Matís og Hafrannsóknastofnun leiða nýtt alþjóðlegt 1,2 milljarða króna rannsókna- og nýsköpunarverkefni sem á að taka á loftslagsbreytingum og ógnun við líffræðilegan fjölbreytileika sjávar.

Frá þessu segir á vef Matís þar sem fram kemur að verkefnið BioProtect sem leitt sé af Matís og Hafrannsóknastofnun snúist um að þróa aðferðafræði og tæknilegar lausnir til að auðvelda ákvarðanatöku um auðlindanýtingu eða verndun hafsvæða.

„Áhersla er lögð á gott samstarf við hagaðila en þeir eru til dæmis útgerðaraðilar og sjávarútvegssamtök, sveitarfélög og þá sérstaklega sjávarbyggðir, innlend og alþjóðleg stjórnvöld, náttúruverndarsamtök, rannsóknaraðilar, stefnumótandi aðilar og sérfræðingar. Líffræðilegur fjölbreytileiki sjávar verður vaktaður svo hægt verði að gera grein fyrir stöðu hans og spá fyrir um mögulegar breytingar. Einnig verður farið í víðtæka kortlagningu á nýtingu og áhrifum manna á einstök hafsvæði og tegundir í hafinu,“ segir matis.is.

Þá segir að gerð verði aðgerðaáætlun fyrir forgangsröðun verndunar- og endurheimtunaraðgerða, sem og mat á vistfræðilegum, félagslegum og hagfræðilegum áhrifum þessara verndaraðgerða á fimm hafsvæðum það er við Ísland, Noreg, Írland, Portúgal og Azor eyjar.

„Alls taka 18 fyrirtæki og stofnanir víðsvegar að úr Evrópu þátt í verkefninu, en því er stjórnað af Dr. Sophie Jensen, verkefnastjóra hjá Matís. Hún er svo dyggilega studd af Dr. Julian Burgos hjá Hafrannsóknastofnun, sem er vísindalegur leiðtogi verkefnisins. Það er mikill heiður og traust sem Matís og Hafrannsóknastofnun er sýnt með að vera kjörin til að leiða þennan hóp margs besta vísindafólks í Evrópu á sínu sviði,“ segir á matis.is.