„Við höfum ekki séð nein merki um að hann sé að koma aftur,“ sagði Anna Heiða Ólafsdóttir, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, á málstofu nú í hádeginu þar sem hún svaraði þeirri spurningu hvort búast megi við makríl í sumar.

Má búast við makríl í sumar? var einmitt yfirskrift erindis Önnu Heiðu á málstofunni. Þar fór hún yfir makrílveiðar við Ísland í sögulegu samhengi og rannsóknir og tilgátur sem tengjast makríl.

Að sögn Önnu Heiðu er hitastig ein stærsta breytan þegar kemur að fæðugöngu makríls sem vilji vera í átta til þrettán gráðu heitum sjó. Hvað það snerti hefði verið mjög mikill munur á hitastigi í hafinu fyrir austan Ísland milli áranna 2014, þegar göngur voru miklar og ársins 2020 þegar lítið var af makríl.

Ekki einn einasti makríll

Vísbendingarnar fyrir sumarið eru ekki góðar. „Í vorrallinu 2024 var ekki einn einasti makríll,“ upplýsti Anna Heiða til dæmis. „Þetta lítur ekki vel út, stofninn er alltaf að minnka og minnka og ekki nein stór nýliðun að koma inn,“ sagði hún einnig. Eftir að stofninn fór að minnka hafi hann hætt að ganga eins mikið í vestur, og þar með til Íslands.

„Það er enginn að spá því að stofninn stækki, standi bara í stað. Þið sjáið að þetta lítur ekki svakalega vel út.“

Hér er tengill á upptöku af málstofunni fyrr í dag.