„Þessi fjármögnun á að duga til þess að klára að byggja upp svæðið, seiðaeldisstöðina og fyrsta áfangann upp á 4.500 tonn af slægðum laxi,“ segir Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður Laxeyjar, um nýtt hlutafé inn í fyrirtækið upp á sex milljarða króna.
Lárus segir að síðar verði sótt meira fjármagn til að halda áfram með uppbygginguna sem eigi að verða endanlega lokið á árinu 2030 og framleiðslugetan komin í 27 þúsund tonn.
Fyrsta uppskeran haustið 2025
„Þegar stöðin er komin í rekstur verður til fjármagn án þess að við séum að sækja aukið hlutafé,“ segir Lárus. Seiðastöðin sé þegar komin í gang og áformað sé að setja út 100 gramma seiði í október á þessu ári.
„Þau eru eitt ár í eldinu og þá slátrum við fiskinum um fimm kílóum að þyngd ári síðar, í október eða nóvember 2025. Þá er fyrsta uppskeran.“
Að sögn Lárusar er það mikið pláss í seiðatönkum Laxeyjar að fyrirtækið muni geta selt stórseiði til annarra. „Það er mikill skortur á stórseiðum, sérstaklega fyrir hefðbundið laxeldi. Með því að fara í 500 til 1.000 gramma seiði er hægt að stytta tímann í sjó um einn vetur. Það bætir afkomu og dregur úr áhættu,“ segir hann.
Eftirspurn meira en framboð næstu árin
Aðspurður kveður Lárus framtíðina mjög bjarta fyrir laxeldi. „Í dag eru framleidd um þrjár milljónir tonna af laxi í heiminum og allar spár benda til þess að eftirspurn muni verða meiri en framboð næstu árin. Þannig að það lítur mjög vel út með laxamarkaði um ókomin ár.“
Þegar stöð Laxeyjar verður fullbyggð segir Lárus gert ráð fyrir að starfsmenn verði um 120 talsins. Afleidd störf verði síðan álíka mörg. „Þetta er mjög stórt enda erum við með gríðarlega mikinn stuðning frá bæjarfélaginu og höfum unnið þetta í nánu samstarfi við það,“ segir Lárus Ásgeirsson.