„Í fiskeldinu höfum við mætt ósanngjarnri umræðu þar sem okkar bestu vísindamenn ná ekki að komast í gegn um stanslausan áróður,“ sagði Ólafur Marteinsson, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í ræðu sinni á ársfundi samtakanna sem nú stendur yfir í Hörpu.

„Það er til marks um þunga áróðursins að skoðanir poppstjarna og áhrifavalda virðast lagðar að jöfnu við álit vísindamanna. Það kom okkur því ekki á óvart að eftir að ítarlegar rannsóknir vísindamanna sýndu að sjókvíaeldi hefði ekki áhrif á hafsbotninn að þá kæmi fram krafa um að öll þessi atvinnugrein, þessi vaxandi atvinnugrein væri bönnuð. Og það er til marks um fáránleikann í þessu öllu saman að undir þetta skrifuðu Gerður í Blush og Gummi Kíró. Ég er viss um að þau eru sérfræðingar á sínu sviði og ég er líka viss að þau eru ekki þau bestu til að ráða okkur heilt í þessum efnum,“ sagði Ólafur.

Þurfa að draga lærdóm af því betur hefði mátt fara

„En að öllu gríni slepptu,“ bætti Ólafur við, „þá er augljóst að fiskeldi hefur skipt sköpum fyrir mörg byggðarlög á Vestfjörðum og fyrir austan. Síðasta ár var erfitt og við þurfum að draga lærdóm af því sem betur hefði mátt fara. En fram undan eru vonandi bjartari tímar með mikilli uppbyggingu.“