Að sögn Hjálmars Vilhjálmssonar, fiskifræðings og leiðangursstjóra, hefur almennt verið gengið út frá því að loðnan hrygndi aðeins einu sinni og dræpist síðan. Loðnan er yfirleitt þriggja ára þegar hún hrygnir en hluti stofnsins bíður þó með hrygninguna fram til fjögurra ára aldurs.

„Við vitum að frá náttúrunnar hendi er kynjahlutfallið þannig að það er ein hrygna eða þar á bil á móti hverjum hængi. Hins vegar kom í ljós þegar verið var að gera upp loðnurannsóknir sl. 25 ára eða svo að hrygnur voru svo til undantekningarlaust í meirihluta í sýnum sem tekin voru á hverju ári á tímabilinu frá því í október og fram í febrúar. Aðeins einu sinni á þessu tímabili voru hængarnir fleiri en hrygnurnar og munurinn er svo afgerandi að þessu leyti að okkur þótti nauðsynlegt að skoða málið betur,“ segir Hjálmar.

Sýnin hafi alltaf verið tekin áður en loðnan gekk upp að landinu til hrygningar.

Eins og að mynda ormagryfju

„Það, sem við ætluðum að gera, var að fylgjast með hrygningunni með  neðansjávarmyndavél og fylgja loðnunni síðan eftir. Þetta tókst ekki að öllu leyti því aðal hrygningin var búin. Við náðum þó skemmtilegum myndum af loðnu í hrygningu og það er skemmst frá því að segja að það var líkast því að verið væri að mynda í ormagryfju,“ segir Hjálmar.

Fiskifréttir 29 mars. 1996.
Fiskifréttir 29 mars. 1996.

Frá hrygningarsvæðinu undan Snæfellsjökli hafi verið farið um 50 mílur úr á Flákann og í Kolluálinn en þar hafi loðnan legið eins og teppi yfir botninum.

„Þetta var allt saman hrygna og miðað við þau sýni sem við tókum þá virtist hún vera að jafna sig eftir hrygninguna. Það bendir hins vegar margt til þess að hængurinn lifi ekki hrygninguna af og fyrir því eru aðallega tvær ástæður. Fyrir það fyrsta þá verða miklu meiri breytingar á hængnum en hrygnunni og meðal þess sem gerist er að hængurinn fær á sig loðnurákina, það verður þykknun á kviðnum og eyr- og kviðuggar lengjast. Þessar breytingar virðast ekki geta gengið til baka. Í öðru lagi má nefna að á meðan hrygnan klárar hrygninguna í einni lotu þá getur hængurinn gagnast hrygnunum oftar. Hængurinn hangir á svæðinu og virðist smám saman veslast upp en á meðan læðist hrygnan út á djúpið,“ segir Hjálmar en þess má einnig geta að uppistaðan í afla loðnuskipanna eftir hrygninguna er einmitt hængur.

Þorskurinn lá í æti

Auk loðnurannsóknanna undan Snæfellsjökli fóru Hjálmar og hans menn til þorskrannsókna á svæðinu frá Garðskaga og suður og austur með landinu allt austur með ströndinni á móts við Vestmannaeyjar.

„Markmiðið með þessum rannsóknum var að fylgjast með lóðningum og taka sýni og reyna þannig að gera sér grein fyrir þorskafjöldanum á viðkomandi svæðum. Þetta voru fróðlegar rannsóknir en það spillti hins vegar fyrir að á þessum tíma árs er mikið af loðnu á svæðinu og þorskurinn liggur í æti. Á daginn liggur hann við botninn og það lóðar ekki á hann á þeim tíma en á nóttinni fengust hins vegar þokkalegar lóðningar uppi í sjó. Hugmyndin er sú að fylgja þessu máli betur eftir þegar Árni Friðriksson fer í hrygningarrannsóknir á næstu vikum en sennilega verður þess samt langt að bíða að það verði hægt að nota bergmálsmælingar samhliða sýnatökum til þess að segja fyrir um hve mikið af þorski heldur sig á einstökum svæðum,“ segir Hjálmar.

Þess má að lokum geta að í umræddum rannsóknaleiðangri, sem stóð í 10 daga, var tekið eitt stutt tog í Kollafirði. Þar fengust nokkrir sannkallaðir rígaþorskar en  samkvæmt heimildum Fiskifrétta hafa smábátar fengið mjög góðan þorskafla í firðinum á undanförnum vikum.

