Talið er að nær fjórtán þúsund eldislaxar hafi sloppið úr sjókvíum við Reitholmen í Fillfirði í Noregi á sunnudagskvöldið.

Norska Dagbladet segir laxana alvarlega sýkta af tveimur sjúkdómum, nýrnaveiki og PD sem er brissjúkdómur.

Að því er segir í tilkynningu frá forstjóra hjá eldisfyrirtækinu Lerøy, Harald Larssen, eru laxarnir sem sluppu að meðaltali um 7, 3 kíló að þyngd. Larssen hefur síðan staðfest að laxarnir séu sýktir af fyrrgreindum sjúkdómum.

„Við hörmum atvikið afar mikið. Þetta átti ekki að gerast,“ segir í tilkynningu Larssen sem kveður stefnu fyrirtækisinss vera að engir laxar sleppi.

„Við tökum þetta mjög alvarlega,“ segir Harald Larssen, sem kveður eigin umhverfis- og öryggishóp Lerøy meta orsakir þess að laxarnir sluppu. Markmiðið sé að takmarka skaðann og læra af atvikinu svo forðast megi slíkt laxastrok í framtíðinni.

Haft er eftir Larssen að reynt sé að fanga eins marga laxa og mögulegt sé. Í fyrstu hafi verið lögð út net sem séu 1.500 metra að lengd og fleiri þúsundum metra hafi síðan verið bætt við. Fyrir liggi samkomulag við sjómenn af svæðinu um að aðstoða.

Lesa má um málið í Fiskeribladet.