„Við óskum þeim til hamingju með það mikilvæga skref að stofna hér fiskvinnslu og skapa þannig mikilvæg störf og verðmæti fyrir sveitarfélagið,“ segir Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri og oddviti í færsluá vef Strandabyggðar þar sem hann skýrir frá því að Vilji fiskverkun ehf. ætli að hefja vinnslu í húsnæði Hólmadrangs.

Viljinn fiskverkun er í eigu Bjarkar Ingvarsdóttur og Péturs Matthíassonar sem eiga einnig Vissu útgerð sem fékk nýlega úthlutað 500 tonna sértækum byggðakvóta. Vissa gerir út línuog netabátinn Hlökk ST 66. Þau Björk og Pétur báðust undan því að ræða umfyrirætlanir sínar að svo stöddu. Enn sé verið að funda um málin og vinnsla ekki hafin.

Fjórar umsóknir bárust um sértæka kvótann og lagði Byggðastofnun til að Vissa útgerð og samstarfsaðilar fengju úthlutunina.

Vonsvikin að fá ekki Stakkavík

Rækjuvinnslu í Hólmadrangi var hætt í fyrrasumar eftir nær sex áratuga sögu. Mynd/Aðsend
Rækjuvinnslu í Hólmadrangi var hætt í fyrrasumar eftir nær sex áratuga sögu. Mynd/Aðsend

Sveitarstjórn Strandabyggðar sagðist ekki leggjast gegn því að Vissa útgerð fengi kvótann. Fulltrúar Strandabandalagsins, sem eru í meirihluta í sveitarstjórn, bókuðu þó að það væru það vonbrigði að ekki hefði tekist samkomulag milli heimamanna og Stakkavíkur frá Grindavík sem hefði lýst yfir skýrum áhuga á að flytja fiskvinnslu sína til Hólmavíkur.

„Að auki lá fyrir, að Stakkavík myndi leggja til viðbótarframlag með eigin kvóta og stuðla þannig að enn öflugri fiskvinnslu hér á Hólmavík, sem gæti skapað tugi starfa á sjó og í landi. Þarna var að okkar mati mikið og sjaldséð tækifæri til að efla atvinnulífið í Strandabyggð og koma á öflugri fiskvinnslu á Hólmavík, með hagsmuni allra íbúa Strandabyggðar í huga,“ bókaði Strandabandalagið.

Hugleiði samstarf

Fjallað var um málið í Bæjarins besta 3. apríl síðastliðinn þar sem fram kom að Stakkavík hefði viljað fá fimm ára úthlutun en að umrædd úthlutun væri einungis fyrir núverandi fiskveiðiár.

Á fundi sveitarstjórnar sagðist Strandabandalagið hvetja alla til að íhuga samstarf. „Strandabandalagið hvetur heimamenn í Vissu-hópnum til að hugleiða þá sviðsmynd sem hér væri, ef hér á Hólmavík byggðist upp að minnsta kosti 1.500 til 2.000 tonna fiskvinnsla en hugsanlega enn umfangsmeiri á næstu árum.“