Sævar Friðþjófsson tók alfarið við útgerð Saxhamars SH er fyrirtækinu var skipt upp á milli hans og bræðra hans. Hefur Jón Friðþjófsson síðan séð um útgerð Hamars SH.

Það er sjaldgæft  en þó ekki einsdæmi að sami báturinn sé jafn lengi í eigu sömu útgerðarinnar en Sævar segist aldrei á þessum þremur áratugum hafa séð ástæðu til þess að skipta um skip. Saxhamar SH hafi alla tíð verið mikið happafley og eina alvarlega slysið í útgerðarsögunni hafi átt sér stað árið 1980. Þá kom brot á bátinn aftanverðan með þeim afleiðingum að karmurinn á brúardyrunum brotnaði inn og brúin fylltist af sjó. Sævar var þá í brúnni og slasaðist illa og varð það til þess að hann varð að hætta skipstjórninni og fara í land.

„Þetta er eina alvarlega áfallið sem við höfum orðið fyrir. Að öðru leyti hefur báturinn reynst hið mesta happafley. Við höfum aldrei fiskað neitt ógurlega mikið en við höfum alltaf verið að og það hefur saxast vel á þetta hjá okkur,“ segir Sævar.

Endurvöktu reknetaveiðar árið 1972

Sævar Friðþjófsson og sonur hans Friðþjófur Sævarsson. FF Mynd/ESE
Sævar Friðþjófsson og sonur hans Friðþjófur Sævarsson. FF Mynd/ESE

Saxhamarsnafnið hefur vafist fyrir mörgum en Sævar segir að nafnið sé dregið af kennileiti í fjalli sunnan Rifs. Sjómenn hafi notað þetta kennileiti til þess að glöggva sig á fiskimiðum undan Jökli og það hafi verið við hæfi að báturinn fengi Samhamarsnafnið.

Þremur árum eftir að Saxhamar SH fór í fyrsta róðurinn var báturinn lengdur um hálfan þriðja metra. Arið 1979 var byggt yfir bátinn og ný brú var sett á hann árið 1987. Skipta þurfti um aðalvél árið 1981 og er vélin, sem þá var sett niður, enn í bátnum.

Að sögn Sævars var öllum afla Saxhamars SH landað hjá Hraðfrystihúsi Hellissands þar til Fiskmarkaður Breiðafjarðar var stofnaður en eftir það hefur allur afli bátsins farið á markað.

Rækjan kláraðist í Kolluálnum

„Við höfum stundað margvíslegan veiðiskap. Við vorum á línu öll árin þar til að línutvöföldunin var afnumin og á þorskanetum höfum verið á öllum vertíðum í þessi 30 ár. Við vorum lengi á rækjuveiðum og þá aðallega í Kolluálnum. Afkoman á rækjuveiðunum stóð og féll með aukaaflanum því oftast voru tegundir eins og þorskur og svo flatfisktegundir eins og skrápflúra um 40 prósent aflaverðmætisins á rækjuveiðunum,“ segir Sævar. Rækjan í Kolluálnum hafi gengið til þurrðar fyrir fimm árum enda hafi öllum flotanum beint á þessar veiðar.

„Ef við hefðum viljað halda rækjuveiðunum áfram þá hefðum við þurft að blanda okkur í rækjuslaginn fyrir norðan landið en eftir að lögboðið var að nota skilju á þeim veiðiskap þá má segja að vonlaust hafi verið fyrir okkur að stunda rækjuveiðarnar. Við létum þær því eiga sig,“ segir Sævar.

Auk veiðanna, sem hér hafa verið nefndar, þá voru Sævar og hans menn frumherjar í því að róa með tvöfaldan gang af línu á línuveiðum fyrir norðan.

Einu sinni var báturinn sendur á línuútilegu við Austur-Grænland þar sem veidd var grálúða og Sævar segist jafnframt hafa verið fyrstur til þess að endurvekja reknetaveiðar á síldveiðum hér við land. Það var árið 1972 og stundaði áhöfnin á Saxhamri SH reknetaveiðarnar á sumrin með góðum árangri allt fram til ársins 1980 er Sævar fór í land.

Fiskifréttir 5. mars 1999.
Fiskifréttir 5. mars 1999.

Vildi skapa mér og mínum atvinnu

Eftir að Sævar hætti skipstjórninni tók stýrimaðurinn, Reynir Benediktsson, við sem skipstjóri og síðar Ragnar Konráðsson sem nú er skipstjóri á Örvari HU. Síðustu sex til sjö árin hefur Friðþjófur, sonur Sævars, verið með bátinn.

En skyldi það aldrei hafa hvarflað að Sævari að selja Saxhamar SH og fá nýtt eða notað skip í staðinn?

„Aldrei. Eftir að kvótinn var settur þá hefur þetta verið barátta við að halda útgerðinni gangandi og ég hef allan tímann verið viss um að ég var með gott skip í höndunum. Það var því engin ástæða til að breyta til. Ég hef heldur aldrei verið í útgerð til þess að græða á því fé. Mín hugsun hefur allan tímann verið sú að skapa mér og mínum atvinnu og að byggðarlagið nyti góðs af þeim afla sem dreginn væri að landi. Sá kvóti, sem fylgt hefur skipinu, hefur dugað til þess að endar næðu saman. Ég er reyndar ekkert einn um þessa hugsun því ég sé ekki betur en útgerð hinna stóru bátanna hér á Rifi sé rekin á svipaðan hátt. Aflinn af þessum bátum, Saxhamri SH, Hamri SH og Rifsnesi SH, hefur verið ákveðin kjölfesta hér í byggðarlaginu og menn hafa lítið gert af því að láta frá sér aflaheimildirnar eins og annars staðar hefur tíðkast. Menn hafa haldið vel á því sem þeim hefur verið trúað fyrir og það hefur verið gæfa þessa byggðarlags,“ segir Sævar.

Aldrei hafi komið til álita að setja upp sjálfstæða verkun eða sameinast öðrum útgerðarfélögum.

Sameiningarkjaftæði

„Sameiningarkjaftæðið hefur lítið leyst að mínu mati. Ef fyrirtæki hafa sameinast þá hefur annað hvort slitnað upp úr öllu saman eða að aflaheimildirnar hafa leitað annað innan tveggja til þriggja ára. Sjálfum hefur mér þótt nóg að sýsla við veiðarfærin eftir að ég fór í land. Ég hef búið til og sett upp öll veiðarfæri fyrir bátinn með hjálp góðra manna. Konan mín, Helga Hermannsdóttir, hefur séð um fjármálin fyrir útgerðina og tengdasonur minn, Reynir Rúnar Reynisson, hefur verið vélstjóri á Saxhamri sl. tvo áratugi. Ársstörfin í kringum útgerð bátsins hafa verið 10 til 12 talsins og vinnsla aflans hefur einnig skapað töluverða hér í byggðarlaginu í áranna rás,“ segir Sævar Friðþjófsson