Fjallað var um útgerðarævintýri Ísfirðingsins Björgvins Bjarnasonar í sjómannadagsblaði Fiskifrétta í síðustu viku. Greinin birtist hér í netútgáfu blaðsins óstytt.

EFTIR SINDRA FREYSSON

Haustið 1949 stímdu fjögur helstu skip Ísfirðinga yfir úfið haf frá Grænlandi, mönnuð á sjöunda tug hraustra sjómanna. Í skipverjunum var þó urgur og lítill ferðahugur. Siglingin var ákvörðun athafnamannsins Björgvins Bjarnasonar, ákvörðun sem var upphafið að stórfurðulegu útgerðarævintýri hans í Vesturheimi og ein fyrsta útrásartilraunin á því sviði.

Skipin fjögur plægðu öldurnar á hraða sem virtist óhagganlegur. Grænland fjarlægðist hægt í baksýn með sín hrikalegu jakaból. Tímafrek sigling var fyrir höndum, stefnan var tekin á Nýfundnaland. Mennirnir um borð voru á sjöunda tug talsins, flestir Vestfirðingar, og höfðu verið á þorskveiðum við Grænland allt sumarið og fram á haustið 1949. Þeir höfðu aflað sæmilega og voru löngu orðnir fullir tilhlökkunar að komast heim til kvenna og barna eftir langt og strembið úthald. En þegar veiðunum lauk í byrjun október hafði þeim óvænt verið tilkynnt að sigla ætti skipunum til Nýfundnalands, tilkynning sem kom þeim öllum í opna skjöldu og lagðist þungt í þá.

Siglingin á þessar fjarlægu slóðir var ákvörðun útgerðarmanns allra skipanna, Björgvins Bjarnasonar, og ekki bætti úr skák að hann skuldaði þeim laun fyrir allt sumarpúlið, 350 þúsund krónur, eða um 35 milljónir króna á núvirði framreiknað miðað við vísitölu neysluverðs. Þessi ákvörðun Björgvins átti eftir að valda miklu fjaðrafoki hér heima.

Rafvirki sem hóf útgerð

Björgvin Bjarnason var um árabil einn umsvifamesti útvegs- og athafnamaður á Ísafirði. Hann fæddist á Akureyri árið 1903 og fluttist kornungur til Ísafjarðar með foreldrum sínum, Bjarna Bjarnasyni ökumanni, og Auði Jóhannsdóttur. Yngsti bróðir hans var Matthías Bjarnason, lengi þingmaður og um skeið sjávarútvegsráðherra á áttunda áratugnum. Fyrir vestan byggðu þau hjón sér reisulegt hús að þeirra tíðar vísu og hesthús fyrir kerruhesta Bjarna, en hann varð síðar frumkvöðull í notkun bíla við aksturinn.

Björgvin lagði leið sína til Danmerkur strax að afloknu skyldunámi og lærði þar rafvirkjun. Eftir heimkomuna vann hann að fyrstu rafstöðinni og raflögnum á Ísafirði og aðeins 19 ára gamall tók hann að sér að koma upp rafveitu fyrir Sauðárkrók. Honum tókst þó ekki að ljúka því verki og þegar hann flutti aftur til Ísafjarðar hóf hann að gera sig gildandi í sjávarútvegi. Hann fékkst við brotajárnsviðskipti, keypti strönduð skip á útnesjum og víðar og stofnaði síðan litla beinamjölsverksmiðju í Stakkanesi sem gekk prýðilega og gaf honum byr undir báða vængi. Í ársbyrjun 1934 áttu Björgvin og Jóhann J. Eyfirðingur, kaup- og útgerðarmaður á Ísafirði, frumkvæði að stofnun útgerðarfélags þar í bæ sem nefnt var Huginn. Þeir fengu til liðs við sig ýmsa þekkta borgara og fyrirtæki fyrir vestan og tókst að safna talsverðu hlutafé til að hefjast handa. Í fyrstu stjórn félagsins voru kosnir með honum þeir Arngrímur Fr. Bjarnason ritstjóri og Jóhann J. Eyfirðingur. Arngrímur hafði mörg járn í eldinum fyrir vestan, enda með stóran barnahóp á framfæri, þekktast þeirra var Jósafat Arngrímsson, sem átti eftir að verða umsvifamikill og umdeildur athafnamaður á Suðurnesjum og erlendis, en Jóhann komst í landsfréttir á stríðsárunum þegar Bretar handtóku hann og fluttu til Bretlands fyrir að hafa veitt þýskum flóttamanni liðveislu.

Huginn I kom til Ísafjarðar seint í júlímánuði 1934.
Huginn I kom til Ísafjarðar seint í júlímánuði 1934.

Þrír glæsilegir bátar Hugins

Á stofnfundi Hugins var samþykkt að láta smíða nýja og vandaða vélbáta, um 60 tonn hvern, í stað þess að kaupa gömul skip, þótt nægt framboð væri af þeim víða. Björgvin og annar erindreki félagsins héldu utan til að ná sem bestum samningum um bátasmíðina, sá fyrrnefndi til Danmerkur en sá síðarnefndi ferðaðist um Noreg og Svíþjóð. Fóru leikar svo að hagkvæmustu samningarnir náðust í Danmörku. Stefnt hafði verið að því að láta smíða fimm skip en vegna fjárskorts varð að láta þrjú nægja. Fyrsti vélbátur félagsins, Huginn I, kom til Ísafjarðar seint í júlímánuði 1934, Huginn II kom í lok ágúst sama ár, og Huginn III í ársbyrjun 1935, og voru þá stærstu fiskibátar bæjarins. Fyrirtækið var að mörgu leyti í fararbroddi í útgerðarmálum síns tíma og lét t.d. útbúa bátana með botnvörpum, og voru þeir fyrstu vestfirsku vélbátarnir sem stunduðu slíkar veiðar að ráði. Var þetta gert fyrst og fremst til að lengja úthaldstíma þeirra og þar með verðmætasköpun. Bátarnir voru gerðir út jöfnum höndum á þorskveiðar og síldveiðar. Björgvin var framkvæmdastjóri Hugins fyrstu tvö árin en síðan kom upp ósætti á milli hans og annarra hluthafa sem þótti hann fara heldur of geyst, sem varð til þess að hann hrökklaðist frá fyrirtækinu að sinni.

Um 1940 lét Björgvin smíða 84 tonna vélskipið Richard hjá Skipasmíðastöð Marzellíusar, sem þótti mikil völundarsmíði. Ríkisstjórnin ákvað haustið 1942 að Richard skyldi gegna eftirlits- og björgunarstörfum fyrir Vestfjörðum um veturinn, og var áhöfninni m.a. falið að eyða nýjum hættum sem styrjöldinni fylgdi fyrir sjófarendur, svo sem að skjóta niður rekdufl. Hann keypti síðan sumarið 1941 vélskipið Gróttu, sem áður hét Tvey systkin, en það var dönsk skonnerta, traustlega byggð en nokkuð við aldur. Hann setti í hana nýja og öfluga vél og bætti alla aðstöðu um borð, svo mjög að þegar endurbótunum var lokið kallaði sjómannablaðið Víkingur hana „landsins flottasta fiskibát”. Grótta stundaði í fyrstu fiskflutninga til Bretlands og lönduðu minni bátar í skipið eins og var algengt fyrirkomulag á þessum tíma. Grótta var stærsti og best útbúni bátur á Ísafirði næstu ár á eftir. Skipin sigldu bæði með ísfisk til Bretlands síðari heimsstyrjaldarárin og stunduðu einnig síldveiðar. Árið 1943 keypti hann síðan og rak sanddæluskipið Hák og leigði út við hafnardýpkanir og fleiri verk.

