„Ég hugsa að það sé svipað hjá mér eins og flestum öðrum að það hefur ekki gengið nógu vel. Að vísu er ég að venjast nýjum báti, nýjum búnaði og veiðislóð sem ég hef ekki veitt á áður þannig að ég tek þessu öllu með ró enn sem komið er,“ sagði Kristján Einarsson, hársnyrtir og trillukarl á Hring IS frá Flateyri, í samtali við Fiskifréttir 11. júlí 2003 er hann var spurður um aflabrögðin.
Kristján sagðist hafa farið í fyrsta róðurinn 16. maí en síðan komu nokkrir bræludagar. Alls fór hann sex róðra í maí og aflinn var um fimm tonn. Í júní fór hann tíu róðra og veiddi 13-14 tonn.
„Í fyrra hélt ég mig aðallega á grunnslóð enda reri ég þá eins og mörg undanfarin ár á gömlum trébáti. Þá gat maður leikandi náð í eitt og hálft tonn á tíu tímum hér í fjarðarkaftinum. Nú er lítið sem ekkert að hafa á grunnslóð og ég er feginn því að vera á nýjum báti og eiga þess kost að fara lengra út og komist í stærri fisk,“ sagðiKristján.
Skiptir máli að vera fljótur á miðin
Báturinn sem hér um ræðir er nýr Sómi 865 og fékk Kristján fyrsta bátinn af þeirri gerð afhentan í vor. Hann er 4,7 brúttótonn stærð með öflugri 450 hestafla vél. Þeir eru tveir um borð og eru með fjórar til fimm rúllur.
„Ég keypti hann til að fá hraðskreiðari bát. Það gekk ekki að vera með bát sem gengur aðeins sex mílur á klukkustund eftir að farið var að mæla sóknina í klukkustundum. Nú skiptir miklu máli að vera sem fljótastur á miðin. Annað hvort hefði ég þurft að hætta þessu eða fá mér nýjan bát. Nýi báturinn kemst upp í 30 mílur á klukkustund tómur en sjálfur er ég ekkert hrifinn að því að fara svo hratt. Ég held mig mest á 20-23 mílum og ég á að geta keyrt á 20 mílum með þrjú tonn af fiski innanborðs. Ég er mjög ánægður með þennan bát. Um daginn fór ég í land með um 1,9 tonn – en það er mesti aflinn hjá mér í róðri í sumar – í fjórum til fimm vindstigum og ég keyrði hann á 17 mílum og fann ekki fyrir því.“
Halda sig fyrir utan togaran
Fram kom hjá Kristjáni að hann hefði haldið sig mikið úti á Nesdýpi í fyrra en togarar hefðu verið að dansa þar á 12 mílna línunni í sumar.
„Það fer ekki vel á því að togarar og handfærabátar séu á sömu slóðinni. Segja má að þeir hafi hrakið okkur utar. Við erum sem sagt komnir langt fyrir utan togarana á þessum litlu bátum og er það svolítil öfugþróun. Í sumar hef ég mest verið úti á Hrygg, rétt rúmar 30 sjómílur vestur af Barða. Á hryggnum erum við að skaka niður á um 50 faðma. Einnig gerðu handfærabátarnir ágætistúra aðeins vestar, eða um 15 mílur út af Blakknum. Þar fékk einn báturinn 15 tonn í fimm róðrum og mest 3,5 tonn í róðri. Þetta eru mikil viðbrigði fyrir mig að veiða á djúpslóð. Ég þekki grunnslóðina mjög vel, bæði hef ég veitt þar einn í mörg ár og síðan var ég mikið á sjó með föður mínum, en ég hef aldrei farið svona djúpt fyrr.“
Stór fiskur á Hryggnum
Kristján sagði að þorskurinn á djúpslóð væri mjög góður og það væri bót í máli á meðan aflinn væri ekki meiri en raun ber vitni.
„Ég hef hangið á þessu vegna þess hvað þorskurinn er stór. Bátarnir eru að byrja að fara á Hornbankann og hafa sumir verið að fá fjögur til fimm tonn í róðri en fiskurinn þar er mjög smár. Á Hryggnum er mjög góður fiskur. í einum róðri um daginn fékk ég um 1,5 tonn og enginn fiskur var undir 3,3 kílóum og talsvert mikið fór í átta kílóa flokkinn og yfir, allt upp í 10 kíló. Ég sel allan aflann á fiskmarkaði og hef verið að fá rúmar 200 krónur fyrir stærsta fiskinn. Það er ekki nóg að einblína á tonnin, menn verða líka að huga að aflaverðmætunum. Annars fer að líða að því að flestir bátar fari á Hornbankann. Um miðjan júlí í fyrra tók fyrir veiði á grunnslóð og þorskurinn var allur kominn austur fyrir Horn. Ég geri því ráð fyrir að ég fari á Hornbankann seinna í sumar.“
Stefnir að því að ná 50 tonnum
Kristján gat þess að þorskurinn á djúpslóð væri nú í sæmilegum holdum en hann hafi þó verið horaður í maí.
„Þorskurinn ætti að hafa nóg æti núna þar sem fullt er af loðnu úti á Hala. Þá er einnig talsvert af síli á slóðinni. Þrátt fyrir það er greinilegt að hann er í sjálfsáti. Eg sé mikið af þorskseiðum og litla fiska velta út úr honum. Þorskurinn nær landi er enn horaður og mest krabbi og annað dót sem finnst í maga hans.“
Kristján veiddi um 18 tonn í fyrra á einum og hálfum mánuði á gamla bátnum en hann sagðist stefna að því í ár að ná 50 tonnum og þar yfir á þeim nýja, hvort sem það tækist eða ekki. Hann er með 21 sóknardag og sagði að dagafjöldinn mætti ekki fara neðar, hvað þá niður í tíu daga eins og stefnan virðist vera.
„Við getum komist af með 25 daga ef því er að skipta enda ræður tíðarfarið mjög miklu um það hvenær við komumst á sjó. Þá eru margir að draga það að byrja þar til aflinn er farinn að glæðast. Menn vilja ekki eyða dögum fyrir fáein kíló.“
Hársnyrtir á veturna
Eins og fram kemur hér að framan var afli á handfæri mjög góður í fyrra og árin þar á undan. Kristján var í lokin spurður hvort það væri liðin tíð.
„Ég skal ekki segja en faðir minn er gamall skakari og hann segir að aflinn nú sé loksins kominn í rétt horf eins og hann var hér áður. Hitt var bara ævintýri að fá iðulega þrjú tonn í róðri og þar yfir eins og gerðist í fyrra.“
Þess má svo geta að sjómennskan er aðeins sumarstarf hjá Kristjáni. Hann er hársnyrtir hjá rakarastofu Dóra á Langholtsvegi í Reykjavík á veturna.
„Ef sjómenn vilja ræða um sjóinn og aflabrögðin við rakarann sinn þá geta þeir lagt leið sína á rakarastofuna til mín ef þeir eru staddir fyrir sunnan,“ sagði Kristján.