„Þetta er skip með sál. Þetta er löng saga,“ segir Finnur Sigurbjörnsson, skipstjóri á Múlaberginu á Siglufirði, sem kveður tvímælalaust verða mikinn söknuð af skipinu sem nú hefur verið ákveðið að leggja.

Leki kom að Múlabergi í síðustu veiðiferð. Viðgerð mun ekki vera talin borga sig á skipinu sem er orðið fimmtíu ára gamalt.

Þótt Ísfélagið hafi tilkynnt að áhöfninni verði sagt upp segir Finnur að engin uppsagnarbréf hafi borist. Því sé óljóst hvað verði um mannskapinn sem hann kveðst telja allt að fimmtán manns með öllu.

„Kannski stendur í bréfinu að það verði reynt að koma mönnum fyrir á öðrum skipum félagsins. Ég bara vona það,“ segir skipstjórinn. Ekkert sé búið að ræða við áhöfnina.

„Ætli karlarnir fari ekki bara að líta í kring um sig eftir öðrum stöðum. Það fer eftir hvað stendur í bréfinu,“ segir Finnur. Kannski verði þeim komið fyrir á nýju Sigurbjörgu sem verið er að smíða í Tyrklandi. „Það hlýtur að þurfa að manna það skip.“

Óljóst hvað taki við

Sjálfur hefur Finnur verið sleitulaust á Múlaberginu frá árinu 2005. Fyrst byrjaði hann hins vegar á skipinu 1998 og var í eitt ár þar til hann fór yfir á Sólberg.

Ýmsar sögur hafa orðið til á Múlaberginu á hálfri öld. „Ég þekki þær nú ekki allar, skipið var orðið gamalt þegar ég kom,“ bendir Finnur á.

Ekki náðist í forsvarsmenn Ísfélagins í morgun og Finnur segist ekki vita hvernig hlutverki Múlabergs verði sinnt í framtíðinni.

„Þetta er eina skipið sem landar rækju hjá fyrirtækinu,“ segir Finnur og bendir um leið á að fyrirtækið sé að flytja inn rækju til vinnslu. Á bryggjunni séu vangaveltur um að Jón á Hofi eða Ottó N fylli í skarðið.

Ekkert „junk“

Múlaberg er annað tveggja skipa sem eftir er af tíu svokölluðum Japanstogurum sem komu hingað til lands fyrir um bil fimmtíu árum. Hitt skipið er Ljósafell sem einmitt er nýkomið úr í slipp í Færeyjum í milli klössun.

„Þarna er rosalega mikil saga. Það er með ólíkindum sterkt í skrokknum á þessum skipum,“ segir Finnur og hrósar japanska stálinu sem hann þarf núna að kveðja. „Það er ekkert junk.“