Verkefnið Accelwater sem Matís vinnur að um þessar mundir snýr að því að finna lausnir til þess að nýta verðmæti úr vinnsluvatni og besta vatnsnotkun í sjávarútvegi og eldi. Hildur Inga Sveinsdóttir heldur utan um þá verkhluta sem Matís sinnir í verkefninu, en það er unnið í samstarfi 17 aðila frá fimm Evrópulöndum með styrk frá Evrópusambandinu í gegnum Horizon 2020.

Ísland hefur lengi verið framarlega í nýtingu svokallaðra hliðarhráefna og eitt af þeim hráefnum sem áhugavert er að meta með tilliti til tækifæra til verðmætasköpunar og til umhverfismála, er vatn frá t.d. fiskvinnslum og landeldisstöðvum.

Víðtækt samstarf

„Við ákváðum að taka þátt í verkefninu í samstarfi við sterka iðnaðarsamstarfsaðila hérlendis og stefndum á að nýta vinnuna til þess að meta þau tækifæri sem til staðar eru á þessu sviði hérlendis,“ segir Hildur Inga.

Verkefninu er stýrt af gríska tæknifyrirtækinu Agenso og koma að því margir þátttakendur, bæði úr iðnaði og rannsóknarumhverfi. Íslenskir þátttakendur verkefnisins eru auk Matís, Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, Útgerðarfélag Akureyrar og Samherji Fiskeldi.

Hvað eru hliðarhráefni?

Með hliðarstraumum eða hliðarhráefni er átt við hráefni sem fást út úr vinnslu til hliðar við aðalvöruna sem verið er að framleiða. Fiskveiðar og -vinnsla eru gott dæmi þar sem þessi hráefni verða til. Við fiskveiðar verða til önnur hráefni sem hafa jafnvel áður verið skilgreind sem úrgangur eða rusl. Þetta geta til dæmis verið hausar, roð og innyfli. Hildur Inga segir að þegar þetta hráefni er rétt meðhöndlað séu tækifæri til þess að fá mikið virði út úr þeim.

Hildur Inga Sveinsdóttir verkefnisstjóri hjá Matís.
Hildur Inga Sveinsdóttir verkefnisstjóri hjá Matís.

Landvinnsla hvítfisks og landeldi laxa

Aðal markmið verkefnisins er að nýta verðmæti úr vatni og minnka ferskvatnsnotkun við matvælavinnslu. Erlendir samstarfsaðilar vinna að tilraunum innan virðiskeðju í tómatarækt, kjötvinnslu, mjólkuriðnaði og við bruggun. Hérlendis er áhersla lögð á landvinnslu hvítfisks og landeldi laxa. Lögð hefur verið áhersla á að meta stöðuna með greiningu umhverfisáhrifa og notkunar, þá hvaða auðlindir eru notaðar í þessum mismunandi ferlum og svo hvaða möguleg tækifæri til annars vegar sparnaðar vatns og orkuauðlinda eru til staðar og hins vegar hvaða möguleikar eru til verðmætasköpunar úr helstu vatnsstraumum.

Minnka vatnsnotkun

„Verkefnið er enn í gangi og rúmt ár eftir af þeirri vinnu sem áætluð er. Þær niðurstöður sem safnast hafa hingað til sýna að Íslendingar nota almennt mikið vatn við vinnslu og tækifæri eru til að minnka þá notkun. Aðferðir til þess, sem áætlað er að meta í verkefninu, eru í vinnslu og spennandi verður að sjá hverju þær skila. Að auki eru til staðar mikil tækifæri í tengslum við nýtingu hliðarstrauma frá landeldi, sérstaklega fiskeldisseyru eða fiskeldismykju, en hún inniheldur mikið magn af verðmætum næringarefnum sem mögulegt gæti verið að nýta til áburðargerðar svo dæmi sé tekið. Tilraunir og greiningar á tækifærum sem liggja í því hráefni standa nú yfir samhliða mati á öryggi þeirra.“

Niðurstöður verkefnisins verða birtar í opnum vísindaritum og kynntar viðeigandi hagaðilum eftir því sem við á svo þær munu nýtast öðrum aðilum í iðnaði hérlendis og erlendis. Niðurstöður munu auk þess geta nýst við stefnugerð og uppsetningu og endurskoðun ferla í fiskvinnslu og landeldi sem er ört vaxandi iðnaður á Íslandi í dag.