Útbreiðsla makríls var mun meiri við Ísland í ár samanborið við síðustu tvö ár og mældist makríll fyrir austan, sunnan og vestan landið, að því er fram kemur í samantekt á niðurstöðum sameiginlegs uppsjávarleiðangurs Íslendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana.

Fyrir sunnan land náði útbreiðslan yfir landgrunnið og suður að 61°N. Mesti þéttleikinn var fyrir suðaustan landið og síðan fyrir vestan. Alls mældist 18,9% af heildarlífmassa makríls í íslenskri landhelgi samanborið við 7,7% síðast ár. Líkt og undanfarin ár mældist meirihluti stofnsins í Noregshafi en minna mældist í norðanverðu Noregshafi.

Vísitala lífmassa makríls var metinn 7,37 milljónir tonna sem er 43% hækkun frá árinu 2021 og er nálægt langtímameðaltali gagnaseríu (7,28 milljónir tonna). Byggir vísitalan á afla í alls 247 stöðluðum yfirborðstogum á fyrirfram ákveðnum stöðvum. Tvær togstöðvar voru með einstaklega mikinn afla, eða 70 og 103 tonn á km2. Reiknaður lífmassi fyrir þessar tvær stöðvar er um þriðjungur af heildarlífmassa. Án þessara tveggja stöðva væri reiknaður lífmassi 2022 svipaður og 2021.

Meginmarkmið leiðangursins, sem farinn var á tímabilinu 1. júlí til 3. ágúst, var að meta magn uppsjávarfiska í Norðaustur-Atlantshafi að sumarlagi en jafnframt að rannsaka vistkerfi og umhverfi sjávar. Leiðangurssvæði var 2,9 milljón ferkílómetrar sem er 32% stærra en síðasta ár þar sem nú var að nýju farið inn í grænlenska landhelgi og suður af 61°N breiddargráðu í Íslandsdjúpi og á Reykjaneshrygg.

Samkvæmt gervihnattagögnum var meðaltalshitastig í yfirborðslögum sjávar austan og norðan Íslands lægra í júlí en á sama tíma í fyrra og einnig undir meðaltali síðustu 20 ára. Í suðurhluta Noregshafs var yfirborðshiti einnig undir meðaltali síðustu 20 ára en yfir langtímameðaltali í norður hlutanum.

Vísitala um magn dýrasvifs á hafsvæðinu í júlí við Ísland og í Noregshafi var af svipaðri stærðargráðu og á síðasta ári og lág í sögulegu samhengi leiðangursins.

Í leiðangrinum voru bergmálsmælingar einnig notaðar til að meta magn norsk-íslenskrar síldar og kolmunna en úrvinnsla á þeim mælingum er ólokið og verða þær niðurstöður kynntar 30. september næstkomandi.

Niðurstöður leiðangursins verða, ásamt öðrum gögnum, notaðar við mat á stofnstærð makríls en ICES mun birta ráðgjöf um aflamark næsta árs fyrir makríl, norsk-íslenska síld og kolmunna þann 30. september næstkomandi.

Skýrslu um bráðabirgðaniðurstöður leiðangursins má lesa hér.