Sjávarútvegssýningin Seaood Expo Global hefur verið haldin í Barcelona í þessari viku. Þar voru viðstaddir Sigurður Jökull Ólafsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, og Gísli Jóhann Hallsson yfirhafnsögumaður.

„Faxaflóahafnir eiga sér mjög langa sögu sem nær allt til ársins 1913 þegar hafnarframkvæmdir hófust í Reykjavík og hafa síðan þá verið mikilvæg höfn fyrir sjávarútveginn,“ bendir Sigurður á spurður um erindi Faxaflóahafna á sjávarútvegssýningu á Spáni.

Mæta þörfum framtíðar

Frystitogarinn Guðmundur í Nesi RE fær þjónustu í Reykjavíkurhöfn. Mynd/Faxaflóahafnir
Frystitogarinn Guðmundur í Nesi RE fær þjónustu í Reykjavíkurhöfn. Mynd/Faxaflóahafnir

„Það er því mikilvægt fyrir Faxaflóahafnir að viðhalda og styrkja erlend sem innlend viðskiptasambönd við sjávarútveginn. Bæði til að halda áfram að þjónusta hann með sem bestum hætti og tryggja að hafnarsvæði séu undirbúin fyrir framtíðarþarfir geirans,“ heldur Sigurður áfram.

Þetta segir Sigurður gilda hvort sem það séu lóðir eða aðstaða fyrir frystigeymslur, landvinnslu, landeldi, þjónustu eða einfaldlega landrými fyrir geymslu á lifandi fiskum.

„Kröfur sjávarútvegs jafnt sem flutningsgeira eru að breytast, þeim kröfum verða hafnir að bregðast við og jafnframt horfa til þeirra þarfa sem hafnir framtíðar eiga að mæta,“ segir Sigurður.

Sjálfbærni orðin sjálfsagður þáttur

Sigurður segir Faxaflóahafnir mikilvæga höfn í Norður-Atlantshafi í krafti landfræðilegrar staðsetningar, þjónustuframboðs á höfuðborgarsvæðinu og öflugra tenginga hvort heldur sé með skipi eða flugi til markaða austan jafnt sem vestanhafs. FF Mynd/Garðar
Sigurður segir Faxaflóahafnir mikilvæga höfn í Norður-Atlantshafi í krafti landfræðilegrar staðsetningar, þjónustuframboðs á höfuðborgarsvæðinu og öflugra tenginga hvort heldur sé með skipi eða flugi til markaða austan jafnt sem vestanhafs. FF Mynd/Garðar

Sjálfbærni í sjávarútvegi og flutningum segir Sigurður sem dæmi að orðin sé að sjálfsögðum þætti í stefnu fyrirtækja.

„Þar er mikilvægt að hafnir styðji við það sem eðlilegan lið í allri virðiskeðjunni. Skilvirkni í höfnum er tengdur liður, því með aukinni skilvirkni fæst hagræðing sem auðveldar þau skref sem nauðsynleg eru í átt að aukinni sjálfbærni,“ segir hann.

Auknir flutningar með sjávarafurðir

Að sögn Sigurðar hefur millilandflutningur með sjávarafurðir verið að aukast undanfarin ár. Það sé miklu leyti drifið af aukningu í siglingum til Bandaríkjanna og af áherslum laxeldisfyrirtækja í Færeyjum og á Íslandi varðandi siglingar á ferskum laxi.

„Það er mjög spennandi þróun sem mikilvægt er að hlúa að og skilja betur hvaða þörf höfnin þarf að uppfylla til að viðhalda og auka þann lið.“