Steinn Símonarson, aðstoðarframkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood, segir að stóra sjávarútvegssýningin sem nú fer fram í Barcelona sé afskaplega mikilvæg í sölu- og markaðsmálum.

Þetta kemur fram í spjalli við Stein á vefsíðu Samherja. Segir þar að nokkrar risastórar sýningarhallir verði miðpunktur alþjóðlegs sjávarútvegs, þar sem kynnt sé allt hið besta og nýjasta sem fyrirtæki í hafsæknum greinum hafi upp á að bjóða.

Fundir frá morgni til kvölds

Haft er eftir Steini að á slíkum sýningum sé fyrst og fremst verið að treysta viðskiptasambönd og stofna til nýrra.

„Starfsfólk okkar er með bókaða fundi svo að segja frá morgni til kvölds, þannig að það er eins gott að skipulagið gangi upp eins og lagt er upp með. Stundum er sagt að íslenski fiskurinn selji sig sjálfur en það er nú aldeilis ekki svo. Þrátt fyrir hraða þróun í rafrænum samskiptum er staðreyndin sú að persónuleg tengsl eru mikilvæg. Hérna hittum við fulltrúa fyrirtækja sem hafa verið í viðskiptum við okkur í áratugi og treystum enn frekar samvinnuna en stofnum einnig til nýrra viðskiptasambanda,“ segir Steinn á vef Samherja.

Skemmtileg törn

Einnig er rætt við Ingibjörgu Aradóttur, sölufulltrúa hjá Ice Fresh Seafood, sem hefur starfað lengi í alþjóðlegum sjávarútvegi. Hún segir tilhlökkunarefni að hitta viðskiptavini á Seafood Expo Global.

„Samkeppni í alþjóðlegum sjávarútvegi er hörð og þá er lykilatriði að kynna sem best okkar frábæra hráefni og síðast en ekki síst að rækta traust og farsæl viðskiptasambönd,“ er haft eftir Ingibjörgu sem kveður sýninguna vera skemmtilega törn. „Dagskráin hjá mér er þéttskipuð en með góðu skipulagi næ ég að hitta marga, fara yfir málin og kanna hvað má betur fara,“ segir hún á vef Samherja þar sem nánar er rætt við þau Stein.