Í nýju frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur, fyrrverandi matvælaráðherra, um lagareldi sem nú liggur fyrir Alþingi er settur lagarammi um svokallað hafeldi. Verði frumvarpið samþykkt mun Matvælastofnun geta veitt tilraunaleyfi vegna afturkræfra tilrauna með búnað til hafeldis.

Tilraunaleyfi verði þó ekki veitt nema með samþykki bæði Hafrannsóknastofnunar og Umhverfisstofnunar.

Í frumvarpinu segir að Hafrannsóknastofnun geti sjálf eða í samvinnu við aðra stundað grunnrannsóknir á mögulegum svæðum til hafeldis og á áhrifum hafeldis á vistkerfi og villta stofna. Rannsóknir unnar af Hafrannsóknastofnun eða í samvinnu við hana séu forsenda umsóknar um rekstrarleyfi fyrir hafeldi.

Finni hentugustu svæðin

Þá segir að matvælaráðherra geti beint því til Hafrannsóknastofnunar að hefja „rannsóknir sem miði að því að finna hentug svæði til hafeldis í íslenskri efnahagslögsögu með ákvörðun þar að lútandi,“ eins og segir í frumvarpinu.

Markmið með rannsóknum er sagt vera að mögulegum svæðum til hafeldis sé valin staðsetning þar sem ræktunarskilyrði fisks séu sem best og þar sem minnst áhrif verði af hafeldi á vistkerfi, villta stofna og sjávarbotn.

„Jafnframt skulu umhverfisþættir sem lúta að rekstraröryggi, svo sem straumar og ölduhæð, rannsakaðir sem og atriði sem lúta að velferð fiska, svo sem álag vegna sníkjudýra og sjúkdóma,“ segir í frumvarpinu.

Erlendir aðilar spyrjast fyrir

„Hafeldi er enn á hugmyndastigi hér á landi en innlendir sem erlendir aðilar hafa spurst fyrir um stöðu þess,“ segir Dúi Landmark, uppýsingafulltrúi matvælaráðuneytisins.

Dúi Landmark, upplýsingafulltrúi matvælaráðuneytisins. Mynd/Aðsend
Dúi Landmark, upplýsingafulltrúi matvælaráðuneytisins. Mynd/Aðsend

„Líkt og segir í frumvarpinu þá þarf að ráðast í fjölmargar og ítarlegar rannsóknir til þess að komast að því í hvort og hvar hafeldi sé vænlegt í íslenskri lögsögu. Það er ekki fyrr en þeim rannsóknum er lokið sem hægt er að segja hvaða svæði komi helst til greina. Með frumvarpinu er því verið að sníða ramma utan um þær rannsóknir og utan um leyfisveitingaferlið en miklu máli skiptir að fyrirsjáanleiki og skýr löggjöf sé fyrir hendi til að styðja við fyrstu skref greinarinnar,“ segir Dúi.

Enn engin formleg erindi

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, segist hafa heyrt af áhuga fyrir hafeldi hér við land. Enginn hafi hins vegar formlega leitað til stofnunarinnar enda liggi lagaumgjörðin ekki fyrir.

„Það er öll rannsóknavinna eftir. Eitt er að láta einhvern búnað standa og annað er að láta fisk þrífast í honum og halda honum lifandi,“ segir Guðni. Mörgum spurningum sé ósvarað.

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun.
Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun.

„Eins og er hefur Hafrannssóknastofnun heimild í lögum til þess að stunda rannsóknir að eigin frumkvæði. Við erum ekki þar í þessu eins og er því að í byrjun myndu menn vilja skoða hverjar eru mögulegar staðsetningar, hver eru skilyrðin á viðkomandi stað, hver er ávinningurinn, hverjar eru ógnanirnar, hverju yrði fórnað?“

Brimasamt við Suðurland

Spurður um mögulegar staðsetningar fyrir hafeldi segir Guðni að sér skiljist að menn séu að horfa á hlýja sjóinn fyrir sunnan land.

„Þá komum við hins vegar að því hvernig gengur með að halda fisk inni í kvíunum. Sömuleiðis að því hvað áhrif þetta hefur á burðarþolsmat, áhættumat og fleira. Svo er suðurströnd landsins brimasamasta strönd í Atlantshafi fyrir utan Góðrarvonarhöfða. Þannig að þótt einhver búnaður standi þá er ekki þar með sagt að einhverjir fiskar lifi,“ ítrekar Guðni.

„Miðað við þá mynd sem ég hef séð dregna upp er að það er miðað við að þetta verði eins og olíuborpallur og síðan á honum kvíaþyrping sem væri hægt að sökkva undir öldurnar.“

Mikið lagt undir

Ljóst er að um kostnaðarsamt verkefni er að ræða. „En ég held að hver eining myndi framleiða í kringum tuttugu þúsund tonn á ári og það eru svolítið margir milljarðar. Eflaust yrði þetta gríðarmikil fjárfesting og mikið langt undir þannig að mínu viti er þá eins gott að menn byggi á rannsóknum og þekkingu,“ segir Guðni.

Hversu langt undan landi slíkt eldi myndi vera segir Guðni það fara eftir þeim búnaði sem notaður yrði. Eftir sé að kanna hvaða staðir séu vænlegir og mögulegir.

Framtíðin kemur

„Ég held að það sé að minnsta kosti fyrir utan stórstraumsfjörumörk. Mér skilst að menn hafi verið að horfa á suðurströndina frá Grindavík og austur fyrir Vestmannaeyjar, mögulega nálægt höfnum þannig að það sé stutt í þjónustu,“ svarar Guðni.

Talsvert virðist því enn vera í land með það að hafeldi verði að veruleika undan ströndum Íslands.

„Ég hef verið að spyrja kollega í Noregi með þetta og þeir segja þetta einhvers staðar í framtíðinni. En menn eru með olíuborpalla lengst úti í sjó og einu sinni voru þeir bara í framtíðinni.“