EFTIR ÞÓR SIGFÚSSON

Mörg þeirra fyrirtækja, sem sprottið hafa upp í tengslum við sjávarútveginn, hafa náð umtalsverðri markaðshlutdeild á stærri markaðssvæðum og engin tæknigrein hérlendis hefur viðlíka styrk á alþjóðavísu. Þrátt fyrir þessa fjölgun og oft framúrskarandi tækni, eru flest fyrirtækin lítil og búa við óstöðugt markaðsumhverfi. Kann það að breytast og hvað þarf til? Verða til fleiri Marel á komandi árum?

Sjávarútvegur er trompið!

Í rannsóknum á samkeppnishæfni þjóða eru oft tekin dæmi af sérstöðu einstakra landa í ákveðnum iðn- og tæknigreinum. Á tilteknum svæðum hefur þannig byggst upp net eða klasar fyrirtækja sem hafa eflt svæðið og gert það mjög samkeppnishæft á alþjóðamarkaði. Þekkt eru dæmin um bílaiðnaðinn í Þýskalandi og Svíþjóð, skó- og fataiðnaðinn á Ítalíu og Sílikondal í Kaliforníu svo nokkur dæmi séu tekin. Með þessum klösum fyrirtækja hafa löndin skapað sér sterka ímynd og fjölmörg fyrirtæki náð umtalsverðri markaðshlutdeild á sínum sviðum. Hérlendis hefur okkar helsta tromp í samkeppni við önnur lönd verið sjávarútvegur. Í skjóli hans eru hins vegar tækni- og hliðarafurðafyrirtækin sem tengjast sjávarútvegi og vaxa mörg hver mun hraðar en öflugustu sjávarútvegsfyrirtækin. Eins og Sjávarklasinn hefur fjallað um í röskan áratug eru helstu vaxtartækifæri sjávarútvegs ekki í grunnatvinnuveginum sjálfum, þ.e. veiðum og frumvinnslu, heldur í öllu hinu. Þar liggja tækifæri Íslendinga til að skapa sér nafn sem Sílikondalur sjávarútvegs á heimsvísu.

Flexicut vatnskurðarvél frá Marel.
Flexicut vatnskurðarvél frá Marel.

Sjávarklasinn hefur gert reglulegar úttektir á tæknigeiranum í sjávarútvegi og fyrirtækjum sem tengjast nýtingu hliðarafurða. Í báðum þessum greinum er fjöldi nýrra dæma af sigrum og nægir þar að nefna vöxt ráðsettra fyrirtækja á borð við Marel, Héðin og Hampiðjuna og sigra nýsköpunarfyrirtækja eins og Learncove, Hefring og Ankeris. En langflest íslensku tæknifyrirtækin, sem eru 40-50 talsins, vaxa fremur hægt.

Markaðshlutdeild sem vísbending

Fyrirtæki, sem búa við sterka markaðsstöðu á alþjóðamarkaði njóta þess á margan hátt. Þau skila betri ábata af rekstrinum, laða til sín hæft starfsfólk, vörumerki þeirra nýtur þess að vera með sterka stöðu og fyrirtækin geta orðið eins konar segull fyrir nýsköpun á þeirra sviðum. En hvar standa íslensku nýsköpunarfyrirtækin í sambandi við markaðshlutdeild á alþjóðamarkaði? Sjávarklasinn óskaði eftir upplýsingum frá tæknifyrirtækjum og fyrirtækjum með hliðarafurðir um markaðshlutdeild þeirra á stærri mörkuðum. Í svörum margra fyrirtækjanna kom fram að erfitt væri að ákveða hve stór markaðurinn væri þar sem ólík tækni og vinnubrögð væru við lýði og því erfitt að segja til um markaðshlutdeild íslenskrar tækni. Langflest fyrirtækin eru einnig lítil eða meðalstór. Marel (Valka og Curio) og Hampiðjan standa hér upp úr og bæði þessi fyrirtæki eru með umtalsverða markaðshlutdeild í víðtækri vinnslutækni og veiðarfærum á heimsmarkaði. Önnur tæknifyrirtæki sem hafa hvað sterkustu stöðu á sínum mörkuðum eru meðal annars Héðinn, Sæplast, Trackwell, Skaginn3X, Thorice, Samey Robotics og Vaki. Í þessum tilfellum er mismunandi hvaða markaðshlutdeild fyrirtækin hafa og á hvaða mörkuðum þau starfa. Fyrirtæki eins og Sæplast er með afgerandi markaðshlutdeild í fiskikörum í tilteknum löndum utan Íslands. Trackwell er með hágæða útgerðar- og fiskveiðistjórnunarkerfi sem keppa við ólík innanhússkerfi og excel. Önnur tæknifyrirtæki eru með leiðandi markaðshlutdeild í tilteknum vinnslulínum eða sérhæfðri tækni, verksmiðjum eða vinnsluaðferðum.

Samey sýnir nýjustu gerðir þjarka á sjávarútvegssýningum.
Samey sýnir nýjustu gerðir þjarka á sjávarútvegssýningum.