Óvenju stórhuga og harðfylginn

Huginni hf. farnaðist vel og á stríðsárunum stigu hlutabréf félagsins hratt í verði. Björgvin hafði um árabil viljað endurheimta völd sín í félaginu en ekki haft fjárhagslegt bolmagn til þess fyrr en stríðsárahagnaðurinn gerði það kleift. Eftir þónokkra valdabaráttu innan félagsins kom í ljós á Þorláksmessu 1943 að allir stjórnarmenn félagsins höfðu selt Björgvini hlutabréf sín, og sögðu þeir af sér í kjölfarið. Þáttur í samkomulaginu um þau viðskipti var að Arngrímur Fr. og skipstjórinn á Hugin II eignuðust þann bát og hófu sjálfstæða útgerð á honum. Eftir að Björgvin eignaðist meirihluta hlutafjár og vélbátar Hugins bættust við útgerðina var atvinnurekstur hans orðinn mjög umfangsmikill á þess tíma mælikvarða, sérstaklega auðvitað þegar aðeins er litið til Ísafjarðar og nágrennis. Hann átti fjóra af stærstu bátunum á Ísafirði, rak umfangsmikla síldarsöltunarstöð á Hólmavík og varð að minnsta kosti eitt árið hæsti síldarsaltandi yfir landið. Arngrímur Fr. vinur hans og viðskiptafélagi lýsti Björgvini svo í blaðagrein af tilefni fertugsafmælis hans árið 1943: „Björgvin Bjarnason er óvenjulega stórhuga maður, hugkvæmur og harðfylginn í hverju þvi er hann tekst á hendur. Hann hefur einsog flestir íslenskir útvegsmenn átt við misjafnar aðstæður að búa, stundum þröngan kost og margháttaða örðugleika, stundum velsæld og gróða. Björgvin Bjarnason verðskuldar velgengni sína. Hann er maður með afbrigðum greiðvikinn og hjálpsamur, og smásmygli öll er honum fjarri skapi.“

Huginn I, II og III.
Huginn I, II og III.

Björgvin spilaði þó stundum ansi djarft og var meðal annars sakaður um að hafa látið sigla Gróttu burt frá Reykjavík árið 1944, ofhlaðinni fiski, þvert á fyrirmæli yfirvalda um að létta á skipinu. Annað slíkt mál kom upp ári síðar, en þá var Grótta svo ofhlaðin að hleðslustjóri á Ísafirði gaf fyrirmæli um að taka skyldi úr skipinu 8-10 tonn af fiski. Yfirmenn skipsins töldu það óþarft og var þá leitað til Björgvins útgerðarmanns, sem neitaði kröfu hleðslustjóra um að tekið yrði úr skipinu við bryggjuna. Hleðslustjóri féllst þá á að fara með skipinu út á fjörð og henda þar umtalsverðu magni af fiski í sjóinn, mun minna þó en krafist hafði verið í upphafi. „Hvernig getur nokkur þorpari tekið sig betur út í eigin gálga en Björgvin Bjarnason gerir þarna? Hann hlýtur að hafa æfingu í að koma spottanum um eigin háls, maðurinn sá,“ skrifaði Hannibal Valdimarsson, krati og ritstjóri Skutuls um það atvik og sakaði hann um ósvífni og græðgi. Þetta væri „fáheyrð og sjúkleg viðleitni til að fótumtroða lög og reglur sem settar eru til að vernda líf sjómannanna“.

Um líkt leyti tapaði Björgvin máli sem Sjómannafélag Ísfirðinga hafði höfðað á hendur honum vegna vangoldinna launa til sjómanna sem höfðu verið á skipum hans við síldveiðar 1944.

Niður í öldudal

En að styrjöldinni lokinni fór hins vegar að halla undan fæti. Útflutningur á fiski til Englands tók krappa dýfu og duttlungafull síldin hvarf sífellt oftar og lengur og skildi eftir margar íslenskar útgerðir og síldarsaltendur rambandi til falls. Nú voru góð ráð dýr. Eftir að síldveiðin brást sumar eftir sumar urðu stöðugt háværari raddir um að vélbátaflotinn ætti ekki að einblína á síldveiðar heldur stunda þorskveiði samhliða. Ýmsir horfðu til Grænlandsmiða í því sambandi og vitnuðu í góða veiðireynslu Norðmanna og Færeyinga á þeim slóðum. Ef marka mátti fréttir frá frændum okkar væru þar gósenmið og hægt að moka upp gulli hafsins með lítilli fyrirhöfn. Flestar útgerðir kusu þó að tóra á heimaslóðum í von um að síldin sneri aftur til Íslands, en snemma árs 1949 ákváðu þrír aðilar eftir miklar bollaleggingar að halda í leiðangra til Grænlands og freista þar gæfunnar. Einn þeirra var Björgvin. Margir vissu að hann átti við mikla fjárhagsörðugleika að stríða þegar hann ákvað að hefja Grænlandsútgerðina og vægast sagt torsótt orðið fyrir hann að fá fyrirgreiðslu lánastofnana. Útgerðarmaðurinn og síldarspekúlantinn Óskar Halldórsson, oft nefndur Íslandsbersi, reyndi að rétta honum hjálparhönd með því að biðja bankastjóra að veita honum lán til útgerðarinnar, en varð brátt ljóst að fáir vildu greiða götu vestfirska útgerðarmannsins. „Svarið var ósköp einfalt. Það var á þá leið, að það kæmi ekki til mála að lána peninga til þessarar Grænlandsútgerðar,“ sagði Óskar frá fundum sínum í bönkunum. Óskar hrósaði þó Björgvini í hástert og reyndi þannig greinilega að efla trú banka og annarra fjársterkra aðila á þessum vini sínum: „Björgvin Bjarnason er að mínu áliti hæfastur af þeim útgerðarmönnum sem ég þekki, til þessarar útgerðar. Hann sameinar það að vera góður útgerðarmaður, fjölhæfur verslunarmaður á sölu sjávarafurða og flestum hugmyndaríkari. Þegar þetta allt er sameinað í einum manni verður hann íslensku þjóðinni betri og gagnlegri en flestir aðrir.”

Óskar Halldórsson síldarspekúlant.
Óskar Halldórsson síldarspekúlant.

Á Grænlandsmið

Í byrjun sumars 1949 hélt Björgvin með öll sín veiðiskip til Grænlands, Huginn I og II, Richard og Gróttu. Bátarnir voru að mestu leyti mannaðir Vestfirðingum, 15 menn á Hugin I, 15 á Hugin II, 16 á Richard og 18 á Gróttu, eða samtals 64 skipverjar. Veiðar gengu nokkuð brösuglega, meðal annars vegna ókunnugleika Íslendinganna á aðstæðum, skipin höfðu komið of seint á miðin og þorskurinn var magur, en skip Björgvins voru þó aflahæst þeirra þriggja íslensku útgerða sem þar veiddu um sumarið. Aflinn var lagður upp í skoskt móðurskip sem staðsett var í Færeyingahöfn svokallaðri, sem nú heitir Ilulissiat og er sunnan við Nuuk.

Örvæntingarfullt úrræði

En þó að aflabrögð glæddust aðeins dugði það ekki til að rétta við fjárhag Björgvins nema að litlu leyti. Og á Íslandi biðu óþreyjufullir lánadrottnar eftir hverri krónu sem hann fengi í vasann. Björgvin ákvað þá að grípa til úrræðis sem segja má að hafi einkennst af örvæntingu, þ.e. að sigla skipunum fjórum til Nýfundnalands, sem ásamt Labrador er austast af fylkjum Kanada, og hefja veiðar þar. Þetta hafði enginn íslenskur útgerðarmaður reynt áður. Dagblaðið Vísir birti frétt í byrjun október 1949 þar sem segir meðal annars: „Björgvin Bjarnason, útgerðarmaður frá Ísafirði, er nú á leið á fiskimiðin við Nýfundnaland með fiskiskipaflota sinn, en þar ætlar hann að stunda veiðar fram á næsta sumar við svokallaðar Frönsku eyjar (Saint-Pierre og Miquelon), sem eru fyrir sunnan Nýfundnaland. Á þeim slóðum eru góð fiskimið og veiðar stundaðar allt fram í nóvember, en aðalvertíðin hefst í marsmánuði. Íslenskar áhafnir sigla skipum Björgvins til Nýfundnalands, en síðan mun hluti þeirra koma flugleiðis hingað aftur. Mun Björgvin ætla að ráða erlenda fiskimenn á skip sín.“

Fljótt varð fjandinn laus við þessar fréttir. Tíminn, blað Framsóknarmanna, varð fyrstur til að fordæma þessa fyrirætlan og sagði hana hneykslanlega. Björgvin hefði ekki skilað þeim gjaldeyri sem hann hafði fengið fyrir sölu grænlenska aflans í Skotlandi og auk þess sent skip sín til veiðar við Nýfundnaland „án leyfis yfirvalda og rekið íslensku áhafnirnar af þeim, án þess að borga þeim einu sinni kaup sitt“. Kallað var eftir hörðum viðbrögðum ráðamanna. Jóhann Þ. Jósefsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann benti á að samkvæmt lögum væri útgerðarmönnum hvorki skylt að sækja um leyfi ráðuneytisins til að senda skip sín á fjarlæg fiskimið né að tilkynna ráðuneytinu um slíka fyrirætlan. Sigling skipanna til Nýfundnalands hefði hins vegar komið öllum á óvart, en þegar tíðindin bárust um hana og að skipverjar hefðu verið sendir kauplausir heim, hefði ríkisstjórnin samþykkt að fela dómsmálaráðherra rannsókn á málinu. Þá kærði viðskiptaráðuneytið Björgvin til sakadóms vegna vanskila á gjaldeyrinum sem hann fékk fyrir fisksöluna.

