„Við höfum talað fyrir því að fá að fara sem fyrst með starfsfólkið sem er

í verbúðunum hjá okkur. Þær eru ekki á hættusvæði, þær eru

bara ágætlega staðsettar,“ segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar.

Eins og staðan er í dag má koma inn í Grindavík klukkan sjö að morgni en allir verða að vera farnir úr bænum fyrir klukkan níu að kvöldi. Starfsfólkið í fiskvinnslunni þarf að aka mislangar leiðir til vinnu. Og nú sækir vetur að.

Gunnar bendir á að um sé að ræða fólk sem ekki er með börn. „Það væri hægt að hafa vakt á nóttinni ef það þyrfti að rýma í skyndingu,“ segir hann.

Í verbúðunum dvelur fyrst og fremst erlent fiskvinnslufólk en einnig Íslendingar.

Allt að tvo tíma að keyra

„Margt af því fólki er ekki vel sett því það er langt í það. Sumir eru á Suðurlandinu og það tekur það upp undir tvo tíma að keyra til okkar í vinnu,“ segir Gunnar. Fólkið komi á sínum bílum en ekki með rútum. „Það var niðurstaðan að það væri fljótlegra að vera á einkabílum.“

Gunnar Tómasson, forstjóri Þorbjarnar Grindavík, til hægri. Mynd/Óskar Gunnarsson
Gunnar Tómasson, forstjóri Þorbjarnar Grindavík, til hægri. Mynd/Óskar Gunnarsson

Þetta fólk vill Gunnar að fái að vera í Grindavík. „Það er líka fólk erlendis og það kemur ekki hingað nema það fái húspláss,“ segir hann. Í vinnslunni vanti fjörutíu prósent upp á venjulegan starfsmannafjölda og hún sé því keyrð á aðeins sextíu prósent afköstum.

„Þau eru tilbúin að koma og koma um leið og þau hafa tök á,“ segir Gunnar sem vonast til að yfirvöld greiði úr málinu. „Ég veit að okkur verður hleypt inn um leið og þeir geta.“

Óttast að ófærð lami starfsemina

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, tekur í sama streng.

Verbúð Vísis á Hafnargötu 28 í Grindavík. Mynd/Jóhann Gunnarsson.
Verbúð Vísis á Hafnargötu 28 í Grindavík. Mynd/Jóhann Gunnarsson.

„Menn taka náttúrlega ákvarðanir út frá öryggi en það er líka öryggismál að láta fólk keyra um hávetur til vinnu. Við viljum að okkur verði gert kleift að hafa starfsfólkið okkar, sem ekki er með börn, í bænum og setja þær öryggiskröfur sem passar þar. Þá væri starfsemin ekki alveg lömuð þó það sé ófært dag og dag,“ segir Pétur.

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis. Mynd/HAG
Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis. Mynd/HAG
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Að sögn Péturs snýst málið um stærsta hlutann af starfsfólkinu. Það sé bæði erlent og íslenskt. Langflestir séu ekki með börn.

Verbúð Vísis er á Hafnargötu 28 og verbúð Þorbjarnar á Hafnargötu 17.

Kæmu strax aftur til Íslands

„Þær eru nánast hlið við hlið og eins langt utan hættusvæðis og hægt er og það er auðveld útgönguleið til að geta forðað sér austur úr bænum ef eitthvað kemur upp á. Það er hægt að gera ýmislegt, til dæmis vera með næturvakt. Það er mjög auðvelt að hafa alveg fullan öryggisstuðul á þessum stöðum ef fólk er ekki mjög dreift um allan bæ,“ segir Pétur.

Verbúðirnar rúma um sextíu manns hvor. Hluta fólksins sem þar dvaldi segir Pétur farinn úr landi. „Við sögðum bara, hjálpið okkur að hjálpa ykkur og farið út. Nú kemst þetta fólk ekki til baka því það er ekki til húsnæði fyrir það á Íslandi,“ segir Pétur sem kveður starfsmennina vilja snúa aftur ef öruggt húsnæði býðst. „Þau koma alveg um leið held ég.“