Skipahönnunarfyrirtækið Nautic vinnur nú að hönnun þriggja skipa sem taka mið af breytingum sem orðið hafa á fiskveiðistjórnunarlögum. Þau verða búin umhverfisvænni vélum og verða hagkvæmari með tilliti til heildar útgerðarmynsturs þeirra

Nautic hefur um árabil sett mark sitt á fiskiskipaflotann hérlendis og annars staðar. Aðalsmerki margra þeirra er stefnið sem nefnt hefur verið Enduro Bow en líka Bárðarbunga í höfuðið á Bárði Hafsteinssyni skipahönnuði sem rekur fyrirtækið Skipatækni og er í nánu samstarfi við Nautic.

Hjá Nautic starfa nokkrir af reynslumeiri skipahönnuðum landsins, eins og Alfreð Tulinius, Kári Logason, Gunnar Tryggvason og Steinar Þorri Tulinius hönnuður, en daglegan rekstur annast Hrafnkell Tulinius sem jafnframt er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Brúttótonnin út og breiddin inn

Kári bendir á að nýlega hafi verið gerðar breytingar á fiskveiðistjórnunarlögum og nú sé beðið eftir reglugerð frá matvælaráðuneytinu um nánari skilgreiningar. Í nýju lögunum er ákvæði sem kveður á um að tonnatala skips hafi ekki áhrif eigi að gera skipið út innan krókaaflamarkskerfisins að því gefnu að orkugjafi skipsins sé til helminga endurnýjanleg orka. Samkvæmt fyrri lögum varð skip að vera innan 15 metrar að lengd og innan við 30 íslensk brúttótonn. Nú er seinni liðurinn numinn brott en hann hafði verulega hamlandi áhrif á hönnun skipa inn í þetta kerfi. Með þessu verður hægt að hanna breiðari og burðarmeiri skip sem bera rafhlöður eða búnað fyrir rafeldsneyti og verða með mun betri aðstöðu til veiða, vinnslu og frágangi á afla, hvar gert er ráð fyrir sjálfvirkri körun í hönnun skipanna. Hönnun af þessu tagi mun leiða til betri aðstöðu fyrir áhafnir, aukið öryggi og þægindi auk þess að stuðla að orkuskiptum á sjó til framtíðar.

42x14 metra togari samkvæmt hönnun Nautic.
42x14 metra togari samkvæmt hönnun Nautic.

Knúið innlendu metani

Nautic hefur frumhannað 15 metra langan bát út frá þessum sjónarmiðum sem hugmyndin er að knúið verði metani frá íslenskum framleiðendum eða rafmagni. Bæði hefur sína kosti og galla, fjárfestingarkostnaður er hærri fyrir rafhlöður, en reksturinn að mörgu leyti einfaldari með rafmagni en metani. Metan er reyndar eini orkugjafinn sem skilgreindur er sem rafeldsneyti og er fáanlegt á Íslandi. Framleiðendur metans fullyrða að þeir hafi framleiðslugetu til þess að sinna orkuskiptum af þessu tagi. Nautic hefur útfært kerfi í bátunum fyrir metanflöskur sem fyllt er á hjá innlendum metanframleiðanda og koma um borð í magasíni. Metanið er tengt við eldsneytiskerfi skipsins og flöskum, sem komið er fyrir í magasíni, er síðan skipt út fyrir áfylltar flöskur þegar þær tæmast. Grundvöllur fyrir framleiðslu á nægilegu metani er sagður til staðar í öskuhaugum landsins. Bátur af þessu tagi gæti verið alfarið á grænu eldsneyti ef framboð og afhendingaröryggi verður fullnægt. Hugmyndin er að skipin séu að auki útbúin dísilvélum sem vara aflgjafa.

Metan er 15-20% ódýrara en olía og metan er innlendur orkugjafi sem út frá umhverfislegum ástæðum er betra að brenna en ekki. En fjárhagslegur ávinningur útgerða er ekki síður stærra skip sem tekur meiri fisk í lest og er með betri aðbúnað fyrir áhafnir sem skiptir máli til þess að draga að, og halda í góðan mannskap til starfa um borð.

15x8 metra krókaaflamarksbátur sem gæti notað metan sem orkugjafa. MYNDIR/NAUTIC
15x8 metra krókaaflamarksbátur sem gæti notað metan sem orkugjafa. MYNDIR/NAUTIC

29 og 42 metra togarar

Hin tvö skipin sem Nautic frumhannar eru 29 metra og 42 metra langir togarar. Í þessum flokki skipa hefur aflvísirinn, margfeldi vélarstærðar og þvermáls skrúfu, verið felldur úr lögum og þar með geta útgerðir látið smíða fyrir sig skip sem eru hagkvæmari fyrir heildar útgerðarmynstur skipanna. Þegar takmörk á toggetu skipanna eru felld út úr lögum verður hægt að hanna skip sem eru hagkvæmari þegar þau eru að veiðum fyrir utan „kálgarðinn“, þ.e.a.s. utan þriggja eða fjögurra mílna mörkin. Nautic hefur útfært togara í ýmsum stærðum sem geta brennt metanóli en vandinn er sá að grænt metanól er ekki til á markaðnum og fátt sem bendir til þess að framleiðsla á rafeldsneyti sé í undirbúningi hér á landi. Útgerðir eru því síður tilbúnar að smíða skip hvers öflun og afhending eldsneytis er ekki tryggt. Metan myndi henta 15 metra bátunum sem eru á mun styttra úthaldi en það hentar síður stærri skipum.

29x12 metra togskip sem Nautic hefur frumhannað.
29x12 metra togskip sem Nautic hefur frumhannað.

Lítill stuðningur

„Í þessum orkuskiptum sem eiga að vera eiga sér stað er vandinn sá að orkan er ekki til. Þá verða menn að nota þá orku sem er til og er innflutt olía,“ segir Kári. „Það má alveg ítreka að íslenskur sjávarútvegur, útgerðarmenn og hönnuðir hafa staðið sig gríðarlega vel undanfarin ár þegar kemur að hönnun og framleiðslu þeirra skipa sem komið hafa ný inn í íslenskan fiskiskipaflota. Þau brenna gjarnan 35-40% minna af jarðefnaeldsneyti en eldri forverar þeirra. Þessi árangur hefur náðst hér þrátt fyrir mjög takmarkaða aðkomu yfirvalda eða íslenskra styrkja umhverfisins, sem er mun öflugra í nágranna- og samkeppnislöndum okkar eins og Noregi,“ bætir Hrafnkell við.