Knud Karstensen, forstjóri Karstensen Skibsværft, dönsku skipasmíðastöðvarinnar sem nú smíðar uppsjávarskipin Hákon ÞH fyrir Gjögur hf. og Ásgrím Halldórsson SF fyrir Skinney-Þinganes hf., segir gott að vinna með íslenskum útgerðum og viðskiptasagan nái langt aftur í tímann. Hann segir gríðarlega framþróun hafa orðið í hönnun uppsjávarskipa frá þeim tíma sem Karstensen hleypti af stokkunum sínu fyrsta skipi þeirrar gerðar árið 1975.

Knud er tengdur Íslandi sterkum böndum. Eiginkona hans til meira en 25 ára er Marin Magnúsdóttir. Þau koma reglulega til Íslands og eiga sumarhús í nágrenni Selfoss.

Stofnað 1917

Skipasmíðastöðin var stofnuð árið 1917 í Skagen af afa Knuds, Marinus Karstensen. Faðir hans, Niels Degn, tók við af honum á eftirstríðsárunum og Knud sjálfur árið 1975. Hann er því eigandi skipasmíðastöðvarinnar af þriðju kynslóð og fyrirtækið hefur vaxið og blómstrað undir hans stjórn.

Ágúst Guðmundsson GK

Hann segir að upphafið að skipasmíði fyrir Íslendinga hafi verið árið 1955 þegar Karstensen undir stjórn föður hans smíðaði tréskipið Ágúst Guðmundsson GK 95 fyrir bræðurna Magnús, Guðmund, Ívar og Ragnar Ágústssyni í Vogum. Fyrsta skipið fyrir Íslendinga í tíð Knuds sem forstjóra Karstensen skipasmíðastöðvarinnar var hins vegar Þórunn Sveinsdóttir VE 401 árið 2010. Í kjölfarið smíðaði stöðin systurskipin Börk NK 122 og Vilhelm Þorsteinsson EA 11, 89 metra löng uppsjávarskip, fyrir Síldarvinnsluna í Neskaupstað og Samherja á Akureyri sem voru afhent 2021. Núna stendur yfir, sem fyrr segir, smíði á nýjum Hákon ÞH fyrir Gjögur og Ásgrím Halldórsson SF fyrir Skinney-Þinganes.

Sex á ári

Þessa dagana er 476. skip Karstensen skipasmíðastöðvarinnar í smíðum frá stofnun fjölskyldufyrirtækisins. Á fyrri hluta starfseminnar voru eingöngu smíðuð tréskip en stálskipin eru nú orðin alls 125 talsins. Fyrsta uppsjávarskipið sem Karstensen smíðaði úr stáli var afhent árið 1975. Að jafnaði eru byggð sex stálskip í skipasmíðastöðinni á hverju ári af mismunandi stærðum. Megnið af nýsmíðunum eru yfir 70 metra löng uppsjávarskip fyrir flotann í Norður-Evrópu, þ.e. útgerðir á Íslandi, Færeyjum, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Skotlandi og Írlandi. Alls eru uppsjávarskipin um 100 talsins sem Karstensen hefur smíðað.

Loftmynd sem sýnir skipasmíðastöðina þar sem eru 75 metra langur Hákon ÞH og Finnur Fríði sem er 88 metra langt uppsjávarskip sem Karstensen smíðar fyrir útgerðina Krossbrekku í Færeyjum.
Loftmynd sem sýnir skipasmíðastöðina þar sem eru 75 metra langur Hákon ÞH og Finnur Fríði sem er 88 metra langt uppsjávarskip sem Karstensen smíðar fyrir útgerðina Krossbrekku í Færeyjum.

Síðasta skipið besta skipið

„Fyrsta uppsjávarskipið sem við smíðuðum var 50 metra langt skip sem kostaði 10 milljónir evra á þeim tíma. Síðan hefur orðið stórstíg þróun í smíði uppsjávarskipa. Það hefur margt breyst bara á 25 árum. Þau verða stöðugt tæknivæddari og eru hönnuð í nánu samstarfi við viðskiptavinina. Þeir koma með sínar hugmyndir og tillögur og saman hönnum við skipin. Og tækninni fleygir fram. Þess vegna segjum við að síðasta skipið sem við smíðum sé besta skipið sem við höfum smíðað,“ segir Knud.

Íslendingar kunna til verka

Knud talar af sinni reynslu þegar hann segir að smíðagæðin hafi ekki verið að flækjast fyrir íslenskum útgerðum á árum áður en núna leggi þær ofuráherslu á hágæða smíði, grænar lausnir og minni orkunotkun skipanna skipi veigamikinn sess í ákvörðunum þeirra. Íslenskir sjómenn kunni vel til verka við fiskveiðar og að stunda þær á hagkvæman hátt. Sama eigi við um stóru útgerðarfyrirtækin. Þau sjái með einföldum samanburði á hvaða skipum veiðarnar eru hagkvæmari en á öðrum.

„Við verðum ekki varir við mikla samkeppni. Við smíðum skip af miklum gæðum. Útgerðirnar gera út þessi skip til fjölda ára, selja þau svo og koma aftur til okkar til að fá ný skip. Við búum að því að eiga fjölda viðskiptavina sem leita aftur til okkar eftir nýjum skipum,“ segir Knud.

Hákon ÞH 250, uppsjávarskip Gjögurs, verður afhent um mitt þetta ár.
Hákon ÞH 250, uppsjávarskip Gjögurs, verður afhent um mitt þetta ár.

Með Íslendinga í vinnu

Hjá Karstensen Skibsværft starfa yfir vel yfir 1.000 manns. Fyrirtækið er með þrjár starfsstöðvar, þ.e. í Skagen á Jótlandi, í Póllandi og Grænlandi. Um 600 manns starfa í stöðinni í Skagen, um 500 í Póllandi og stöðugildi í Nuuk á Grænlandi eru 25 talsins. Knud segir að í skipasmíðastöðinni í Skagen starfi nokkrir Íslendingar og lætur hann vel af þeim og Íslendingum almennt. Þeir hafi samlagast samfélaginu í Skagen og láti vel af veru sinni þar. Knud segir að hann sé tilbúinn að ráða allt að tíu manns frá Íslandi og nefnir hann ekki síst Grindvíkinga í leit að annarri vinnu og nýjum heimahögum í því sambandi. „Við ætlum ekki að hefja starfsemi á Íslandi. Ég á íslenska eiginkonu og það nægir mér,“ segir Knud.