Lagt verður upp í tíu daga humarleiðangur þann 15. maí og staðan könnuð allt frá Lónsdýpi fyrir austan og vestur að Jökuldjúpi.

„Við erum að fara í humarleiðangur í samstarfi við Hafró. Það verða tekin þessi gömlu tog sem stofninn hefur lengi vel verið mældur út frá,“ segir Ásgeir Gunnarsson, framkvæmdastjóri veiða hjá Skinney-Þinganesi.

Að sögn Ásgeirs verður farið á Skinney SF með vísindamenn frá Hafrannsóknastofnun um borð.

Sextíu til áttatíu tog

„Við tökum svona stutt tog frá Lóndýpi og alveg vestur í Jökuldýpi og allt þar á milli. Þetta verða á bilinu 60 til 80 tog,“ lýsir Ásgeir fyrirhuguðum humarmælingum. Til séu mælingar frá hverju ári.

Humarvinnsla hjá Ramma. Mynd/Aðsend
Humarvinnsla hjá Ramma. Mynd/Aðsend

Eins og kunnugt er veldur nýliðunarbrestur í humarstofninum þeirri stöðu sem nú er uppi.

„Það er töluvert til af stórum humri en ekki þessum smáa. Við ættum að sjá eftir svona leiðangur hvort það er einhver vísbending um að þetta sé að snúast við. Það eru teknar lirfuprufur líka sem eiga að segja okkur til um yngsta ungviðið,“ segir Ásgeir sem kveðst bjartsýnn á að þróunin muni snúast við.

Jákvæð teikn í fyrra

„Fyrsta vísbendingin, í sennilega einhver tólf ár, varð í síðasta leiðangri sem var í fyrrasumar. Þá sáum við svona litla vísbendingu um að nýliðun væri kannski að aukast,“ segir Ásgeir og undirstrikar að humar sé hægvaxta. Þannig að ef nýliðunin detti niður í nokkur ár komi rof.

„Og hann er náttúrlega lengi að koma upp aftur þó að við sjáum einhverja nýliðun því að við erum ekki að fara að sjá hann í veiðinni fyrir en hann er svona þriggja til fjögurra ára. Hann er það lítill fram að þeim aldri,“ segir Ásgeir.

Helst vilji menn veiða humar sem sé á bilinu sex til tíu ára.

Fara ekki of fljótt af stað

Humarvinnsla á Höfn 2012. Mynd/Aðsend
Humarvinnsla á Höfn 2012. Mynd/Aðsend

Það eru því enn að minnsta kosti nokkur ár í það að humarstofninn verði kominn í það horf sem menn vilja hafa hann í. „Við teljum okkur vera að horfa að minnsta kosti þrjú til fimm ár fram í tímann eftir að við sjáum einhverjar vísbendingar.  Við viljum náttúrlega ekki heldur fara of fljótt af stað þótt það verði viðsnúningur því það er enginn sem hefur eins mikið undir í þessu eins og við sem erum með þetta í rekstri,“ segir Ásgeir.

Ásamt Ísfélaginu og Ramma segir hann Skinney-Þinganes fara með 70 til 80 prósent af humarveiðiheimildunum.

Halda samt Humarhátíð

Þrátt fyrir að enginn humar berist að landi halda Hornfirðingar ótrauðir áfram sína Humarhátíð síðustu helgina í júní og ræddi bæjarráðið samning þar um í síðustu viku.

„Við viljum ekki hætta með hátíðina,“ segir Ásgeir. „Við höfum tengt hana humri vegna þess að bærinn hefur gömul tengsl við humarinn. Svo er í boði innfluttur humar hjá þeim sem eru að selja humar í dag. Menn eru að flytja inn humar frá Skotlandi, Írlandi og Danmörku. Og við bara trúum því að hann komi upp aftur hér.“

Mjög hröð hnignun

Humarveiði hér við land hnignaði hratt á síðustu tíu árum. Tímabilið 2013/2014 nam veiðin 1.983 tonnum. Hún var 1.186 tonn 2016/2017, síðan 869 tonn næsta tímabil þar á eftir. Árið 2020 var veiðin 194 tonn.

Humarpoki dreginn um borð í Dröfn. Mynd/Aðsend
Humarpoki dreginn um borð í Dröfn. Mynd/Aðsend

Í janúar 2021 lagði Hafrannsóknastofnun til kvóta upp á 143 tonn svo fylgjast mætti með stærðarsamsetningu og dreifingu stofnsins.

„Jafnframt leggur stofnunin til að allar humarveiðar verði bannaðar í Jökuldjúpi og Lónsdjúpi til verndar uppvaxandi humri,“ sagði í tilkynningu stofnunarinnar í janúar 2021. Veiði það ár varð aðeins 104 tonn og hafa veiðarnar  legið niðri síðan og engin breyting verður á því á þessu ári.

Með því lægsta sem þekktist meðal humarstofna

Í tilkynningunni sagði að mæld stofnstærð humars hefði minnkað um 27 prósent frá 2016 til 2020 og að á sama tíma hefði veiðihlutfall minnkað úr 1,9 prósentum í 0,4 prósent. Ennfremur að þéttleiki humarholna við Ísland mældist með því lægsta sem þekktist meðal humarstofna sem Alþjóðahafrannsóknaráðið veitti ráðgjöf um.

„ Fyrirliggjandi gögn benda til að nýliðun sé í sögulegu lágmarki og að árgangar frá 2005 séu mjög litlir. Verði ekki breyting þar á má búast við áframhaldandi minnkun stofnsins,“ boðaði Hafrannsóknastofnun