Auralitlir strandaglópar í ókunnugu landi

Skipverjar á bátunum voru peningalitlir þegar komið var í höfn á Nýfundnalandi, hálfgerðir strandaglópar í ókunnugu landi, og segir sagan að sumir þeirra hafi tekið upp á að sýna hnefaleika til að eiga fyrir mat og drykk. Nokkru síðar sendi Björgvin 53 þeirra sjómanna sem á skipunum höfðu starfað flugleiðis til Íslands, án þess að greiða þeim nema brot af sumarlaunum. Þeir voru því slyppir og snauðir við heimkomuna og skuldaði hann þeim 350 þúsund krónur að þávirði einsog nefnt var í upphafi. Að auki kom í ljós að Björgvin skuldaði einnig allan kost og annan útbúnað sem hann hafði fengið hjá fyrirtækjum á Íslandi fyrir Grænlandsútgerðina. Aðrar ógreiddar skuldir hans á Íslandi voru enn hærri, en þær voru sagðar alls um 3,7 milljónir króna að þávirði, m.a. hjá Samábyrgð Íslands (helsta tryggingafélagi sjávarútvegsins um áratuga skeið), Fiskveiðisjóði Íslands, Útvegsbanka Íslands, Framkvæmdasjóði o.fl. Þá tók Alþýðusamband Íslands, ASÍ, að sér mál áhafna bátanna og reyndi ákaft að fá ríkisstjórnina til að hlutast til um að þær fengju kaupið greitt og að skipin sneru heim, en án árangurs.

Hlutafélagið Richard Ltd. verður til

Björgvin fékk til liðs við sig Helga H. Zoega fiskútflytjanda og setti markið hátt. Þeir sneru sér til stjórnvalda á Nýfundnalandi skömmu eftir komuna þangað og föluðust eftir að þau legðu fé í útgerð skipanna, til að gera tilraun með síldveiðar á nærliggjandi miðum og kanna hvort unnt væri að nýta íslenskar veiðiaðferðir og veiðarfæri með arðbærum hætti á Nýfundnalandi. Stjórnvöld ytra tóku málaleitan þeirra vel og úr varð að hlutafélagið Richard Limited var stofnað. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar voru kosnir í stjórn þess, annars vegar sjávarútvegsráðherra Nýfundnalands og hins vegar heilbrigðisráðherra. Félaginu var veitt bankalán með ríkisábyrgð upp á 250 þúsund dollara, eða rúmar fjórar milljónir króna að þávirði. Skipin og búnaður þeirra voru sett sem veð fyrir láninu. Aðrir stjórnarmeðlimir voru Björgvin og þarlendur lögfræðingur að nafni Phil Lewis. 60 heimamenn voru ráðnir á skipin. Grótta og annar Huginn fengu að halda sínum nöfnum í útlandinu en hinir bátarnir fengu ensk heiti og kallaðist annar þeirra Come-by-Chance og hinn Pushthrough. Þáverandi forsætisráðherra Nýfundnalands, hinn litríki Joey Smallwood, gerði áformin að umtalsefni í nýársávarpi sínu og fagnaði þeim ákaft. Hann bauð íslensku útgerðarmennina hjartanlega velkomna til Nýfundnalands og hét þeim öllum þeim stuðningi sem væri í hans valdi að veita. Íslensku útgerðarmennirnir hefðu komið einsog „frelsandi englar” fyrir fábrotið atvinnulífið ytra. Íslendingarnir hygðust kenna nýtískuaðferðir við veiðar, aðferðir sem heimamenn þekktu ekki nema af orðspori, og hefðu meðferðis fjögur ágæt skip með fullkomnasta búnaði. Þá væri síðar meir von á íslenskum stúlkum til að kenna síldarverkun. Og einnig væri í bígerð að umsvifamikill íslenskur fiskframleiðandi kæmi til Nýfundnalands og opnaði þar nýtískulega fiskvinnslu og pökkunarstöð fyrir fisk. Framtíðin virtist björt. Nýársávarpið vakti ómælda athygli heima á Íslandi og var einsog olía á eldinn fyrir marga þá sem höfðu gagnrýnt Björgvin og gerðir hans sem harðast. „Eru íslenskir sjómenn ásáttir með það að framleiðslutækin séu tekin af þeim og notuð til að kenna öðrum þjóðum veiðiaðferðir okkar, og efla þær þannig til samkeppni við Íslendinga?” var spurt í ísfirska blaðinu Skutli. Óskar Halldórsson kom enn félaga sínum til varnar og sagði enga glóru í að kalla skipin heim, enda væri fyrirsjáanlegt að tap yrði á útgerð þeirra hér, jafnvel þó að þau myndu afla sæmilega, vegna þess hversu lágt afurðaverðið var. „Björgvin er alltof greindur og reyndur í útgerð til að sjá ekki að útgerð með línu hér við land, og ekki síður við Grænland, með þeim brjálaða tilkostnaði sem nú er, getur ekki gengið nema með ógurlegum verðuppbótum frá ríkissjóði, eða þá svo stórum taprekstri fyrir einstaklinga að hvorki þeir né bankar hérlendis geta risið undir honum,“ sagði Óskar.

Árið 1940 lét Björgvin smíða 84 tonna vélskipið Richard hjá Skipasmíðastöð Marzellíusar, sem þótti mikil völundarsmíði.
Árið 1940 lét Björgvin smíða 84 tonna vélskipið Richard hjá Skipasmíðastöð Marzellíusar, sem þótti mikil völundarsmíði.

Skuldir greiddar með skilyrðum

Þegar vika var liðin af febrúar 1950 greindi Alþýðublaðið frá því að Björgvin hefði boðist til að greiða sjóveðin sem hvíldu á bátum hans og ýmsar aðrar skuldir, þar á meðal hluta af ógreiddu kaupi skipverja, ef hann fengi útflutningsleyfi frá íslenskum stjórnvöldum fyrir bátunum fjórum. Kallaði blaðið þessi skilyrði fyrir að greiða eigin skuldir „furðulega ósvífni“ eftir það sem á undan var gengið. Blaðið fór mikinn, sagði málið „einstakt hneyksli“ og kallaði Björgvin meðal annars næstu mánuði „svindlara“ og „einn ósvífnasta lukkuriddara sem atvinnusaga okkar á þessari öld getur um“. Tæpum mánuði síðar lögðu þrír þingmenn Alþýðuflokksins fram þingsályktunartillögu þar sem skorað var á ríkisstjórnina að banna Björgvini útflutninginn á bátunum, gera ráðstafanir til að kalla skipin heim til Íslands og tryggja áhöfnunum laun þeirra frá fyrra sumri. Þingmennirnir sögðu að taka yrði þetta mál föstum tökum og án tafa: „Augljóst er að missir fjögurra skipa veldur mjög alvarlegu atvinnutjóni og fjárhagslegu tjóni fyrir ekki stærri bæ en Ísafjarðarkaupstað. Brottflutningur skipanna á þann hátt, sem hann var framkvæmdur myndi, ef staðfestur væri með útflutningsleyfi, gefa fordæmi sem haft gæti hinar alvarlegustu afleiðingar, og jafnvel stefna aðalatvinnuvegi okkar, sjávarútveginum, í hreinan voða. Slíkt fordæmi væri hið hættulegasta. Skipaeigendur sem ekki gætu staðið við skuldbindingar sínar myndu þá freistast til að sigla skipum sínum úr landi og sem lengst í burtu, svo að ekki svaraði kostnaði að sækja þau.”

Fjallað um för  Björgvins til  Nýfundnalands  og ræðu J. R.  Smallwood,  forsætisráðherra  Nýfundnalands, í  Alþýðublaðinu 4.  febrúar 1950.
Fjallað um för Björgvins til Nýfundnalands og ræðu J. R. Smallwood, forsætisráðherra Nýfundnalands, í Alþýðublaðinu 4. febrúar 1950.

