Bræðurnir Tom-Kenneth og Kurth-Anders Slettvoll, útgerðarmenn frá Kabelvåg í Lófóten, fengu fyrir skömmu afhenta tvo nýja Cleopatra 33 báta frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Þetta eru tvíburabátar og bræðurnir verða skipstjórar þeirra.

Nafn báta Slettvoll bræðra er Ørsvåg II og Ørsvåg III. Þeir eru 9,99 metrar á lengd og mælast 10 brúttótonn. Þeir leysa af hólmi eldri bát sem þeir bræður keyptu árið 2019. Bátarnir og útbúnaðurinn er eins. Aðalvélin er 410 hestöfl og siglingartæki af gerðinni Furuno, Olex og Simrad. Bátarnir eru með vökvadrifnar hliðarskrúfur að framan og aftan sem tengdar eru sjálfstýringu bátsins. Báðir eru útbúnir til línuveiða og línubúnaðurinn kemur frá Beiti. Lestarnar taka tólf 380 lítra fiskikör. Borðsalurinn er í brú og rúmar fjóra en eldunaraðstaðan sjálf er í lúkar. Í brúnni er líka salerni með sturtu. Bátarnir eru komnir til Noregs og hafnar eru veiðar á þeim.

Þekkt vörumerki í Noregi

Þetta eru ekki fyrstu og sennilega ekki síðustu bátarnir sem Trefjar smíða fyrir Norðmenn. Fyrirtækið hefur sett mark sitt á flota minni báta hérlendis svo eftir hefur verið tekið og í Noregi er fjöldi Cleopatra báta farinn að nálgast 150. Nær helmingur eru notaðir Cleopatra bátar sem hafa verið seldir til landsins jafnt frá Íslandi og öðrum löndum í Norður-Evrópu.

Högni Bergþórsson, framkvæmdastjóri Bátasmiðjunnar Trefja.
Högni Bergþórsson, framkvæmdastjóri Bátasmiðjunnar Trefja.
© Eva Björk Ægisdóttir (Eva Björk )

„Við höfum byggt upp vörumerki í Noreg sem hefur skilað sér í því að Norðmenn hafa leitað í kaup á Cleopatra bátum. Notuðu bátarnir sem fara frá Íslandi til Noregs eru í sumum tilvikum frá aðilum sem hafa selt frá sér kvóta og hafa fengið gott verð fyrir bátana kvótalausa í Noregi. Það fylgir líka vinna fyrir okkur að koma bátunum yfir í annað kerfi með ýmsum verkefnum og breytingum. Verkefnastaðan er í góðu lagi hjá okkur og við erum ágætlega bókaðir fram á næsta ár,“ segir Högni Bergþórsson, framkvæmdastjóri Trefja.

Hann bendir á að fiskverð bæði á Íslandi og Noregi hafi líklega aldrei verið hærra en um þessar mundir sem er hvati til fjárfestinga fyrir útgerðir. Það sem vinni á móti greininni sé stöðugt og mikið flökt á gengi íslensku krónunni.