KAPP hefur unnið að þróun og smíði nýju OptimICE CO2 krapavélarinnar síðastliðin tvö ár og vélin var frumsýnd á sjávarútvegssýningunni í Barcelona sem nú er nýlokið. Vélin verður framleidd í nokkrum tegundum og stærðum og einnig er hægt að nota hana sem forkæli til sjós og í fiskvinnslum.

Mikil framþróun

Freyr Friðriksson, eigandi og forstjóri KAPP, segir mikla framþróun hafa orðið í kælimiðlum undanfarin ár og fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi hafi mörg hver verið mjög framsýn í þeim efnum.

„Þessi fyrirtæki hafa verið fús til þess að taka þátt í verkefnum sem stuðla að því að óumhverfisvænum kælimiðlum er fasað út, kælimiðlum eins og freoni. Sú vegferð er núna langt komin hérlendis og athyglisvert að sjá hve íslenskir útgerðarmenn standa framarlega á þessu sviði í öllum samanburði,“ segir Freyr. Hann bætir við að íslensk tæknifyrirtæki væru vart til í þeirri mynd sem þau eru núna nema fyrir samstarf við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki.

Þróuð og smíðuð á Íslandi

Nýja krapavélin keyrir alfarið á CO2 kælimiðli og þetta er fyrsta vélin sinnar gerðar í heiminum sem kemst í fjöldaframleiðslu. Öll þróun, hönnun og smíði vélarinnar fór fram í húsakynnum KAPP í Turnahvarfi í Kópavogi. GWP-stuðull nýju vélarinnar (Green Warming Potential) er 1 GWP/kg en sami stuðull fyrir krapavél með freon kælimiðli væri 1.400 GWP/kg. Auk þess þarf 20% færri kW stundir til þess að keyra nýju krapavélina. Þetta leiðir til minni olíunotkunar í skipum með OptimICE CO2 vélina og minni raforkunotkunar í landvinnslum.

„Þessi nýja vél er með innbyggðan forkæli sem kælir hitastig sjós tiltölulega hratt niður. Ísþykkni vélarinnar getur verið frá 10% og upp í 40%. Með CO2 vélinni geta sjávarútvegsfyrirtæki lækkað kolefnisspor sitt töluvert.“

Hluti af hópi starfsmanna KAPP sem hannaði nýju OptimICE® CO2 krapavélina ásamt erlendum sérfræðingum. Frá  vinstri: Heimir Halldórsson, Friðrik Ingi Óskarsson, Valþór Hermannsson, Vilberg Ingi Kristjánsson, John King, Martin  Ritche, Sævar Hjalti Óskarsson, Helgi Magnússon og Hlynur Georgsson.
Hluti af hópi starfsmanna KAPP sem hannaði nýju OptimICE® CO2 krapavélina ásamt erlendum sérfræðingum. Frá vinstri: Heimir Halldórsson, Friðrik Ingi Óskarsson, Valþór Hermannsson, Vilberg Ingi Kristjánsson, John King, Martin Ritche, Sævar Hjalti Óskarsson, Helgi Magnússon og Hlynur Georgsson.

Þjarki sem þrífur sprautunálar

Meðal framleiðsluvara KAPP eru sprautunarvélar fyrir framleiðslu á saltfiski og til sprautunar á öðrum fiskafurðum. Í Barcelona kynnir fyrirtækið nýjung sem er þjarki sem þrífur sprautunálarnar bæði fyrir vélar KAPP og aðrar sprautuvélar. KAPP keypti fyrirtækið RAF ehf. á síðasta ári og ein af þeim vörum sem því fylgdi voru sprautunarvélar og tengdur búnaður. Nú eru um 30 slíkar vélar í notkun í landinu og erlendis, einkum Noregi og Bandaríkjunum. Þjarkinn flýtir mjög fyrir þrifum á nálunum og er vinnusparandi.

Erfitt vaxta- og launaumhverfi

Freyr segir að samdráttur sé í sölu á búnaði á Íslandi hjá innlendum tækjaframleiðendum. Fyrirtæki séu síður reiðubúin til fjárfestinga á þessu sviði í því háa vaxtaumhverfi sem er á Íslandi og framleiðslufyrirtækin eiga í vök að verjast vegna aukins launakostnaðar. Fyrir vikið er innlend framleiðsla að verða dýrari en sambærileg vara erlendis frá.

„En það að vera í liði með íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum gerir okkur sterkari í sölu á okkar búnaði á erlendum mörkuðum. Við prófum búnaðinn í samstarfi við íslensku fyrirtækin og höfum sýnt fram á að hann skilar tilætluðum árangri. Samstarfið innanlands tryggir líka að allir barnasjúkdómar, sem oft fylgja nýjum vörum, eru læknaðir þegar varan fer á erlenda markaði. Samstarfið við innlend sjávarútvegsfyrirtæki opnar þannig dyr fyrir okkur inn á markaði út um allan heim,“ segir Freyr.

Nýja CO2 umhverfisvæna krapavélin í prófunarferli.
Nýja CO2 umhverfisvæna krapavélin í prófunarferli.

Dyr út í heiminn

KAPP hefur selt töluvert af búnaði til fyrirtækja á vesturströnd Bandaríkjanna allt frá 2018 og góður gangur hefur verið í þeim viðskiptum að undanskildum Covid-árunum. Í Noregi hefur KAPP náð góðri fótfestu með BP 103 krapavélina sem kom á markað í hittifyrra og er eingöngu ætluð í smábáta. Vélin er fyrirferðarlítil en framleiðir upp undir eitt og hálft tonn af ískrapa á sólarhring. Dyr inn á þessa markaði eru sjávarútvegssýningar eins og sú sem er haldin í Barcelona. Freyr segir það vissulega kostnaðarsamt að taka þátt í svona sýningu með myndarlegum hætti en það skili sér margfalt til baka á seinni stigum. KAPP var með nýju CO2 krapavélina á sýningunni og framleiddi þar ískrapa meðan á sýningunni stóð. Einnig var á bás KAPP þjarkinn sem þrífur nálasprauturnar og ný gerð af hnífabrýnum fyrir flökunarvélar sem fyrirtækið framleiðir meðal annars fyrir Vélfag. Á sýninguna koma útgerðaraðilar alls staðar að úr heiminum, fiskverkendur og skipahönnuðir sem leita lausna fyrir sín skip, svo fáeinir séu nefndir. Þarna eru líka framleiðendur afurða úr eldisfiski og þar sér KAPP fyrir sér verkefni framundan.

Dagur á skrifstofunni

Nýja CO2, umhverfisvæna krapavélin í prófunarferli. Fyrsta vélin er á leið til Nesfisks. Við prófum búnaðinn í samstarfi við íslensku fyrirtækin og höfum sýnt fram á að hann skilar tilætluðum árangri. Samstarfið innanlands tryggir líka að allir barnasjúkdómar, sem oft fylgja nýjum vörum, eru læknaðir þegar varan fer á erlenda markaði. Freyr er sannfærður um fullvinnsla á eldisafurðum eigi eftir að aukast til muna hérlendis. Nefnir hann þar til sögunnar til dæmis landeldisfyrirtækið Laxey í Vestmannaeyjum þar sem fyrrverandi útgerðarmenn eru stórir hluthafar, menn sem kunna að vinna fisk. Sama eigi við um önnur fiskeldisfyrirtæki