Að sögn Hjálmars Vilhjálmssonar, fiskifræðings og leiðangursstjóra, hefur almennt verið gengið út frá því að loðnan hrygndi aðeins einu sinni og dræpist síðan. Loðnan er yfirleitt þriggja ára þegar hún hrygnir en hluti stofnsins bíður þó með hrygninguna fram til fjögurra ára aldurs.

„Við vitum að frá náttúrunnar hendi er kynjahlutfallið þannig að það er ein hrygna eða þar á bil á móti hverjum hængi. Hins vegar kom í ljós þegar verið var að gera upp loðnurannsóknir sl. 25 ára eða svo að hrygnur voru svo til undantekningarlaust í meirihluta í sýnum sem tekin voru á hverju ári á tímabilinu frá því í október og fram í febrúar. Aðeins einu sinni á þessu tímabili voru hængarnir fleiri en hrygnurnar og munurinn er svo afgerandi að þessu leyti að okkur þótti nauðsynlegt að skoða málið betur,“ segir Hjálmar.

Sýnin hafi alltaf verið tekin áður en loðnan gekk upp að landinu til hrygningar.

Eins og að mynda ormagryfju

„Það, sem við ætluðum að gera, var að fylgjast með hrygningunni með  neðansjávarmyndavél og fylgja loðnunni síðan eftir. Þetta tókst ekki að öllu leyti því aðal hrygningin var búin. Við náðum þó skemmtilegum myndum af loðnu í hrygningu og það er skemmst frá því að segja að það var líkast því að verið væri að mynda í ormagryfju,“ segir Hjálmar.

Fiskifréttir 29 mars. 1996.
Fiskifréttir 29 mars. 1996.

Frá hrygningarsvæðinu undan Snæfellsjökli hafi verið farið um 50 mílur úr á Flákann og í Kolluálinn en þar hafi loðnan legið eins og teppi yfir botninum.

„Þetta var allt saman hrygna og miðað við þau sýni sem við tókum þá virtist hún vera að jafna sig eftir hrygninguna. Það bendir hins vegar margt til þess að hængurinn lifi ekki hrygninguna af og fyrir því eru aðallega tvær ástæður. Fyrir það fyrsta þá verða miklu meiri breytingar á hængnum en hrygnunni og meðal þess sem gerist er að hængurinn fær á sig loðnurákina, það verður þykknun á kviðnum og eyr- og kviðuggar lengjast. Þessar breytingar virðast ekki geta gengið til baka. Í öðru lagi má nefna að á meðan hrygnan klárar hrygninguna í einni lotu þá getur hængurinn gagnast hrygnunum oftar. Hængurinn hangir á svæðinu og virðist smám saman veslast upp en á meðan læðist hrygnan út á djúpið,“ segir Hjálmar en þess má einnig geta að uppistaðan í afla loðnuskipanna eftir hrygninguna er einmitt hængur.

Þorskurinn lá í æti

Auk loðnurannsóknanna undan Snæfellsjökli fóru Hjálmar og hans menn til þorskrannsókna á svæðinu frá Garðskaga og suður og austur með landinu allt austur með ströndinni á móts við Vestmannaeyjar.

„Markmiðið með þessum rannsóknum var að fylgjast með lóðningum og taka sýni og reyna þannig að gera sér grein fyrir þorskafjöldanum á viðkomandi svæðum. Þetta voru fróðlegar rannsóknir en það spillti hins vegar fyrir að á þessum tíma árs er mikið af loðnu á svæðinu og þorskurinn liggur í æti. Á daginn liggur hann við botninn og það lóðar ekki á hann á þeim tíma en á nóttinni fengust hins vegar þokkalegar lóðningar uppi í sjó. Hugmyndin er sú að fylgja þessu máli betur eftir þegar Árni Friðriksson fer í hrygningarrannsóknir á næstu vikum en sennilega verður þess samt langt að bíða að það verði hægt að nota bergmálsmælingar samhliða sýnatökum til þess að segja fyrir um hve mikið af þorski heldur sig á einstökum svæðum,“ segir Hjálmar.

Þess má að lokum geta að í umræddum rannsóknaleiðangri, sem stóð í 10 daga, var tekið eitt stutt tog í Kollafirði. Þar fengust nokkrir sannkallaðir rígaþorskar en  samkvæmt heimildum Fiskifrétta hafa smábátar fengið mjög góðan þorskafla í firðinum á undanförnum vikum.