyma hráefnið í sjókælitönkum og er burðargeta skipsins, miðað við blandað hráefni, alls um 2.400 tonn. Þetta er langmesta burðargeta íslensks nóta- og togveiðiskips.

Hönnun á breytingunum á Hólmaborginni var í höndum Teiknistofu Karls G. Þórleifssonar á Akureyri og hafði Gunnar Tryggvason, verkfræðingur hjá teiknistofunni, með höndum eftirlit með verkinu í Póllandi.

Samið var við Nauta skipasmíðastöðina í Póllandi, sem Vélasalan hf. hefur umboð fyrir, og var Hólmaborgin komin til Póllands 12. ágúst sl.

Hólmaborg SU í höfn á Eskifirði eftir komuna frá Póllandi. FF Mynd/Snorri Snorrason
Hólmaborg SU í höfn á Eskifirði eftir komuna frá Póllandi. FF Mynd/Snorri Snorrason

Geta dælt 1000 tonnum af sjó á klukkustund

Við komuna til Póllands var Hólmaborgin skorin í tvennt og í framhaldi af því var nýju 13,85 metra löngu miðstykki komið fyrir. Í lengingunni eru tvær nýjar lestar með alls sex sjókælitönkum og alls eru því fimm lestar í skipinu með alls 15 tönkum.

Sjókælibúnaðurinn í nýju lestunum er frá Teknotherm í Noregi, sem Akurfell ehf. hefur umboð fyrir, og er kerfið tvöfalt. Búnaðurinn samanstendur af skrúfupressum, kælum og varmaskiptum og er kerfið alls 2.000.000 Kcal. Hvort hringrásarkerfið um sig getur afkastað um 500 tonnum af sjó á klukkustundu. Samkvæmt því tekur einn tíma að dæla 1.000 tonnum af sjó í lestarnar en að sögn Gunnars Tryggvasonar er kælipressan það öflug að auðvelt er að bæta við sjókælibúnaði í tvær af þremur eldri lestum ef þörf krefur.

Hólmaborgin sem fékk síðar nafnið Jón Kjartansson SU lagði í síðustu viku upp  í sína hinstu för. Mynd/Guðni Kristinsson
Hólmaborgin sem fékk síðar nafnið Jón Kjartansson SU lagði í síðustu viku upp í sína hinstu för. Mynd/Guðni Kristinsson

Um leið og kælibúnaðurinn var settur niður voru settir lóðréttir lensistokkar úr ryðfríu stáli í allar fimm lestarnar. Sáu starfsmenn Nauta um smíði á stokkunum í nýju lestunum en danska fyrirtækið Alkab Esbjerg á heiðurinn af smíði stokkanna í gömlu lestunum.

Allar sjókælilagnirnar eru úr plasti og eru þær frá Alkab. Slíkar lagnir voru settar í Þórshamar GK á sl. ári og var það fyrsta íslenska skipið sem fékk lagnir frá Alkab. Niðursetning sjókælikerfisins kallaði svo á nýja ljósavél og varð 650 KW Mitsubishi ljósavél frá MD vélum hf. fyrir valinu.

Nýr dekkkrani og kraftblökk

Af öðrum breytingum má nefna að smíðaður var nýr hvalbakur á Hólmaborgina og nýju frammastri var komið fyrir. Lunningar og snurpugálgar að framan og aftan eru einnig nýsmíði. Þá var toggálginn hækkaður um 1,5 metra. Togvindan var færð upp á bátadekk en flottrollsvindan, sem þar var fyrir, var færð upp á efra þilfar. Þá voru svo til allar hjálparvindur færðar til samræmis við nýja staðsetningu á snurpugálgum og snurpuvindu var snúið.

Af nýjum búnaði má nefna að keyptur var nýr dekkkrani af gerðinni HCC-60-3-15 frá norska fyrirtækinu Maritime GMC sem Vélorka hf. hefur umboð fyrir. Bómulengd kranans er 15 metrar og er lyftigeta hans 3000 kg. Kraninn var afgreiddur með tvöfaldri dælustöð, 2 X 22 KW, og 400 lítra tanki.

Þá var keypt ný kraftblökk af stærstu gerð frá norska fyrirtækinu Karmöy sem AGV ehf. hefur umboð fyrir.

Loðnuskilja er einnig ný og er hún frá Karmöy.

Millitíðnisónar

Nokkur endurnýjun hefur verið gerð á tækjum í brú og ber þar helst að keyptir voru tveir nýir hringsónarar (asdikk) frá Furuno. Er annar þeirra, Furuno CSH-22F, hefðbundinn lágtíðnisónar með 28 kílóriða tíðni en hinn, Furuno CSH-82, er af svokallaðri millitíðni. Hann er með 94 kílóriða tíðni og auk þess sem öryggi er fólgið í því að hafa tvo sónara um borð, þá á millitíðnisónarinn að geta gefið mun betri upplýsingar um fisktegundir eins og makríl en hægt er að fá með lágtíðnisónurum.

Makríllinn er svo til sundmagalaus og gefur því lítið endurvarp á lágtíðnisónurum en hins vegar er hægt að finna þennan fisk á miklu dýpi með sónurum með millitíðni og hátíðni.