Það þykir jafnan tíðindum sæta er sjómenn koma með stórlúður að landi. Stundum setja trillukarlar í rígvænar lúður sem oft eru á annað hundrað kíló að þyngd og það er tilkomumikil sjón þegar þessir stóru fiskar eru hífðir upp á hafnarbakkana. Frá þessu sagði í Fiskifréttum 11. ágúst 2000.
Humarveiðar hafa gengið mjög vel á yfirstandandi vertíð. Samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar í vor mátti búast við góðri vertíð og hafa þær væntingar staðist og gott betur að sögn talsmanna Skinneyjar-Þinganess í Hornafirði og Ramma í Þorlákshöfn. Frá þessu sagði í Fiskifréttum 13. júlí 2007.
Togskipið Drífa VE 76 er nú komið á veiðar eftir miklar breytingar sem gerðar voru á skipinu í Póllandi. Búið er að lengja skipið um 1,4 metra og er það því rúmir 27,2 metrar á lengd. Fyrir breytingarnar mældist Drífa VE tæp 90 brúttótonn en samkvæmt nýrri mælingu er skipið nú 109 brúttótonn. Kostnaður við breytingarnar nemur um 25 milljónum króna og segist útgerðarmaðurinn, Ingvi S. Sigurgeirsson, vera ánægður með útkomuna. Frá þessu sagði í Fiskifréttum 24. apríl 1998.