Frystitogarinn Blængur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í gærmorgun að loknum þrjátíu daga túr með 742 tonn afla upp úr sjó að verðmæti 280 milljónir króna.

Þetta kemur frá á vefsíðu Síldarvinnslunnar. Þar segir nánar að helstu tegundir sem hafi fengist hafi verið ýsa, gulllax, gullkarfi, ufsi og þorskur.

Víða farið í misjöfnu veðri

„Við vorum að veiðum frá Austfjarðamiðum og suður með landinu og alveg norður á Hala. Það var sem sagt víða farið í þessum þrjátíu daga túr en þó fórum við ekki hringinn,“ er haft eftir Bjarna Ólafi Hjálmarssyni, skipstjóra Blængs, sem kveður veðrið í túrnum hafa verið býsna misjafnt. „Fyrstu tvær vikurnar einkenndust af brælum en síðan breyttist veðrið og var ágætt eftir það.“

Grálúða næst á dagskrá

Bjarni segir menn ágætlega sáttir við túrinn en staðreyndin sé sú að fiskurinn haldi sig í ríkum mæli innan línu þannig að þeir sem þurfi að veiða utan hennar séu ekki að gera það jafn gott og skip sem veiða á grunnslóðinni. „Það er okkur ekki hagstætt þegar fiskurinn heldur sig svona grunnt og mann grunar að hér hafi loðnuleysið áhrif,” er haft eftir Bjarna á svn.is.

Þá kemur fram að gert sé ráð fyrir að Blængur haldi á ný til veiða í kvöld og þá skuli reynt við grálúðu.