„Nú er Bjarni Ólafsson til sölu og víst er að væntanlegur kaupandi mun ekki verða svikinn af þeirri fjárfestingu,“ segir á vefSíldarvinnslunnar.

Er þá rætt um uppsjávarveiðiskipið Bjarna Ólafsson AK sem liggur nú við bryggju í Norðfjarðarhöfn.

„Í janúarmánuði árið 2003 undirrituðu stjórnir Síldarvinnslunnar og SR-mjöls samrunaáætlun fyrir fyrirtækin. Með samrunanum eignaðist Síldarvinnslan 38% hlut í útgerðarfélaginu Runólfi Hallfreðssyni ehf. á Akranesi en Runólfur Hallfreðsson gerði út uppsjávarveiðiskipið Bjarna Ólafsson AK,“ segir á svn.is.

„Áhöfnin, sem var á Bjarna Ólafssyni, er nú á Barða NK en Bjarni Ólafsson hefur að undanförnu legið í Norðfjarðarhöfn. Hann er tilbúinn að hefja veiðar hvenær sem þörf er á en síðast var skipið nýtt á loðnuvertíðinni 2023 með góðum árangri.“

Runólfssynir seldu hluti sína

„Bjarni Ólafsson AK lítur vel út og er virkilega flottur í alla staði. Skipið er hið glæsilegasta og hefur ávallt reynst afar vel,“ segir á svn.is þar sem rakið er að árið 2016 hafi Síldarvinnslan aukið eignarhlut sinn í útgerðarfélaginu í 75% en skipstjórarnir og bræðurnir Gísli og Runólfur Runólfssynir átt 25% hlut. Gísli hafi selt sinn hlut í fyrirtækinu árið 2017 og Runólfur árið 2021 þannig að Síldarvinnslan sé eini eigandi þess.

„Árið 2015 var skip félagsins endurnýjað. Þá voru fest kaup á nóta- og togskipi sem er um 2000 tonn að stærð og smíðað árið 1999. Í skipinu er 7505 ha Wӓrtsilӓ vél. Bjarna Ólafssyni hefur ávallt verið vel við haldið og nýlega var skipið til viðhalds í Slippnum á Akureyri.“