Velta Eðalfisks í Borgarnesi hefur tvöfaldast á hverju ári frá því nýir eigendur komu að rekstri fyrirtækisins í byrjun árs 2021. Eðalfiskur er 35 ára gamalt félag sem sérhæfir sig í framleiðslu, sölu og dreifingu á ferskum, frystum, reyktum og gröfnum laxaafurðum. Fyrirtækið ætlar að stórauka fullvinnslu á laxi í takt við aukið framboð hráefnis frá eldisfyrirtækjum á komandi árum.

Móðurfélag Eðalfisks, Eðalfang, lauk nýverið eins milljarðs króna fjármögnun sem nýta á að hluta til fjárfestinga í tækjabúnaði og sjálfvirknivæðingu sem er liður í uppbyggingu og eflingu á vinnslu til framleiðslu á laxi. Rík áhersla er lögð á útflutning á fullunnum íslenskum laxaafurðum og að efla sölu- og markaðsstarf félagsins á alþjóðlegum mörkuðum. Fjármögnunin er meðal annars nýtt til að kaupa nýja kynslóð laxaflökunarvélar frá Marel auk Curio hausunarvélar sem nýsköpunarteymi Marel þróar í samstarfi við Eðalfisk. Vinnslulínan mun taka heilan, slægðan lax og skila beinhreinsuðum og snyrtum flökum sem eru tilbúin til ferskfiskpökkunar eða frekari vinnslu, á borð við bitavinnslu, reykingu og gröfun eða frystingu.

Gengið frá samningi Eðalfangs og Marel. F.v.: Sigurjón Gísli Jónsson, einn af eigendum Eðalfangs og ráðgjafi stjórnar, Andri Gunnarsson, stjórnarformaður Eðalfangs, Sindri Magnason, sölustjóri hjá Marel Fish og Ólafur Karl Sigurðarson, framkvæmdastjóri Marel Fish.
Gengið frá samningi Eðalfangs og Marel. F.v.: Sigurjón Gísli Jónsson, einn af eigendum Eðalfangs og ráðgjafi stjórnar, Andri Gunnarsson, stjórnarformaður Eðalfangs, Sindri Magnason, sölustjóri hjá Marel Fish og Ólafur Karl Sigurðarson, framkvæmdastjóri Marel Fish.

Úr 2.000 tonnum í 6.000

Eðalfang keypti Norðanfisk af Brim sumarið 2020 og núverandi eigendahópur keypti svo Eðalfisk í byrjun árs 2021. Framleiðsla Eðalfisks er núna tæplega 2.000 tonn á ári en ráðgert er að hún verði orðin 5.400-6.000 tonn á ári árið 2025 með nýrri vinnslutækni og stöðugra framboði af hráefni.

„Við, eins og aðrir, urðum mjög varir við þá miklu fyrirhuguðu aukningu í sjókvíaeldi og að hluta til í landeldi einnig. Nú hafa áform um landeldi styrkst enn frekar. Verksmiðjan okkar í Borgarnesi byggir á gömlum og góðum grunni en við viljum staðsetja okkur í virðiskeðjunni sem fullvinnslufyrirtæki með sölu inn á erlenda markaði og ætlum að stækka samhliða aukinni framleiðslu í sjókvía- og landeldi,“ segir Andri Gunnarsson, stjórnarformaður Eðalfangs.

Hann bendir á að mikið af íslenskum laxi sé skipaður út til Póllands til frekari vinnslu áður en hann er seldur til Bandaríkjanna. Markmið Eðalfisks hnígi í átt að sjálfbærni og lækkun kolefnisfótspors með því að fullvinna vöruna þar sem hún verður til og nærri flugvelli og útflutningshöfnum.