Í viðræðum við forsvarsmenn fyrirtækjanna kom fram að fyrirtækin eru með tæknilausnir sem eru með sterka stöðu á markaði. Þetta geta verið lausnir í upplýsingatækni yfir í einstaka vélbúnað, sem náð hefur sterkri stöðu á erlendum mörkuðum eins og fiskimjölsverksmiðjur, lausfrystar, marningsvélar, rafvindur, hausaskurðarvélar, þurrkunarbúnaður, hreinsitækni og róbótar svo eitthvað sé nefnt.

Stærri einingar sterkari?

Í athugun Sjávarklasans kom einnig fram að því stærri sem fyrirtækin eru því meiri hefur veltuaukningin verið undanfarin ár. Skoðaðar voru veltutölur hjá 38 litlum eða meðalstórum tæknifyrirtækjum sem tengjast sjávarútvegi. Þessi fyrirtæki voru með veltu sem nam alls 34 milljörðum. Af þessum fyrirtækjum eru 14 fyrirtæki með veltu yfir 1 milljarði á ári og árleg veltuaukning á árunum 2018-2022 var 10%. Flest þessara fyrirtækja eru í veiðafæragerð, umbúðaframleiðslu og kælingu. Fyrirtæki með veltu undir 1 milljarði eru 24 talsins. Í athugunum hér að framan voru tvö langstærstu fyrirtækin, Marel og Hampiðjan, skoðuð sérstaklega. Veltuaukning þeirra á tímabilinu 2018-2022 var um 12% á ári. Vandi margra þeirra tæknifyrirtækja, sem mynda framvarðasveit Íslands í þessum klasa nýsköpunar sem tengist hafinu, er að þrátt fyrir framúrskarandi tækni er erfitt fyrir þessi litlu fyrirtæki að færa út kvíarnar, styrkja sig í öðrum matvælagreinum, og byggja alþjóðlegt sölunet. Í samtölum við forsvarsmenn tæknifyrirtækjanna kom fram að þótt fyrirtæki séu með leiðandi stöðu í einstökum tækjabúnaði þá séu gríðarlegar sveiflur í eftirspurn. Eitt árið er eftirspurnin eftir tilteknum búnaði á heimsvísu mjög mikil en næsta ár á eftir nær hún einungis helmingi veltu ársins á undan. Fyrirtæki með eina eða tvær vörur, sem hafa sterka samkeppnisstöðu, eru því í erfiðleikum að nýta sér þessa stöðu þar sem sveiflur kunna að vera miklar. Fjárfestar eru síður reiðubúnir til að leggja í umtalsverðar fjárfestingar og markaðssetningu í fyrirtækjum sem búa við jafn óstöðuga eftirspurn.

Eftir því sem fleiri minni og meðalstór fyrirtæki geta víkkað út kaupendahópinn – selt t.d. kælilausn fyrir hvítfiskvinnslu einnig í eldi eða kjúklingavinnslu, toghlera fyrir umhverfisrannsóknir eða olíuleit, prótínvinnslu fyrir eldi eða landbúnað o.s.frv., skapast tækifæri til að jafna betur út sveiflur í eftirspurn. Þetta eru ýmis tæknifyrirtæki þegar að gera eins og Thorice, Samey, og nokkur fjöldi annarra fyrirtækja. Þannig ná þau fyrirtæki sem dýpka sinn markað og möguleika til að auka stöðugleika í veltu. Meira þarf þó oft að koma til. Er samruni tæknifyrirtækja svarið? Samruni íslenskra tæknifyrirtækja í stærri einingar, einingar sem geta boðið breitt úrval tæknilausna er án efa ein farsælasta leiðin til að efla þessi fyrirtæki enn frekar. Þessi fyrirtæki eiga auðveldar með að dreifa áhættunni, leggja meira í rannsóknir og nýsköpun, efla markaðsstarf og sækja fjármagn bæði hér og erlendis. Þegar horft er á stóran hóp lítilla tæknifyrirtækja á ýmsum sviðum hérlendis sem tengjast hafinu þá er ljóst að mörg þeirra kunna að púslast vel saman. Fjöldi minni fyrirtækja í upplýsingatækni sem lýtur að hafinu, stjórnun um borð í skipum og umhverfisvakt gæti haft hag af samruna. Gæti orðið til stór eining með samruna fyrirtækja sem bjóða hvers kyns kælitækni, umbúðatækni og bátaframleiðslu? Gætu fyrirtæki sameinast sem bjóða tækni til að vinna afurðir úr fiskimjöli eða annarri fullvinnslu aukaafurða úr fiski? Eða fyrirtæki sem sérhæfa sig í verkfræðihönnun og byggingu vinnslurýma fyrir matvælavinnslu og hönnun og uppbyggingu landeldis? Það er alla vega þörf að skoða þessi tækifæri og þar geta fjárfestingarsjóðir haft mikið að segja. Fleiri Marel geta verið í kortunum!

Höfundur er stofnandi Íslenska sjávarklasans.