Ferjufyrirtækið Torghatten Nord hefur samið við Myklebust skipasmíðastöðina rétt sunnan Álasunds um að smíða tvær vetnisknúnar ferjur sem verða stærstu vetnisknúnu skip sögunnar. Ferjurnar verða 117 metrar á lengd og geta flutt allt að 120 bíla á hverri ferð á lengstu áætlunarleið ferja í Noregi milli Bodø og Lofoten. Til samanburðar má nefna að rafknúna Vestmannaeyjaferjan Herjólfur getur að hámarki flutt 65-70 bíla.

Ferjurnar verða stærstu vetniskúnu skip sem smíðuð hafa verið í heiminum og verða knúnar vetni sem framleitt er í Bodø. Áætlað afhendingarár ferjanna er 2026. Marius Hansen, forstjóri Torghatten Nord, segir í samtali við norska ríkissjónvarpið, NRK, að með nýju vetnisknúnu ferjunum verði samdráttur í losun fyrirtækisins á CO2 um 26.000 tonn á ári.

Ný viðmið fyrir nýja gerð skipa

Hann segir samninginn gríðarlega mikilvægan fyrir tækni- og skipasmíðaiðnaðinn í Noregi. „Í samstarfi við stjórnvöld ætlum við að setja ný viðmið fyrir nýja gerð skipa þar sem tækninýjungar og umhverfisvernd eru sett í forgang,“ segir Hansen.

Verkefnið kallar á mannaráðningar hjá skipasmíðastöðinni og annasama tíma næstu árin. „Hvergi annars staðar í heiminum eru farþegaflutningar stundaðir yfir svo langa og krefjandi vegalengd með vetnisknúnum skipum. Við hönnun og í öllum tæknilausnum þarf að gæta allra öryggisþátta fyrir ferjur sem sigla langar leiðir á hafsvæði þar sem allra veðra er von,“ segir Hansen.

Bodø er borg í Nordland-fylki og talsmaður borgarinnar, Ida Gudding-Johnsen, segir verkefnið einstaklega spennandi fyrir sveitarfélagið Bodø og Nordland. Það hafi mikið að segja fyrir uppbyggingu allra innviða að vetnið verði framleitt í Bodø og að framlag þessa verkefnis til umhverfismála sé mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að einn þriðji af allri losun Norðmanna á hafi úti eigi sér stað í Nordland.

Vetnisskip fyrir olíuvinnsluna

Farþegaflutningar á vetnisknúnum skipum á svo langri sigingaleið verður einsdæmi í Noregi. Talsverð hreyfing er í átt að vetnisvæðingu skipa því norska skipafélagið Halten Bulk AS lætur nú líka smíða fyrir sig tvö stór vetniskúin skip sem þjónusta munu olíuvinnsluna úti fyrir ströndum Noregs. Skipin verða tekin í notkun á næsta ári. Vetnið fæst frá fimm nýjum vetnisstöðvum sem verið er að taka í notkun.