Þingslályktunartillagan var rædd á fundi sameinaðs Alþingis 9. mars og mótmælti Norður-Ísfirðingurinn Sigurður Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, henni harðlega. Sigurður sakaði dagblöðin sem fjallað höfðu mest um málið um æsingarskrif og fullyrti að þau færu með blekkingar einar. Fyrst og fremst mætti kenna íslenskum áhöfnum skipanna um að fyrstu áform Björgvins um veiðar við Nýfundnaland höfðu farið út um þúfur. Áhafnirnar hefðu óskað að hætta veiðum og halda heim skömmu eftir komuna þangað, eftir þó að hafa áður samþykkt einróma að halda til Nýfundnalands. Björgvin hefði alltaf ætlað sér að sigla til Englands með aflann eftir veiðarnar og síðan heim til Íslands. Sigurður sagði það óneitanlega þungt áfall fyrir Ísafjörð að skipin skyldu sitja föst í skuldum í fjarlægu landi en „hér liggur ekki til grundvallar „flótti“ eða sviksamlegur tilgangur, einsog dylgjað hefur verið um“. Honum væri meira að segja kunnugt um að Björgvin hefði fullan hug á að snúa heim hið fyrsta, annaðhvort með skipin fjögur eða önnur skip ef hann næði að rétta úr kútnum ytra. Þingsályktunartillaga Alþýðuflokksmanna var felld og ríkisstjórnin veitti Björgvini útflutningsleyfi fyrir bátunum, auk þess að honum var heimilað að sækja síldarbúnað og veiðarfæri sem hann átti á Ísafirði, gegn því að hann greiddi 1,7 milljónir króna af þeim 3,7 milljónum króna að þávirði sem hann skuldaði. „Þetta hneyksli á sér áreiðanlega ekkert fordæmi hér á landi,“ sagði leiðarahöfundur Alþýðublaðsins ómyrkur í máli. „En Björgvin getur vissulega brosað í kampinn. Hann fékk útflutningsleyfið fyrir bátunum sem hann strauk með úr landi sl. sumar og beinlínis verið verðlaunaður af núverandi ríkisstjórn fyrir það tiltæki. Og í stað þess að vera stefnt fyrir íslenska dómstóla til þess að standa þar fyrir máli sínu, hefur hann raunverulega fengið kvittun fyrirfram fyrir þeim sektum og refsingum sem hann lögum samkvæmt ætti að fá fyrir gjaldeyrisbrak og hvers konar svindl.“

Grótta, 270 tonna eikarbátur, 104 feta langur, smíðaður í Frakklandi 1920 og  breyttur 1942. Aðalvél, 320 hestöfl.
Grótta, 270 tonna eikarbátur, 104 feta langur, smíðaður í Frakklandi 1920 og breyttur 1942. Aðalvél, 320 hestöfl.

Árangurslausar tilraunaveiðar

Undir lok mars hélt Alþýðublaðið áfram fréttaflutningi sínum af málefnum Björgvins og fullyrti að stjórnvöld á Nýfundnalandi hefðu snúið baki við honum. Þau neituðu því nú opinberlega að hafa staðið í nokkrum samskiptum við hann eða stutt hann fjárhagslega. Forsætisráðherrann Joey Smallwood hefði verið spurður um málið á fylkisþinginu í Saint Johns, en ekkert viljað við það kannast. Stjórnvöldin hefðu í kjölfarið sent frá sér yfirlýsingu þar sem segði m.a. að ekkert samkomulag hefði verið gert við íslenska útgerðarmenn: „Stjórnin hefur ekki ábyrgst neinu slíku félagi, ef til er, neins konar fjárhagslega aðstoð. Engin bréfaskipti hafa átt sér stað milli stjórnarinnar og Íslendinganna.“ Þá hefðu skipin legið óhreyfð í höfn í Saint Johns frá því að íslensku sjómennirnir flugu heim, og engir heimamenn verið ráðnir á þau í staðinn. Þessar fregnir voru þó málum blandin, því að þegar voraði hófust tilraunir til síldveiða á ísfirsku bátunum og voru þeir í fyrstu gerðir út frá bænum Channel-Port aux Basques, efst á suðvesturhluta Nýfundnalands. Bátarnir reyndu að veiða meðfram suður- og austurströndum Nýfundnalands og allt norður til Labrador, en árangurinn olli sárum vonbrigðum. Í viðtali við dagblaðið The Evening Telegram í júlílok viðurkenndi Smallwood að talsvert hefði verið hæðst að síldarleitinni og augljósu árangursleysi hennar, en hann hefði samt trú á framtíð síldariðnaðar á svæðinu. Leitin næstu mánuði skilaði áfram rýrri uppskeru. Í september bárust síðan tíðindi af því að kanadískar áhafnir skipanna hefðu gert „uppreisn” þegar sigla átti þeim norðar og fjær heimahögum en þær töldu óhætt. Þá kom í ljós að stjórnvöld á Nýfundnalandi töldu sig eiga bátana alla og leystu þá til sín, enda lagt Björgvini til ríkisábyrgðir á háum lánum og hann ekki staðið í skilum. Og lokafréttir af þessu ævintýri birtust í desember 1950: „Ríkisstjórn Nýfundnalands hefur nú tekið í sínar hendur allar eignir fyrirtækisins Richard Ltd., en það var stofnað af Björgvini Bjarnasyni útgerðarmanni frá Ísafirði til þess að reka þar vestra bátana fjóra, sem hann flutti þangað í fyrra. Nýfundnalandsstjórn lánaði Björgvini allmikið fé gegn veði í skipunum, og hefur nú skipað fimm manna nefnd til að annast stjórn bátanna. Allir nefndarmenn eru ráðherrar.“

Í febrúar 1951 tilkynnti Smallwood síðan opinberlega að ríkisstjórn Nýfundnalands hefði ákveðið að hætta með öllu útgerð íslensku bátanna fjögurra, og öll áform um frekari tilraunaveiðar og fiskileit verið svæfð. Svo fór um sjóferð þá, og endaði þessi fyrsta útrás íslenskra útgerðarmanna því heldur dapurlega. En þó svo að fyrirtækið hafi farið í þrot og verkefnið lagt á hilluna, voru ekki allir ósáttir við hvernig til tókst. Vorið 1951 settist blaðamaður The Evening Telegram niður með kanadísku skipstjórum skipanna fjögurra, í messanum í Gróttu. Þá lágu skipin óhreyfð við landfestar í höfninni í Saint Johns og framtíð þeirra óráðin, enda kölluð „svörtu sauðirnir“ í verkefnum þarlendra stjórnvalda. Skipstjórarnir sögðu hins vegar að íslensku veiðiaðferðirnar drægju ekki aðeins úr erfiði sjómanna heldur ykju líka tekjuvonir þeirra til muna. „Þetta verkefni var það besta sem nokkur stjórnvöld hafa hrint í framkvæmd í þeim tilgangi að bæta þær veiðiaðferðir sem áður voru í notkun,“ fullyrti einn skipstjórinn og hinir tóku undir þá skoðun einum rómi. Skipin voru síðan auglýst í sölu í júlí og sneru aldrei til Íslands.

Umsvifamikill í rækjuvinnslu

Björgvin kom heim til Íslands nokkru síðar og lét lítið fyrir sér fara næstu ár á eftir. En hann var ekki af baki dottinn og árið 1959 bárust af því fregnir að hann væri aðaleigandi nýtískulegrar rækjuvinnslu sem væri verið að stofnsetja á Langeyri í Álftafirði, en þar hafði verið hvalstöð og fiskvinnsla á árum áður. Þremur árum síðar festi hann kaup á 90 tonna bát til rækjuveiða og ennfremur öllum mannvirkjum á Langeyri og lét reisa ný til viðbótar. Hann rak þar öfluga rækjuverksmiðju, niðursuðuverksmiðju og hraðfrystihús um áratugaskeið. Jafnframt setti hann upp skrifstofu í Reykjavík til að annast rækjuútflutning og var einnig með umboðsmann fyrir söluna á skrifstofu í London, lengst af son sinn. Björgvin andaðist á sjúkrahúsi í Danmörku eftir skurðaðgerð sumarið 1983, og átti þá aðeins fáeinar vikur í áttræðisafmæli sitt. Hann tjáði sig aldrei opinberlega um ævintýrið sérkennilega á Nýfundnalandi.

