Ber þar auðvitað hæst, hina umfangsmiklu breytingu á togaranum Sléttbaki, sem verður væntanlega stærsti togari landsins að breytingunum loknum. Auk þess er verið að gera talsverðar endurbætur á fyrsta rækjutogara Íslendinga, Dalborginni frá Dalvík  og talsverðar breytingar hafa einnig nýlega verið gerðar á loðnuskipinu Þórði Jónassyni.

Samkvæmt upplýsingum Sigurðar Ringsted, verkfræðings hjá Slippstöðinni, er nú verið að ljúka lengingu Sléttbaks EA en verið er að breyta honum í frystitogara.

Hafist var handa við að breyta Sléttbaki í nóvemberlok en segja má að togarinn verði endurbyggður nánast frá grunni. Búið er að lengja hann um átta metra og mesta lengd hans er því tæpir 70 metrar eða rúmum metra meira en mesta lengd Venusar HF, sem er rúmlega 1.000 tonn að stærð og Mánabergs ÓF, sem kom til landsins í vikunni.

Bæði þessi skip eru þó breiðari en Sléttbakur. Vélarrúm Sléttbaks verður endurnýjað eins og það leggur sig. Sama má segja um millidekk og íbúðum og öðrum vistarverum verður breytt í samræmi við tíðarandann. Nýtt vindukerfi verður sett í skipið og þegar breytingunum verður lokið í júlí eða ágúst nk. verður Sléttbakur eins og nýr fullkominn frystitogari en samningsverð vegna verksins er 230 til 240 milljónir króna.

Fyrsti rækjutogarinn endurnýjaður

Fiskifréttir 3. apríl 1987.
Fiskifréttir 3. apríl 1987.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan farið var að gera Dalborgina út á úthafsrækju, fyrstan íslenskra togara. Dalborgarmenn voru langt á undan sinni samtíð, en það er ef til vill til marks um það hve þróunin hefur verið hröð, að engin frysting er um borð. Reyndar hefur Dalborgin verið með lausfrysti um borð en nú er skipið gert út á hefðbundinn hátt og landar aflanum til vinnslu í landi.

Að sögn Sigurðar Ringsted er búið að skipta um stýrishús á Dalborginni og smíða nýja íbúðahæð undir það. Nýtt vindukerfi er komið í skipið og lunningar hafa verið hækkaðar til þess að skapa betra skjól á dekki.

Þá hefur ný Deutz-hjálparvél verið sett í togarann en samningsverð vegna þessara breytinga er um 41 milljón króna.

Þórður Jónasson klár á rækju

Við gömlu Höepfners-bryggjuna á Akureyri hefur verið unnið að breytingum á loðnuskipinu Þórði Jónassyni EA. Að sögn útgerðarmannsins, Hreiðars Valtýssonar, er búið að setja nýja skut- og bobbingarennu á skipið og auk þess hefur verið komið fyrir grandaraspili, bakborðsmegin við stýrishúsið.

Að sögn Hreiðars hætti skipið loðnuveiðum 16. febrúar en Þórður Jónasson var þá búinn að fara rúmlega einn túr upp í kvóta næstu vertíðar. Strax að lokinni loðnuvertíð, var haldið inn til Akureyrar og tóku umræddar breytingar því rúman mánuð.

Auk þess sem áður hefur verið nefnt, var settur Scanmar-afla-, höfuðlínu- og hitastigsmælir í skipið og gyrokompás og sjálfstýring frá Anschutz. Breytingarnar á skipinu miða að því að gera það hæfara til rækjuveiða en að sögn Hreiðars hefur skipið áður verið á rækju með ágætum árangriEkki sagði Hreiðar áform uppi um að setja frystingu um borð, hvað svo sem síðar yrði.

Það eru Vélsmiðjan Oddi hf., Skipasmíðastöðin Vör, Norðurljós og Járntækni, sem hafa unnið að umræddum breytingum, en áætlaður kostnaður við verkið er nálægt sex milljónum króna.