Áhugi sveitarfélaganna á þátttöku í þessari nýsköpun atvinnulífsins reyndist gríðarlegur. Alls sóttu 13 bæjarfélög um að fá úthlutað samtals 34 togurum og fengu tíu bæjarfélög úthlutað samtals 15 skipum. Bæjarútgerðir hófu starfsemi í kjölfarið víða um land meðal annars í Reykjavík, Akranesi, Keflavík, Siglufirði, Ísafirði, Akureyri, Neskaupstað, Vestmannaeyjum og Seyðisfirði. Bæjarútgerðir hófu starfsemi undir lok fimmta áratugarins og á árunum á eftir áttu fleiri bæjarfélög eftir að koma í kjölfarið.

Rekstur á vegum samfélagsins

Áhugi sveitarfélaganna á því að eiga þátt í þessari endurreisn atvinnulífsins þarf ekki að koma á óvart. Fyrir upphaf stríðsins og áður en það barst til landsins með landgöngu Breta vorið 1940 hafði kreppan sett sitt mark á íslenskt samfélag með því atvinnuleysi og örbirgð sem henni fylgdi hér á landi eins og erlendis. Það var því orðin skoðun margra að rétta leiðin til að tryggja atvinnu í samfélaginu væri rekstur á vegum samfélagsins. Það væri ekki hægt að treysta einkarekstrinum einvörðungu fyrir því að tryggja atvinnu, enda lyti sá rekstur öðrum lögmálum en þeim sem giltu um opinberan rekstur.

Stöðugir fólksflutningar af landsbyggðinni og til höfuðborgarsvæðisins ýttu svo enn frekar undir sveitarfélög víða um land að tryggja atvinnurekstur í heimabyggð og þar með atvinnutækifæri. Það var augljóst að væru ekki atvinnutækifæri fyrir hendi í heimabyggð flytti fólk sig um set þar sem atvinnutækifærin væri að finna.

Kreppuárin breyttu viðhorfunum

Kreppuárin og erfiðleikarnir og atvinnuleysið sem þeim fylgdu höfðu þannig breytt viðhorfum til einkarekstrar og opinbers rekstrar. Það má segja að það hafi verið almennt viðhorf í samfélaginu og gilti bæði um þá sem voru til hægri og vinstri á hinu pólitíska litrófi. Það skipti ekki máli hvort sveitarfélögunum var stjórnað af Sjálfstæðisflokknum eða flokkunum vinstra megin við hann hvort þær aðhylltust bæjarútgerðir eða ekki. Þannig átti Bæjarútgerð Reykjavíkur og rak átta togara þegar mest var, en Sjálfstæðisflokkurinn var einn í meirihluta í Reykjavík um áratugaskeið eða allt fram á tíunda áratuginn. Einkaframtakið hafði einnig takmarkaðri áhuga á þátttöku í þessari nýsköpun en búast hefði mátt við, hvað sem olli því. Eflaust má leiða að því líkum að kreppuárin hafi þar líka haft sitt að segja sem leikið höfðu mörg þessara fyrirtækja grátt. Aðeins fimmtán einkafyrirtæki tóku þátt í nýsköpuninni af 29 starfandi útgerðarfyrirtækjum í landinu eftir stríð.

Stefanía

Stefanía, ríkisstjórnin sem tók við völdum að nýsköpunarstjórninni genginni, og tók nafn sitt af formanni Alþýðuflokksins og þáverandi forsætisráðherra, Stefáni Jóhanni Stefánssyni, hélt áfram þessu starfi Nýsköpunarstjórnarinnar og samdi um kaup á tíu togurum til viðbótar sem komu til landsins í upphafi sjötta áratugarins. Af þeim keyptu fyrirtæki á vegum sveitarfélaga átta og einkafyrirtæki tvo.

Þessi þróun varð svo stórfelld og umbreytingin svo skjót að aðeins 17 togarar voru gerðir út af einkafyrirtækjum árið 1953 en fyrirtæki á vegum sveitarfélaga áttu og ráku 28 togara.

Þetta voru gríðarmiklar og róttækar breytingar á forsvari og fyrirkomulagi atvinnurekstrar í þessari mikilvægu grein sjávarútvegsins í landinu, fyrirkomulag sem var ríkjandi næstu þrjá áratugina og gekk sér til húðar á þeim tíma. Erfiðleikar við það að stilla saman þarfir landvinnslu og útvegun hráefnis, gríðarlegar tæknibreytingar á landi og sjó, voru sífelldar áskoranir í rekstrinum. Það voru áskoranir sem einkafyrirtæki áttu mun auðveldara með að mæta heldur en bæjarfélög sem eðli málsins samkvæmt hafa mörgum hlutverkum öðrum að sinna en atvinnurekstri af þessu tagi. Það fór og svo að það fjaraði hægt og sígandi undan þessum rekstri og hann varð víða þungur baggi á rekstri bæjarfélaganna og kallaði á regluleg framlög frá þeim til að geta staðið undir sér. Það kann ekki góðri lukku að stýra og þegar komið var fram á níunda áratuginn hvarf þetta rekstrarform í sjávarútvegi smám saman uns það hvarf með öllu eftir því sem árin liðu.

Frá niðurrifi Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar í febrúar 2005. Mynd/mbl/Golli
Frá niðurrifi Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar í febrúar 2005. Mynd/mbl/Golli

Samhliða upptöku kvótans

Þetta gerðist með mismunandi hætti í ólíkum bæjarfélögum víða um land. Þannig sameinaðist Ísbjörninn Bæjarútgerð Reykjavíkur í útgerðarfyrirtækinu Granda, síðar HB Granda og nú Brim, síðla árs 1985 og fyrr á því ári hafði Bæjarútgerð Hafnarfjarðar verið seld. Sama gilti að breyttu breytanda um fyrirtæki eins og Fiskiðjusamlag Húsavíkur, Þormóð ramma á Siglufirði, Hraðfrystihús Þórshafnar, Hraðfrystihús Stokkseyrar, Skagstrending á Skagaströnd og svona mætti áfram telja.

Það er athyglisvert að þetta gerist samhliða því að kvótakerfið er að ryðja sér til rúms í íslenskum sjávarútvegi. Þá sögu þarf að skrifa og skýra betur, en eflaust er þar einn ráðandi þáttur að bæjarfélögin í landinu hafa ekki talið sig í stakk búin til þess að mæta þeim nýju áskorunum sem fylgdu kvótasetningu fiskistofnanna eða talið að það væri eðlilegt hlutverk þeirra í þeim þjóðfélagsveruleika sem blasti við á níunda áratug síðustu aldar.