Fjallað var um útgerðarævintýri Ísfirðingsins Björgvins Bjarnasonar í sjómannadagsblaði Fiskifrétta í síðustu viku. Greinin birtist hér í netútgáfu blaðsins óstytt.

EFTIR SINDRA FREYSSON

Haustið 1949 stímdu fjögur helstu skip Ísfirðinga yfir úfið haf frá Grænlandi, mönnuð á sjöunda tug hraustra sjómanna. Í skipverjunum var þó urgur og lítill ferðahugur. Siglingin var ákvörðun athafnamannsins Björgvins Bjarnasonar, ákvörðun sem var upphafið að stórfurðulegu útgerðarævintýri hans í Vesturheimi og ein fyrsta útrásartilraunin á því sviði.

Skipin fjögur plægðu öldurnar á hraða sem virtist óhagganlegur. Grænland fjarlægðist hægt í baksýn með sín hrikalegu jakaból. Tímafrek sigling var fyrir höndum, stefnan var tekin á Nýfundnaland. Mennirnir um borð voru á sjöunda tug talsins, flestir Vestfirðingar, og höfðu verið á þorskveiðum við Grænland allt sumarið og fram á haustið 1949. Þeir höfðu aflað sæmilega og voru löngu orðnir fullir tilhlökkunar að komast heim til kvenna og barna eftir langt og strembið úthald. En þegar veiðunum lauk í byrjun október hafði þeim óvænt verið tilkynnt að sigla ætti skipunum til Nýfundnalands, tilkynning sem kom þeim öllum í opna skjöldu og lagðist þungt í þá.

Siglingin á þessar fjarlægu slóðir var ákvörðun útgerðarmanns allra skipanna, Björgvins Bjarnasonar, og ekki bætti úr skák að hann skuldaði þeim laun fyrir allt sumarpúlið, 350 þúsund krónur, eða um 35 milljónir króna á núvirði framreiknað miðað við vísitölu neysluverðs. Þessi ákvörðun Björgvins átti eftir að valda miklu fjaðrafoki hér heima.

Rafvirki sem hóf útgerð

Björgvin Bjarnason var um árabil einn umsvifamesti útvegs- og athafnamaður á Ísafirði. Hann fæddist á Akureyri árið 1903 og fluttist kornungur til Ísafjarðar með foreldrum sínum, Bjarna Bjarnasyni ökumanni, og Auði Jóhannsdóttur. Yngsti bróðir hans var Matthías Bjarnason, lengi þingmaður og um skeið sjávarútvegsráðherra á áttunda áratugnum. Fyrir vestan byggðu þau hjón sér reisulegt hús að þeirra tíðar vísu og hesthús fyrir kerruhesta Bjarna, en hann varð síðar frumkvöðull í notkun bíla við aksturinn.

Björgvin lagði leið sína til Danmerkur strax að afloknu skyldunámi og lærði þar rafvirkjun. Eftir heimkomuna vann hann að fyrstu rafstöðinni og raflögnum á Ísafirði og aðeins 19 ára gamall tók hann að sér að koma upp rafveitu fyrir Sauðárkrók. Honum tókst þó ekki að ljúka því verki og þegar hann flutti aftur til Ísafjarðar hóf hann að gera sig gildandi í sjávarútvegi. Hann fékkst við brotajárnsviðskipti, keypti strönduð skip á útnesjum og víðar og stofnaði síðan litla beinamjölsverksmiðju í Stakkanesi sem gekk prýðilega og gaf honum byr undir báða vængi. Í ársbyrjun 1934 áttu Björgvin og Jóhann J. Eyfirðingur, kaup- og útgerðarmaður á Ísafirði, frumkvæði að stofnun útgerðarfélags þar í bæ sem nefnt var Huginn. Þeir fengu til liðs við sig ýmsa þekkta borgara og fyrirtæki fyrir vestan og tókst að safna talsverðu hlutafé til að hefjast handa. Í fyrstu stjórn félagsins voru kosnir með honum þeir Arngrímur Fr. Bjarnason ritstjóri og Jóhann J. Eyfirðingur. Arngrímur hafði mörg járn í eldinum fyrir vestan, enda með stóran barnahóp á framfæri, þekktast þeirra var Jósafat Arngrímsson, sem átti eftir að verða umsvifamikill og umdeildur athafnamaður á Suðurnesjum og erlendis, en Jóhann komst í landsfréttir á stríðsárunum þegar Bretar handtóku hann og fluttu til Bretlands fyrir að hafa veitt þýskum flóttamanni liðveislu.

Huginn I kom til Ísafjarðar seint í júlímánuði 1934.
Huginn I kom til Ísafjarðar seint í júlímánuði 1934.

Þrír glæsilegir bátar Hugins

Á stofnfundi Hugins var samþykkt að láta smíða nýja og vandaða vélbáta, um 60 tonn hvern, í stað þess að kaupa gömul skip, þótt nægt framboð væri af þeim víða. Björgvin og annar erindreki félagsins héldu utan til að ná sem bestum samningum um bátasmíðina, sá fyrrnefndi til Danmerkur en sá síðarnefndi ferðaðist um Noreg og Svíþjóð. Fóru leikar svo að hagkvæmustu samningarnir náðust í Danmörku. Stefnt hafði verið að því að láta smíða fimm skip en vegna fjárskorts varð að láta þrjú nægja. Fyrsti vélbátur félagsins, Huginn I, kom til Ísafjarðar seint í júlímánuði 1934, Huginn II kom í lok ágúst sama ár, og Huginn III í ársbyrjun 1935, og voru þá stærstu fiskibátar bæjarins. Fyrirtækið var að mörgu leyti í fararbroddi í útgerðarmálum síns tíma og lét t.d. útbúa bátana með botnvörpum, og voru þeir fyrstu vestfirsku vélbátarnir sem stunduðu slíkar veiðar að ráði. Var þetta gert fyrst og fremst til að lengja úthaldstíma þeirra og þar með verðmætasköpun. Bátarnir voru gerðir út jöfnum höndum á þorskveiðar og síldveiðar. Björgvin var framkvæmdastjóri Hugins fyrstu tvö árin en síðan kom upp ósætti á milli hans og annarra hluthafa sem þótti hann fara heldur of geyst, sem varð til þess að hann hrökklaðist frá fyrirtækinu að sinni.

Um 1940 lét Björgvin smíða 84 tonna vélskipið Richard hjá Skipasmíðastöð Marzellíusar, sem þótti mikil völundarsmíði. Ríkisstjórnin ákvað haustið 1942 að Richard skyldi gegna eftirlits- og björgunarstörfum fyrir Vestfjörðum um veturinn, og var áhöfninni m.a. falið að eyða nýjum hættum sem styrjöldinni fylgdi fyrir sjófarendur, svo sem að skjóta niður rekdufl. Hann keypti síðan sumarið 1941 vélskipið Gróttu, sem áður hét Tvey systkin, en það var dönsk skonnerta, traustlega byggð en nokkuð við aldur. Hann setti í hana nýja og öfluga vél og bætti alla aðstöðu um borð, svo mjög að þegar endurbótunum var lokið kallaði sjómannablaðið Víkingur hana „landsins flottasta fiskibát”. Grótta stundaði í fyrstu fiskflutninga til Bretlands og lönduðu minni bátar í skipið eins og var algengt fyrirkomulag á þessum tíma. Grótta var stærsti og best útbúni bátur á Ísafirði næstu ár á eftir. Skipin sigldu bæði með ísfisk til Bretlands síðari heimsstyrjaldarárin og stunduðu einnig síldveiðar. Árið 1943 keypti hann síðan og rak sanddæluskipið Hák og leigði út við hafnardýpkanir og fleiri verk.

