Þessu vísa íslensk stjórnvöld á bug og benda á aðild sína að Svalbarðasamningnum og það að Íslendingar hafi veiðireynslu á svæðinu bæði frá fyrri tíð og eins frá síðustu árum. Ef norska strandgæslan taki íslensk skip á veiðumog færi til hafnar muni málinu verða vísað til alþjóðadómstóls til úrskurðar.

En hvaða rétt hafa Norðmenn á þessu svæði? Samkvæmt 1. gr. samningsins um Svalbarða frá árinu 1920 viðurkenna samningsaðilar óskoraðan fullveldisrétt Noregs yfir eyjaklasanum Svalbarða. Hins vegar segir í 2. gr. samningsins orðrétt:

„Skip og þegnar allra hinna háu samningsaðila skulu njóta jafns réttar til fiskveiða og dýraveiða á þeim landsvæðum sem tilgreind eru í 1. grein og innan landhelgi þeirra.“

Og í 3. gr. segir:

„Þegnar allra hinna háu samningsaðila skulu hafa jafnfrjálsan aðgang og aðgengi, sama hver ástæðaneða tilgangurinn er, að landhelgi, fjörðum og höfnum á þeim svæðum sem tilgreind eru í 1. grein; þeim skal heimilt að stunda þar án nokkurrar hindrunar hvers konar starfsemi sem snertir sjávarútveg, iðnað, námugröft og verslun á fullkomnum jafnréttisgrundvelli, svo fremi þeir hlíti staðarlögum og reglugerðum.“

Jafnræðisreglan gildir á svæðinu

Fiskifréttir 23. maí 2003.
Fiskifréttir 23. maí 2003.

Fiskifréttir spurðu Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðing utanríkisráðuneytisins, hvernig túlka bæri þessi ákvæði samningsins miðað við stöðuna í dag. Tómas segir að Svalbarðasamningurinn nái samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til landsvæðanna og landhelginnar sem var aðeins 4 sjómílur á þeim tíma sem samningurinn var gerður. Hins vegar sé ljóst að túlka verði ákvæði samningsins í samræmi við þróun hafréttar á 20. öld og um það eru menn almennt sammála.

„Samkvæmt því fylgir Svalbarða réttur til 12 sjómílna landhelgi og 200 sjómílna fiskveiði- eða efnahagslögsögu. Á þessum svæðum gilda ákvæði Svalbarðasamningsins fullum fetum og fullveldisréttur Noregs lýtur þar sömu takmörkunum og á landi. Í því sambandi skiptir jafnræðisregla samningsins mestu máli. Það er eðli máls samkvæmt að réttur Noregs getur ekki verið meiri á þessum ytri hafsvæðum en á sjálfum Svalbarða þar sem rétturinn yfir umræddum svæðum leiðir alfarið af réttinum yfir Svalbarða. Að öðrum kosti blasti við sú fráleita niðurstaða að fullveldisréttindi viðkomandi ríkis myndu aukast eftir því sem fjær dragi ströndum; niðurstaða sem gengi þvert gegn meginreglum hafréttarins sem kveða á um hið gagnstæða.“

Tómas segir ekkert ríki hafi fallist á þá afstöðu norskra stjórnvalda að þau njóti fullveldisréttar utan 4ra sjómílna landhelgi Svalbarða óháðan ákvæðum Svalbarðasamningsins.

Fiskverndarsvæðið ekki á grundvelli Svalbarðasamningsins

Árið 1977 settu Norðmenn reglugerð þar sem kveðið var á um stofnun hins svonefnda fiskverndarsvæðis við Svalbarða. Það virðist hafa verið gert á þeirri forsendu að um norskt hafsvæði væri að ræða en ekki á grundvelli Svalbarðasamningsins.

Norðmenn viðurkenna með öðrum orðum ekki að jafnræðisreglan í Svalbarðasamningnum gildi á þessu svæði. Norsk stjórnvöld hafa síðan ákveðið hámarksafla fyrir hverja fisktegund á svæðinu og deilt út kvótum og sóknardögum til þeirra þjóða sem taldar eru hafa veiðireynslu á svæðinu. Engin þessara þjóða hefur formlega viðurkennt rétt Norðmanna til þess að deila og drottna á svæðinu, margar hafa mótmælt, en allar hafa þó látið þetta yfir sig ganga í verki.

Norðmenn á hálum ís

Íslenska rannsóknarskipið Árni Friðriksson við Longyearbyen á Svalbarða. Mynd/Aðsend
Íslenska rannsóknarskipið Árni Friðriksson við Longyearbyen á Svalbarða. Mynd/Aðsend

Norðmenn vita að þeir eru á hálum ís í þessu máli og líta svo á að tíminn vinni með sér. Því hafa þeir varast eins og heitan eldinn að láta skerast í odda svo ekki kæmi til þess að reynt yrði á rétt þeirra fyrir alþjóðlegum dómstóli. Rússar hafa t.d. farið sínu fram á fiskveiðum í Svalbarðalögsögunni án þess að skip þeirra væru færð fyrir rétt í Noregi. Hins vegar gerðist það fyrir nokkrum árum að norska strandgæslan tók tvo íslenska togara og færði til hafnar þar sem réttað var í málum þeirra og felldir dómar yfir skipstjórum og útgerðum samkvæmt norskum lögum.

Árið 1994 gerðust Íslendingar aðilar að samningnum um Svalbarða. Þótt Ísland bættist svona seint í hóp aðildarríkjanna er litið svo á af hálfu Íslendinga að jafnræðisreglan um fiskveiðar á svæðinu gildi jafnt um þá sem aðrar þjóðir. Í því sambandi er bent á að Íslendingar hafi verulega veiðireynslu á Svalbarðasvæðinu, meðal annars í veiðum á norsk-íslensku síldinni sem nú er deilt um, bæði frá fyrri tíð og á undanförnum árum.

Norsk-íslenska síldin og jafnræðisreglan

Tómas var spurður hvort reglur norskra stjórnvalda um veiðar á norsk-íslensku síldinni á Svalbarðasvæðinu samræmist ákvæðum Svalbarðasamningsins, einkum  jafnræðisreglu hans.

„Norsk stjórnvöld hafa undanfarin sumur opnað afmörkuð svæði í lögsögu Svalbarða fyrir veiðum á norsk-íslensku síldinni, en takmarkað heimild til veiðanna við skip frá ríkjum sem hafa heimild til síldveiða innan norskrar lögsögu. Jafnframt hafa norsk stjórnvöld kveðið á um að afli ríkja á Svalbarðasvæðinu sé dreginn frá kvótum þeirra í norskri lögsögu. Utanríkisráðuneytið hefur mótmælt þessum reglum með formlegum hætti á hverju ári, enda brjóta þær augljóslega gegn jafnræðisreglu  Svalbarðasamningsins,“ sagði Tómas og bætti við:

„Við vonumst að sjálfsögðu enn til þess að samningar náist við Norðmenn um veiðar á norsk-íslensku síldinni, en takist það ekki væntum við þess að norsk stjórnvöld virði ákvæði milliríkjasamninga sem þau eru bundin af, meðal annars jafnræðisreglu Svalbarðasamningsins.“

Á næstu dögum og vikum mun ráðast hvort til árekstra komi milli Íslendinga og Norðmanna í Svalbarðalögsögunni og hvort íslensk stjórnvöld láti þá verða af þeirri hótun sinni að draga Norðmenn fyrir alþjóðadómstól vegna málsins. Eða hvort samið verði í síldardeilunni og allt falli aftur í ljúfa löð.