Stefnt að 2-3% aukinni nýtingu

„Það hefur orðið bylting í vinnslutækni á síðustu árum og við þá miklu aukningu sem framundan er í laxeldi á Íslandi og þau áform sem við höfum um vinnslu á 5.400-6.000 tonnum á ári þurftum við að endurnýja vinnslulínuna. Við þurfum að huga einnig sérstaklega að nýtingunni. Grunnurinn að því að gera þetta að arðsamri starfsemi er að ná nýtingunni upp. Með nýrri vinnslutækni horfum við til þess að ná nýtingu upp um 2-3%. Það hljómar kannski ekki sem hátt hlutfall en það er nákvæmlega það sem skilur á milli feigs og ófeigs í þessum bransa,“ segir Andri.

2% aukin nýting af 6.000 tonnum á ári skilar sér í 120 tonnum af afurðum sem gera ákvörðun um fjárfestingu í nýjum búnaði rökrétta. Fram að þessu hefur þó allt hráefnið verið fullnýtt hjá Eðalfiski. Afskurður og hausar hafa verið seldir til framleiðslu á marningi eða gæludýrafóðurs. Verksmiðjan verður með BRCS vottun sem er einn stífasti gæðastaðall fyrir matvælavinnslu í heiminum. Það hefur því mikið verið lagt í undirstöðurnar.

Stefnt er að 2-3% aukinni nýtingu með nýju vinnslutækninni.
Stefnt er að 2-3% aukinni nýtingu með nýju vinnslutækninni.

„Allt veltur þetta á því hver staðan er í eldinu. En þegar horft er á reynslu annarra þjóða, eins og í Noregi, Chile, Færeyjum og Skotlandi þá munu fyrirtækin ná tökum á eldinu hér heima þannig að framboðið verði stöðugra. Svo erum við að sjá landeldið vaxa gríðarlega á næstu árum. Við teljum því að það verði nægt framboð af hráefni á næstu árum sem mun keyra áfram vöxtinn hjá Eðalfiski. Við ætlum að vera tilbúnir í þá vegferð sem er fullvinnsla á laxi á Íslandi.“

Fordæmalausar verðhækkanir urðu á laxi á heimsvísu á síðasta ári en nú er verðið farið að ná jafnvægi á betri stað. Eftirspurn er mikil á öllum mörkuðum. 40% framleiðslu Eðalfisks hefur farið á innanlandsmarkað en allur vöxtur í sölu er á erlenda markaði. Þegar núverandi eigendur keyptu Eðalfisk 2021 var nánast enginn útflutningur á laxi hjá fyrirtækinu og veltan var á bilinu 500-600 milljónir króna. Veltan var á bilinu 1.800-1.900 milljónir kr. á síðasta ári og aukninguna má alla rekja til sölu á erlenda markaði og þar af mest til Bandaríkjanna. Andri segir að gert sé ráð fyrir 30-40% aukningu á veltu á þessu ári eftir tvöföldun á veltuaukningu síðustu tveggja ára.

Stækkun og fjölgun starfa í skoðun

„Við vonumst til þess að verða þátttakendur í því að gera íslenskan lax að hágæðavöru með því að nýta það góða orðspor sem fer af íslenskum sjávarútvegi. Heimsmarkaður fyrir lax er 2,5-3 milljónir tonna á ári. Okkar fyrirhuguðu 6 þúsund tonn eru því einungis dropi í hafið en við ætlum að marka okkur sérstöðu á markaði. Við höfum gríðarlega trú á þeim áformum sem uppi eru í landeldi. Við hjá Eðalfiski eigum umtalsvert byggingarland og gangi allt samkvæmt áætlun er ekki loku fyrir það skotið að við stækkum enn frekar,“ segir Andri.

Nú starfa 25 manns hjá Eðalfiski í Borgarnesi. Verksmiðjan er á 2.000 fermetra gólfleti og samkvæmt deiliskipulagi hefur Eðalfiskur möguleika á því að stækka hana um allt að 5.500 fermetra. Miðað við aukið framleiðslumagn er gert ráð fyrir að störfum fjölgi í verksmiðjunni því í forsendum Eðalfisks er gert ráð fyrir að launakostnaður á kíló fari lækkandi með nýrri vinnslutækni.