Óvenju stórhuga og harðfylginn

Huginni hf. farnaðist vel og á stríðsárunum stigu hlutabréf félagsins hratt í verði. Björgvin hafði um árabil viljað endurheimta völd sín í félaginu en ekki haft fjárhagslegt bolmagn til þess fyrr en stríðsárahagnaðurinn gerði það kleift. Eftir þónokkra valdabaráttu innan félagsins kom í ljós á Þorláksmessu 1943 að allir stjórnarmenn félagsins höfðu selt Björgvini hlutabréf sín, og sögðu þeir af sér í kjölfarið. Þáttur í samkomulaginu um þau viðskipti var að Arngrímur Fr. og skipstjórinn á Hugin II eignuðust þann bát og hófu sjálfstæða útgerð á honum. Eftir að Björgvin eignaðist meirihluta hlutafjár og vélbátar Hugins bættust við útgerðina var atvinnurekstur hans orðinn mjög umfangsmikill á þess tíma mælikvarða, sérstaklega auðvitað þegar aðeins er litið til Ísafjarðar og nágrennis. Hann átti fjóra af stærstu bátunum á Ísafirði, rak umfangsmikla síldarsöltunarstöð á Hólmavík og varð að minnsta kosti eitt árið hæsti síldarsaltandi yfir landið. Arngrímur Fr. vinur hans og viðskiptafélagi lýsti Björgvini svo í blaðagrein af tilefni fertugsafmælis hans árið 1943: „Björgvin Bjarnason er óvenjulega stórhuga maður, hugkvæmur og harðfylginn í hverju þvi er hann tekst á hendur. Hann hefur einsog flestir íslenskir útvegsmenn átt við misjafnar aðstæður að búa, stundum þröngan kost og margháttaða örðugleika, stundum velsæld og gróða. Björgvin Bjarnason verðskuldar velgengni sína. Hann er maður með afbrigðum greiðvikinn og hjálpsamur, og smásmygli öll er honum fjarri skapi.“

Huginn I, II og III.
Huginn I, II og III.

Björgvin spilaði þó stundum ansi djarft og var meðal annars sakaður um að hafa látið sigla Gróttu burt frá Reykjavík árið 1944, ofhlaðinni fiski, þvert á fyrirmæli yfirvalda um að létta á skipinu. Annað slíkt mál kom upp ári síðar, en þá var Grótta svo ofhlaðin að hleðslustjóri á Ísafirði gaf fyrirmæli um að taka skyldi úr skipinu 8-10 tonn af fiski. Yfirmenn skipsins töldu það óþarft og var þá leitað til Björgvins útgerðarmanns, sem neitaði kröfu hleðslustjóra um að tekið yrði úr skipinu við bryggjuna. Hleðslustjóri féllst þá á að fara með skipinu út á fjörð og henda þar umtalsverðu magni af fiski í sjóinn, mun minna þó en krafist hafði verið í upphafi. „Hvernig getur nokkur þorpari tekið sig betur út í eigin gálga en Björgvin Bjarnason gerir þarna? Hann hlýtur að hafa æfingu í að koma spottanum um eigin háls, maðurinn sá,“ skrifaði Hannibal Valdimarsson, krati og ritstjóri Skutuls um það atvik og sakaði hann um ósvífni og græðgi. Þetta væri „fáheyrð og sjúkleg viðleitni til að fótumtroða lög og reglur sem settar eru til að vernda líf sjómannanna“.

Um líkt leyti tapaði Björgvin máli sem Sjómannafélag Ísfirðinga hafði höfðað á hendur honum vegna vangoldinna launa til sjómanna sem höfðu verið á skipum hans við síldveiðar 1944.

Niður í öldudal

En að styrjöldinni lokinni fór hins vegar að halla undan fæti. Útflutningur á fiski til Englands tók krappa dýfu og duttlungafull síldin hvarf sífellt oftar og lengur og skildi eftir margar íslenskar útgerðir og síldarsaltendur rambandi til falls. Nú voru góð ráð dýr. Eftir að síldveiðin brást sumar eftir sumar urðu stöðugt háværari raddir um að vélbátaflotinn ætti ekki að einblína á síldveiðar heldur stunda þorskveiði samhliða. Ýmsir horfðu til Grænlandsmiða í því sambandi og vitnuðu í góða veiðireynslu Norðmanna og Færeyinga á þeim slóðum. Ef marka mátti fréttir frá frændum okkar væru þar gósenmið og hægt að moka upp gulli hafsins með lítilli fyrirhöfn. Flestar útgerðir kusu þó að tóra á heimaslóðum í von um að síldin sneri aftur til Íslands, en snemma árs 1949 ákváðu þrír aðilar eftir miklar bollaleggingar að halda í leiðangra til Grænlands og freista þar gæfunnar. Einn þeirra var Björgvin. Margir vissu að hann átti við mikla fjárhagsörðugleika að stríða þegar hann ákvað að hefja Grænlandsútgerðina og vægast sagt torsótt orðið fyrir hann að fá fyrirgreiðslu lánastofnana. Útgerðarmaðurinn og síldarspekúlantinn Óskar Halldórsson, oft nefndur Íslandsbersi, reyndi að rétta honum hjálparhönd með því að biðja bankastjóra að veita honum lán til útgerðarinnar, en varð brátt ljóst að fáir vildu greiða götu vestfirska útgerðarmannsins. „Svarið var ósköp einfalt. Það var á þá leið, að það kæmi ekki til mála að lána peninga til þessarar Grænlandsútgerðar,“ sagði Óskar frá fundum sínum í bönkunum. Óskar hrósaði þó Björgvini í hástert og reyndi þannig greinilega að efla trú banka og annarra fjársterkra aðila á þessum vini sínum: „Björgvin Bjarnason er að mínu áliti hæfastur af þeim útgerðarmönnum sem ég þekki, til þessarar útgerðar. Hann sameinar það að vera góður útgerðarmaður, fjölhæfur verslunarmaður á sölu sjávarafurða og flestum hugmyndaríkari. Þegar þetta allt er sameinað í einum manni verður hann íslensku þjóðinni betri og gagnlegri en flestir aðrir.”

Óskar Halldórsson síldarspekúlant.
Óskar Halldórsson síldarspekúlant.

Á Grænlandsmið

Í byrjun sumars 1949 hélt Björgvin með öll sín veiðiskip til Grænlands, Huginn I og II, Richard og Gróttu. Bátarnir voru að mestu leyti mannaðir Vestfirðingum, 15 menn á Hugin I, 15 á Hugin II, 16 á Richard og 18 á Gróttu, eða samtals 64 skipverjar. Veiðar gengu nokkuð brösuglega, meðal annars vegna ókunnugleika Íslendinganna á aðstæðum, skipin höfðu komið of seint á miðin og þorskurinn var magur, en skip Björgvins voru þó aflahæst þeirra þriggja íslensku útgerða sem þar veiddu um sumarið. Aflinn var lagður upp í skoskt móðurskip sem staðsett var í Færeyingahöfn svokallaðri, sem nú heitir Ilulissiat og er sunnan við Nuuk.

Örvæntingarfullt úrræði

En þó að aflabrögð glæddust aðeins dugði það ekki til að rétta við fjárhag Björgvins nema að litlu leyti. Og á Íslandi biðu óþreyjufullir lánadrottnar eftir hverri krónu sem hann fengi í vasann. Björgvin ákvað þá að grípa til úrræðis sem segja má að hafi einkennst af örvæntingu, þ.e. að sigla skipunum fjórum til Nýfundnalands, sem ásamt Labrador er austast af fylkjum Kanada, og hefja veiðar þar. Þetta hafði enginn íslenskur útgerðarmaður reynt áður. Dagblaðið Vísir birti frétt í byrjun október 1949 þar sem segir meðal annars: „Björgvin Bjarnason, útgerðarmaður frá Ísafirði, er nú á leið á fiskimiðin við Nýfundnaland með fiskiskipaflota sinn, en þar ætlar hann að stunda veiðar fram á næsta sumar við svokallaðar Frönsku eyjar (Saint-Pierre og Miquelon), sem eru fyrir sunnan Nýfundnaland. Á þeim slóðum eru góð fiskimið og veiðar stundaðar allt fram í nóvember, en aðalvertíðin hefst í marsmánuði. Íslenskar áhafnir sigla skipum Björgvins til Nýfundnalands, en síðan mun hluti þeirra koma flugleiðis hingað aftur. Mun Björgvin ætla að ráða erlenda fiskimenn á skip sín.“

Fljótt varð fjandinn laus við þessar fréttir. Tíminn, blað Framsóknarmanna, varð fyrstur til að fordæma þessa fyrirætlan og sagði hana hneykslanlega. Björgvin hefði ekki skilað þeim gjaldeyri sem hann hafði fengið fyrir sölu grænlenska aflans í Skotlandi og auk þess sent skip sín til veiðar við Nýfundnaland „án leyfis yfirvalda og rekið íslensku áhafnirnar af þeim, án þess að borga þeim einu sinni kaup sitt“. Kallað var eftir hörðum viðbrögðum ráðamanna. Jóhann Þ. Jósefsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann benti á að samkvæmt lögum væri útgerðarmönnum hvorki skylt að sækja um leyfi ráðuneytisins til að senda skip sín á fjarlæg fiskimið né að tilkynna ráðuneytinu um slíka fyrirætlan. Sigling skipanna til Nýfundnalands hefði hins vegar komið öllum á óvart, en þegar tíðindin bárust um hana og að skipverjar hefðu verið sendir kauplausir heim, hefði ríkisstjórnin samþykkt að fela dómsmálaráðherra rannsókn á málinu. Þá kærði viðskiptaráðuneytið Björgvin til sakadóms vegna vanskila á gjaldeyrinum sem hann fékk fyrir fisksöluna.

