Fjórða björgunarskipið í endurnýjunarfasa Landsbjargar er nú í smíðum hjá Kewatec í Finnlandi. Það skip er ætlað Björgunarsveitinni Lífsbjörg á Rifi á Snæfellsnesi. Til stendur að afhenda það á haustmánuðum 2024. Fyrsta björgunarskipið, Þór, var afhent í Vestmannaeyjum í október 2022, og annað og þriðja skipið, þ.e. Sigurvon og Jóhannes Briem, voru afhent á Siglufirði og Reykjavík í fyrra. Með þessum skipum stóreykst viðbragðshraði og farsvæði sem eykur til muna öryggi sæfarenda allt í kringum landið.

Björgunarskipin eru búin nýjustu tækni og búnaði og aðstaðan um borð er góð.
Björgunarskipin eru búin nýjustu tækni og búnaði og aðstaðan um borð er góð.

Árið 2021 styrkti tryggingafélagið Sjóvá Landsbjörg um 142,5 milljónir kr. til kaupa á þessum fyrstu þremur skipum og er það langstærsti einstaki styrkurinn sem samtökin hafa fengið frá fyrirtæki til þessa verkefnis. Sjóvá hefur raunar átt farsælt samstarf við Landsbjörg um vátryggingar, forvarnir og öryggismál allt frá stofnun samtakanna árið 1999. Ríkissjóður hefur greitt helming í þeim þremur skipum sem nú hafa verið smíðuð. Hvert skip kostar nálægt 300 milljónum króna. Nú eru blikur á lofti með fjármögnun fleiri skipa.

1,4 milljarða stuðningur frá ríki

Áætlanir Landsbjargar gera ráð fyrir smíði á alls 13 skipum. Heildarkostnaður við endurnýjunina alla er hátt í 4 milljarðar króna. Íslenska ríkið leggur til helming af kostnaði við fyrstu 10 skipin, upphæð sem nemur 1,4 milljarði króna. Samtals vantar því enn rúma tvo milljarða króna til að fullfjármagna verkefnið. Samkvæmt upplýsingum eru samtöl og þreifingar í gangi um aðkomu sterkra aðila að smíði skipanna en ekkert er fast í hendi. Endurnýjun á björgunarskipaflotanum er því nokkru í uppnámi nú þegar fjórða skipið er í smíðum.

Nútímavædd og hraðskreið

Nýju björgunarskipin eru knúin tveimur öflugum Scania vélum sem geta komið þeim á um og yfir 32 hnúta, eða um 60 km hraða. Þau eru með fjaðrandi sætum með fjögurra punkta öryggisbeltum fyrir áhöfn sem er sex manns. Þau eru búin hitamyndavélum, miðunarstöð, nútíma fjarskiptatækjum ásamt því sem aðstaða um borð er góð. Þar er salerni, lítill eldhúskrókur og svefnpláss er fyrir 3 í kojum í lúkarnum sem gerir áhöfninni kleift að sinna lengra úthaldi. Skipin hafa getu til að bjarga allt að 60 manns í ítrustu neyð en pláss er fyrir 40 inni í skipunum. Skipin eru 16 metrar að heildarlengd, skráð lengd er 14 metrar, mesta breidd 4,8 metrar, dráttargeta 4-5 tonn. Þess má geta að á æfingu í ágúst í fyrra dró björgunarskipið Sigurvin á Siglufirði, sem er annað skipið í endurnýjunarfasa Landsbjargar, stærsta skipið á íslenskri skipaskrá, varðskipið Freyju, áfram á 1,2 hnúta ferð undir 60% álagi.

Tvöfalt meira farsvæði

Það segir sig sjálft að öflugur björgunarskipafloti með hraðskreiðum og nútímavæddum skipakosti með allt að helmingi skemmri viðbragðstíma og allt að 740 km farsvæði, myndi hækka öryggisstig íslenskra sjómanna og annarra sæfarenda til muna. Farsvæði nýju skipanna er allt að tvöfalt meira en þeirra gömlu. Þetta virðist hafa blasað við stjórnendum og eigendum tryggingafélagsins Sjóvár þegar þeir lögðu fram sinn myndarlega styrk til smíði á fyrstu þremur skipunum. Með því sýndi fyrirtækið líka samfélagslega ábyrgð í verki. En eftir því sem næst verður komist hafa önnur stórfyrirtæki enn sem komið er ekki stigið skrefið til fulls til þess að styðja frjáls sjálfboðaliðasamtök til að eignast skipakost með aðkomu ríkisins til að tryggja sjómönnum meira öryggi og ólaunuðum björgunarliðum betri aðbúnað.

Gömlu skipin hafa reynst vel en eru komin til ára sinna og þarfnast endurnýjunar. Mynd/Landsbjörg
Gömlu skipin hafa reynst vel en eru komin til ára sinna og þarfnast endurnýjunar. Mynd/Landsbjörg

Smíðuð á árunum 1971-1990

Meðan svo er þurfa björgunarsveitir landsins að reiða sig að miklu leyti á Arun Class björgunarskipin sem voru hönnuð á árunum 1965-1971 og smíðuð á árunum 1971-1990. Þau komast hraðast 14 hnúta og farsvæðið er um 250 mílur miðað við bestu aðstæður. Skipin fengust á sínum tíma á gjafverði frá Konunglegu bresku sjóbjörgunarsamtökunum þegar þau endurnýjuðu sinn björgunarskipaflota fyrir mörgum áratugum. Skipin hafa verið í notkun í vel á fimmta áratug. Vegna gamallar og úreltrar tækni reynist sífellt erfiðara að sinna viðhaldi skipanna.

Fjölþætt verkefni

Á síðasta ári hefur björgunarskipafloti Landsbjargar staðið í ströngu í öllum landsfjórðungum. Alls sinntu þau rúmlega 170 útköllum. Björgunarskipið Þór aðstoðar daglega við flutninga til og frá Vestmannaeyjum vegna hættustigs Almannavarna í kjölfar skemmda á vatnslögn til Eyja. Þór sinnir einnig sjúkraflutningum milli lands og Eyja. Björgunarskipið Sigurvin fór í útkall vestur í Húnaflóa á ásamt Húnabjörg frá Skagaströnd, sem er björgunarskip af Arun Class gerð. Jóhannes Briem í Reykjavík var kallaður til Grindavíkur í kjölfar hamfaranna þar ásamt bæði Hannesi Þ. Hafstein frá Sandgerði og Þór frá Vestmannaeyjum. Önnur skip félagsins hafa einnig tekið þátt í krefjandi og erfiðum útköllum hringinn í kringum landið. Fyrir skömmu sinnti Vörður II frá Patreksfirði lykilhlutverki þegar að Bjarni Sæmundsson, skip Hafrannsóknastofnunar, strandaði í Patreksfirði. Hafbjörg kom að aðstoð vegna snjóflóðanna í Neskaupstað, þar sem hlíðin ofan kaupstaðarins var lýst upp frá skipinu til eftirlits og myndavélar þess notaðar í sama tilgangi.

Rausnarlegur stuðningur atvinnulífsins við endurnýjun björgunarskipaflota Landsbjargar ætti því eiginlega að vera borðleggjandi fyrir þjóðina og alla hagaðila sem eru fyrirtæki til sjávar og sveita og þá sérstaklega til sjávar.