Fiskveiðistjórnunin er samfélagslegt verkefni þar sem saman koma ráðleggingar sérfræðinga, þekking og reynsla skipstjóra og útgerða og síðan afstaða stjórnvalda og ákvörðunarvald. Þessir aðilar móta í sameiningu nytjastefnu sem verður að aflareglu stjórnvalda. Við Íslendingar erum í kjörstöðu til að leysa þetta verkefni vel af hendi ef rétt er að verki staðið. Við höfum einsleitt stjórnkerfi og vel menntað samfélag og þá þekkingu sem kemur af nálægð við fiskimiðin, forræði yfir fiskimiðunum, vandaða fiskveiðilöggjöf, og allar þær stofnanir sem koma eiga að málum.

Þeir sem sjóinn sækja leggja metnað sinn í að ganga vel um auðlindina. Fiskifræðingar meta stærð og afrakstursgetu fiskistofna og veita ráðgjöf til lengri tíma litið sem miðar að vernd og sjálfbærri nýtingu. Loks eru það svo stjórnvöld sem bera ábyrgð á því að ákveða nýtingarstefnuna út frá stofnmati og ráðgjöf og í samráði við atvinnugreinina sem oft hefur mikilvægar upplýsingar og sjónarmið fram að færa í þeim efnum. Þetta verklag sést skýrast varðandi fiskistofna sem lúta vernd og sjálfbærri nýtingu samkvæmt svokölluðum aflareglum stjórnvalda. Samráð og aðkoma ólíkrar þekkingar er lykillinn að góðum árangri.

Fyrirvaralaust veiðibann djúpkarfa

Samráð og ólík þekking er ekki síður mikilvæg fyrir aðra fiskistofna þar sem vísindagögn kunna að vera takmarkaðri, óvissa meiri og ekki er stjórnað samkvæmt aflareglu stjórnvalda. Varðandi þá stofna er nú verk að vinna. Dæmi um það er djúpkarfinn. Í stað þess að fara í þá vinnu sem þarf til að ákveða nýtingarstefnu og, eftir atvikum, endurreisnaráætlun, ef marka má mælingar, út frá þekkingu allra viðkomandi aðila á því hvað er raunhæft og gagnlegt á fiskimiðunum, og þannig nýta þekkingu skipstjóra til að leita leiða til að minnka djúpkarfa sem meðafla við veiðar á öðrum mikilvægum fisktegundum, hafa fiskifræðingar með ráðgjöf sinni og stjórnvöld með viðbrögðum sínum í raun kosið að skella á nýrri nýtingarstefnu samkvæmt fyrirfram gerðri forskrift frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu. Forskrift þessi kemur úr öðrum og mótdrægari samfélagsveruleika en okkar – sem er hinn flókni veruleiki hagsmunaárekstra og ágreinings sem einkennir fiskveiðistjórnun á vettvangi Evrópusambandsins og aðildarríkja þess. Þetta hefur nú leitt til þess að skollið er á fyrirvaralaust veiðibann djúpkarfa á Íslandsmiðum. Það er engin ástæða til að hafa hlutina með þessum hætti hér hjá okkur. Stjórnvöld þurfa að taka á sig rögg og sinna sínu hlutverki við mótun nýtingarstefnu djúpkarfans í samráði og samstarfi við atvinnugreinina. Ekki gengur að útvista þessu hlutverki stjórnvalda til fiskifræðinganna einna, hvað þá til fiskiráðgjafastofnunar á erlendum vettvangi, án samhengis, án ábyrgðar og án samráðs í íslensku samfélagi. Ég skora á stjórnvöld að koma þessum málum í lag án tafar.

Höfundur er forstjóri Brims hf.