Sala á frystum nílarkarfa úr Viktoríuvatni á vegum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna hefur aukist verulega og var útflutningurinn fyrstu þrjá mánuði ársins orðinn meiri en allt árið í fyrra. SH sér um markaðssetningu og sölu á frystum nílarkarfa frá einu af sex frystihúsum Alpha Group við Viktoríuvatn. Á næstunni er reiknað með að framleiðsla eftir gæðastöðlum SH hefjist í öðru frystihúsi Alpha Group og sér SH um sölu afurðanna. Þessi frétt var í Fiskifréttum 24. apríl 1998.
„Það var auðvitað gríðarleg stemmning þegar fiskurinn gekk á grunnið. Menn fiskuðu og fiskuðu án þess að vera háðir neinum kvótum. Ég byrjaði með föður mínum á Leó YE árið 1964. Ég man eftir því að einu sinni fiskuðum við 400 tonn á hálfum mánuði á þessum hundrað tonna báti. Þetta var á Loftstaðahrauninu. Netin voru lögð dag eftir dag á sama stað og netafjöldinn var svo mikill að hægt var næstum að stikla þurrum fótum á milli baujanna. Samt hélt fiskurinn áfram að hrúgast í netin. Við fengum í kringum 30 tonn dag eftir dag,“ sagði Sigurjón Óskarsson skipstjóri og margfaldur aflakóngur í Vestmannaeyjum í samtali við Fiskifréttir 18. mars 2005.
Togararnir Asanda (áður Siglfirðingur SI) og Stella Karina (áður Svalbarði SI) eru byrjaðir á rækjuveiðum hinum megin á hnettinum – nánar tiltekið í rússneskri lögsögu í Okotskhafi við austurströnd Rússlands. Skipin komu á miðin fvrir um það bil mánuði og hafa aflabrögðin verið slök það sem af er miðað við það sem tíðkast hefur undanfarin ár, að því er Hörður Hólm, skipstjóri á Stellu Karinu, sagði í Fiskifréttum 3. maí 2002. Það er hins vegar bót í máli að rækjan er mjög stór og verðmæt, á bilinu 40-100 stykki í kílói í móttökunni, og fer allur aflinn í eins kílós pakkningar.