Auralitlir strandaglópar í ókunnugu landi

Skipverjar á bátunum voru peningalitlir þegar komið var í höfn á Nýfundnalandi, hálfgerðir strandaglópar í ókunnugu landi, og segir sagan að sumir þeirra hafi tekið upp á að sýna hnefaleika til að eiga fyrir mat og drykk. Nokkru síðar sendi Björgvin 53 þeirra sjómanna sem á skipunum höfðu starfað flugleiðis til Íslands, án þess að greiða þeim nema brot af sumarlaunum. Þeir voru því slyppir og snauðir við heimkomuna og skuldaði hann þeim 350 þúsund krónur að þávirði einsog nefnt var í upphafi. Að auki kom í ljós að Björgvin skuldaði einnig allan kost og annan útbúnað sem hann hafði fengið hjá fyrirtækjum á Íslandi fyrir Grænlandsútgerðina. Aðrar ógreiddar skuldir hans á Íslandi voru enn hærri, en þær voru sagðar alls um 3,7 milljónir króna að þávirði, m.a. hjá Samábyrgð Íslands (helsta tryggingafélagi sjávarútvegsins um áratuga skeið), Fiskveiðisjóði Íslands, Útvegsbanka Íslands, Framkvæmdasjóði o.fl. Þá tók Alþýðusamband Íslands, ASÍ, að sér mál áhafna bátanna og reyndi ákaft að fá ríkisstjórnina til að hlutast til um að þær fengju kaupið greitt og að skipin sneru heim, en án árangurs.

Hlutafélagið Richard Ltd. verður til

Björgvin fékk til liðs við sig Helga H. Zoega fiskútflytjanda og setti markið hátt. Þeir sneru sér til stjórnvalda á Nýfundnalandi skömmu eftir komuna þangað og föluðust eftir að þau legðu fé í útgerð skipanna, til að gera tilraun með síldveiðar á nærliggjandi miðum og kanna hvort unnt væri að nýta íslenskar veiðiaðferðir og veiðarfæri með arðbærum hætti á Nýfundnalandi. Stjórnvöld ytra tóku málaleitan þeirra vel og úr varð að hlutafélagið Richard Limited var stofnað. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar voru kosnir í stjórn þess, annars vegar sjávarútvegsráðherra Nýfundnalands og hins vegar heilbrigðisráðherra. Félaginu var veitt bankalán með ríkisábyrgð upp á 250 þúsund dollara, eða rúmar fjórar milljónir króna að þávirði. Skipin og búnaður þeirra voru sett sem veð fyrir láninu. Aðrir stjórnarmeðlimir voru Björgvin og þarlendur lögfræðingur að nafni Phil Lewis. 60 heimamenn voru ráðnir á skipin. Grótta og annar Huginn fengu að halda sínum nöfnum í útlandinu en hinir bátarnir fengu ensk heiti og kallaðist annar þeirra Come-by-Chance og hinn Pushthrough. Þáverandi forsætisráðherra Nýfundnalands, hinn litríki Joey Smallwood, gerði áformin að umtalsefni í nýársávarpi sínu og fagnaði þeim ákaft. Hann bauð íslensku útgerðarmennina hjartanlega velkomna til Nýfundnalands og hét þeim öllum þeim stuðningi sem væri í hans valdi að veita. Íslensku útgerðarmennirnir hefðu komið einsog „frelsandi englar” fyrir fábrotið atvinnulífið ytra. Íslendingarnir hygðust kenna nýtískuaðferðir við veiðar, aðferðir sem heimamenn þekktu ekki nema af orðspori, og hefðu meðferðis fjögur ágæt skip með fullkomnasta búnaði. Þá væri síðar meir von á íslenskum stúlkum til að kenna síldarverkun. Og einnig væri í bígerð að umsvifamikill íslenskur fiskframleiðandi kæmi til Nýfundnalands og opnaði þar nýtískulega fiskvinnslu og pökkunarstöð fyrir fisk. Framtíðin virtist björt. Nýársávarpið vakti ómælda athygli heima á Íslandi og var einsog olía á eldinn fyrir marga þá sem höfðu gagnrýnt Björgvin og gerðir hans sem harðast. „Eru íslenskir sjómenn ásáttir með það að framleiðslutækin séu tekin af þeim og notuð til að kenna öðrum þjóðum veiðiaðferðir okkar, og efla þær þannig til samkeppni við Íslendinga?” var spurt í ísfirska blaðinu Skutli. Óskar Halldórsson kom enn félaga sínum til varnar og sagði enga glóru í að kalla skipin heim, enda væri fyrirsjáanlegt að tap yrði á útgerð þeirra hér, jafnvel þó að þau myndu afla sæmilega, vegna þess hversu lágt afurðaverðið var. „Björgvin er alltof greindur og reyndur í útgerð til að sjá ekki að útgerð með línu hér við land, og ekki síður við Grænland, með þeim brjálaða tilkostnaði sem nú er, getur ekki gengið nema með ógurlegum verðuppbótum frá ríkissjóði, eða þá svo stórum taprekstri fyrir einstaklinga að hvorki þeir né bankar hérlendis geta risið undir honum,“ sagði Óskar.

Árið 1940 lét Björgvin smíða 84 tonna vélskipið Richard hjá Skipasmíðastöð Marzellíusar, sem þótti mikil völundarsmíði.
Árið 1940 lét Björgvin smíða 84 tonna vélskipið Richard hjá Skipasmíðastöð Marzellíusar, sem þótti mikil völundarsmíði.

Skuldir greiddar með skilyrðum

Þegar vika var liðin af febrúar 1950 greindi Alþýðublaðið frá því að Björgvin hefði boðist til að greiða sjóveðin sem hvíldu á bátum hans og ýmsar aðrar skuldir, þar á meðal hluta af ógreiddu kaupi skipverja, ef hann fengi útflutningsleyfi frá íslenskum stjórnvöldum fyrir bátunum fjórum. Kallaði blaðið þessi skilyrði fyrir að greiða eigin skuldir „furðulega ósvífni“ eftir það sem á undan var gengið. Blaðið fór mikinn, sagði málið „einstakt hneyksli“ og kallaði Björgvin meðal annars næstu mánuði „svindlara“ og „einn ósvífnasta lukkuriddara sem atvinnusaga okkar á þessari öld getur um“. Tæpum mánuði síðar lögðu þrír þingmenn Alþýðuflokksins fram þingsályktunartillögu þar sem skorað var á ríkisstjórnina að banna Björgvini útflutninginn á bátunum, gera ráðstafanir til að kalla skipin heim til Íslands og tryggja áhöfnunum laun þeirra frá fyrra sumri. Þingmennirnir sögðu að taka yrði þetta mál föstum tökum og án tafa: „Augljóst er að missir fjögurra skipa veldur mjög alvarlegu atvinnutjóni og fjárhagslegu tjóni fyrir ekki stærri bæ en Ísafjarðarkaupstað. Brottflutningur skipanna á þann hátt, sem hann var framkvæmdur myndi, ef staðfestur væri með útflutningsleyfi, gefa fordæmi sem haft gæti hinar alvarlegustu afleiðingar, og jafnvel stefna aðalatvinnuvegi okkar, sjávarútveginum, í hreinan voða. Slíkt fordæmi væri hið hættulegasta. Skipaeigendur sem ekki gætu staðið við skuldbindingar sínar myndu þá freistast til að sigla skipum sínum úr landi og sem lengst í burtu, svo að ekki svaraði kostnaði að sækja þau.”

Fjallað um för  Björgvins til  Nýfundnalands  og ræðu J. R.  Smallwood,  forsætisráðherra  Nýfundnalands, í  Alþýðublaðinu 4.  febrúar 1950.
Fjallað um för Björgvins til Nýfundnalands og ræðu J. R. Smallwood, forsætisráðherra Nýfundnalands, í Alþýðublaðinu 4. febrúar 1950.

