„Ég veit ekki um neinn sem er að fara,“ segir Þröstur Sigmundsson, hrefnuveiðimaður fram til ársins 2021, spurður um útlitið með hrefnuveiði í sumar.

Ástæðuna fyrir því að engin hyggi á hrefnuveiðar segir Þröstur vera þá umgjörð sem stjórnvöld bjóði upp á varðandi hrefnuveiðar.

Samkvæmt upplýsingum frá matvælaráðuneytinu er nú ein umsókn um hrefnuveiðileyfi til meðferðar þar. Engar umsóknir hafi borist fyrir árin 2022 og 2023.

„Ákvörðun um leyfilegt heildarveiðimagn er í undirbúningi í ráðuneytinu og verður birt með viðauka við reglugerð um hvalveiðar þegar hún liggur fyrir,“ segir ráðuneytið í svari til Fiskifrétta.

„Það eru endalausar fleiri reglur og eftirlit og kvaðir um hitt og þetta,“ segir  Þröstur sem stundaði hrefnuveiðar í sjö ár fram til 2021. Hann fékk veiðileyfi frá matvælaráðuneytinu til fimm ára frá 2019 og til og með 2023 en stundaði veiðarnar aðeins fyrstu þrjú árin. Hann segir enga aðra hafa verið með leyfi til veiða á hrefnu á þessu tímabili og því hafi engar hrefnur verið veiddar hér við land sumrin 2022 og 2023.

Banabiti frá ráðuneyti

„Þetta var bara ekki hægt,“ segir Þröstur. Hann segir að gerðar hafi verið ítarlegar rannsóknir á dauðastríði hvalanna og í kjölfarið hafi komið fram kröfur um myndavélar um borð og að skilað yrði inn myndefni. Þetta hafi verið svolítið hæpið. „Á svona litlum báti eins og hjá mér er einfaldlega ekki pláss fyrir aukamann um borð.“

Rokkarinn GK er ekki lengur í eigu Þrastar Sigmundssonar. Mynd/Þorgeir Baldursson
Rokkarinn GK er ekki lengur í eigu Þrastar Sigmundssonar. Mynd/Þorgeir Baldursson

Þröstur segir banabitann fyrir sig hafa verið hinar hertu reglur sem settar hafi verið af Svandísi Svavarsdóttur, fyrrverandi matvælaráðherra. „Fyrir svona mann eins og mig þá hefði allt eins verið hægt að banna hrefnuveiðar.“

Rokkarinn seldur

Báturinn sem Þröstur gerði út, Rokkarinn GK, er ekki lengur í hans eigu. „Ég seldi hann í fyrra,“ segir hrefnuveiðimaðurinn fyrrverandi sem þrátt fyrir stöðu mála kveðst ekki útiloka að taka þráðinn upp á miðunum að nýju.

„En það lítur ekki út fyrir að ég fari í sumar að minnsta kosti,“ segir Þröstur og bendir á að hann búi að mikilli reynslu í þessum efnum. „Þetta er öðruvísi en aðrar veiðar á sjó og ég var ekki að hugsa þetta í upphafi sem bara eitt sumar.“

Þröstur segir það ekki hafa verið hvetjandi fyrir sig hvernig það var að horfa upp á bannið sem sett var á Hval hf. í fyrrasumar. „Þetta er erfitt og ekki mikið sem er hægt að gera,“ segir hann.

Vandamálið sé þó að minnsta kosti ekki skortur á eftirspurn og gríðarlega mikið séaf hrefnu innan landhelgi Íslands.

„En spurningin er hvað einn maður sem er að vinna hjá sjálfum sér ætlar að gera á móti öllum hinum sem eru bara í sínu og fá alltaf útborgað,“ segir Þröstur.

Eldsvoði setti strik í reikninginn

Það hjálpaði heldur ekki Þresti við að halda veiðunum áfram að hann var orðinn einn um hituna eftir að Gunnar Bergmann hætti sinni útgerð. Það gerði Gunnar þegar altjón varð í húsnæði fyrirtækisins hans í Hafnarfirði í júlí 2019 eftir að eldur kom upp í húsnæðinu við hliðina.

„Þegar við vorum tveir við Gunnar þá var þetta öðruvísi. Hann var með vinnsluna og ég

lét hann hafa allt kjötið,“ útskýrir Þröstur og ítrekar að hvalveiðimenn séu eingöngu að reyna sitt besta. „Þetta er alveg eins og aðrar veiðar. Þegar þú ferð á gæs þá ætlar þú ekki að láta gæs sleppa særða. Mér finnst það einkennilegt að menn ætli ekki að nýta þetta eins og annað í hafinu.“