Þingslályktunartillagan var rædd á fundi sameinaðs Alþingis 9. mars og mótmælti Norður-Ísfirðingurinn Sigurður Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, henni harðlega. Sigurður sakaði dagblöðin sem fjallað höfðu mest um málið um æsingarskrif og fullyrti að þau færu með blekkingar einar. Fyrst og fremst mætti kenna íslenskum áhöfnum skipanna um að fyrstu áform Björgvins um veiðar við Nýfundnaland höfðu farið út um þúfur. Áhafnirnar hefðu óskað að hætta veiðum og halda heim skömmu eftir komuna þangað, eftir þó að hafa áður samþykkt einróma að halda til Nýfundnalands. Björgvin hefði alltaf ætlað sér að sigla til Englands með aflann eftir veiðarnar og síðan heim til Íslands. Sigurður sagði það óneitanlega þungt áfall fyrir Ísafjörð að skipin skyldu sitja föst í skuldum í fjarlægu landi en „hér liggur ekki til grundvallar „flótti“ eða sviksamlegur tilgangur, einsog dylgjað hefur verið um“. Honum væri meira að segja kunnugt um að Björgvin hefði fullan hug á að snúa heim hið fyrsta, annaðhvort með skipin fjögur eða önnur skip ef hann næði að rétta úr kútnum ytra. Þingsályktunartillaga Alþýðuflokksmanna var felld og ríkisstjórnin veitti Björgvini útflutningsleyfi fyrir bátunum, auk þess að honum var heimilað að sækja síldarbúnað og veiðarfæri sem hann átti á Ísafirði, gegn því að hann greiddi 1,7 milljónir króna af þeim 3,7 milljónum króna að þávirði sem hann skuldaði. „Þetta hneyksli á sér áreiðanlega ekkert fordæmi hér á landi,“ sagði leiðarahöfundur Alþýðublaðsins ómyrkur í máli. „En Björgvin getur vissulega brosað í kampinn. Hann fékk útflutningsleyfið fyrir bátunum sem hann strauk með úr landi sl. sumar og beinlínis verið verðlaunaður af núverandi ríkisstjórn fyrir það tiltæki. Og í stað þess að vera stefnt fyrir íslenska dómstóla til þess að standa þar fyrir máli sínu, hefur hann raunverulega fengið kvittun fyrirfram fyrir þeim sektum og refsingum sem hann lögum samkvæmt ætti að fá fyrir gjaldeyrisbrak og hvers konar svindl.“

Grótta, 270 tonna eikarbátur, 104 feta langur, smíðaður í Frakklandi 1920 og  breyttur 1942. Aðalvél, 320 hestöfl.
Grótta, 270 tonna eikarbátur, 104 feta langur, smíðaður í Frakklandi 1920 og breyttur 1942. Aðalvél, 320 hestöfl.

Árangurslausar tilraunaveiðar

Undir lok mars hélt Alþýðublaðið áfram fréttaflutningi sínum af málefnum Björgvins og fullyrti að stjórnvöld á Nýfundnalandi hefðu snúið baki við honum. Þau neituðu því nú opinberlega að hafa staðið í nokkrum samskiptum við hann eða stutt hann fjárhagslega. Forsætisráðherrann Joey Smallwood hefði verið spurður um málið á fylkisþinginu í Saint Johns, en ekkert viljað við það kannast. Stjórnvöldin hefðu í kjölfarið sent frá sér yfirlýsingu þar sem segði m.a. að ekkert samkomulag hefði verið gert við íslenska útgerðarmenn: „Stjórnin hefur ekki ábyrgst neinu slíku félagi, ef til er, neins konar fjárhagslega aðstoð. Engin bréfaskipti hafa átt sér stað milli stjórnarinnar og Íslendinganna.“ Þá hefðu skipin legið óhreyfð í höfn í Saint Johns frá því að íslensku sjómennirnir flugu heim, og engir heimamenn verið ráðnir á þau í staðinn. Þessar fregnir voru þó málum blandin, því að þegar voraði hófust tilraunir til síldveiða á ísfirsku bátunum og voru þeir í fyrstu gerðir út frá bænum Channel-Port aux Basques, efst á suðvesturhluta Nýfundnalands. Bátarnir reyndu að veiða meðfram suður- og austurströndum Nýfundnalands og allt norður til Labrador, en árangurinn olli sárum vonbrigðum. Í viðtali við dagblaðið The Evening Telegram í júlílok viðurkenndi Smallwood að talsvert hefði verið hæðst að síldarleitinni og augljósu árangursleysi hennar, en hann hefði samt trú á framtíð síldariðnaðar á svæðinu. Leitin næstu mánuði skilaði áfram rýrri uppskeru. Í september bárust síðan tíðindi af því að kanadískar áhafnir skipanna hefðu gert „uppreisn” þegar sigla átti þeim norðar og fjær heimahögum en þær töldu óhætt. Þá kom í ljós að stjórnvöld á Nýfundnalandi töldu sig eiga bátana alla og leystu þá til sín, enda lagt Björgvini til ríkisábyrgðir á háum lánum og hann ekki staðið í skilum. Og lokafréttir af þessu ævintýri birtust í desember 1950: „Ríkisstjórn Nýfundnalands hefur nú tekið í sínar hendur allar eignir fyrirtækisins Richard Ltd., en það var stofnað af Björgvini Bjarnasyni útgerðarmanni frá Ísafirði til þess að reka þar vestra bátana fjóra, sem hann flutti þangað í fyrra. Nýfundnalandsstjórn lánaði Björgvini allmikið fé gegn veði í skipunum, og hefur nú skipað fimm manna nefnd til að annast stjórn bátanna. Allir nefndarmenn eru ráðherrar.“

Í febrúar 1951 tilkynnti Smallwood síðan opinberlega að ríkisstjórn Nýfundnalands hefði ákveðið að hætta með öllu útgerð íslensku bátanna fjögurra, og öll áform um frekari tilraunaveiðar og fiskileit verið svæfð. Svo fór um sjóferð þá, og endaði þessi fyrsta útrás íslenskra útgerðarmanna því heldur dapurlega. En þó svo að fyrirtækið hafi farið í þrot og verkefnið lagt á hilluna, voru ekki allir ósáttir við hvernig til tókst. Vorið 1951 settist blaðamaður The Evening Telegram niður með kanadísku skipstjórum skipanna fjögurra, í messanum í Gróttu. Þá lágu skipin óhreyfð við landfestar í höfninni í Saint Johns og framtíð þeirra óráðin, enda kölluð „svörtu sauðirnir“ í verkefnum þarlendra stjórnvalda. Skipstjórarnir sögðu hins vegar að íslensku veiðiaðferðirnar drægju ekki aðeins úr erfiði sjómanna heldur ykju líka tekjuvonir þeirra til muna. „Þetta verkefni var það besta sem nokkur stjórnvöld hafa hrint í framkvæmd í þeim tilgangi að bæta þær veiðiaðferðir sem áður voru í notkun,“ fullyrti einn skipstjórinn og hinir tóku undir þá skoðun einum rómi. Skipin voru síðan auglýst í sölu í júlí og sneru aldrei til Íslands.

Umsvifamikill í rækjuvinnslu

Björgvin kom heim til Íslands nokkru síðar og lét lítið fyrir sér fara næstu ár á eftir. En hann var ekki af baki dottinn og árið 1959 bárust af því fregnir að hann væri aðaleigandi nýtískulegrar rækjuvinnslu sem væri verið að stofnsetja á Langeyri í Álftafirði, en þar hafði verið hvalstöð og fiskvinnsla á árum áður. Þremur árum síðar festi hann kaup á 90 tonna bát til rækjuveiða og ennfremur öllum mannvirkjum á Langeyri og lét reisa ný til viðbótar. Hann rak þar öfluga rækjuverksmiðju, niðursuðuverksmiðju og hraðfrystihús um áratugaskeið. Jafnframt setti hann upp skrifstofu í Reykjavík til að annast rækjuútflutning og var einnig með umboðsmann fyrir söluna á skrifstofu í London, lengst af son sinn. Björgvin andaðist á sjúkrahúsi í Danmörku eftir skurðaðgerð sumarið 1983, og átti þá aðeins fáeinar vikur í áttræðisafmæli sitt. Hann tjáði sig aldrei opinberlega um ævintýrið sérkennilega á Nýfundnalandi.