„Það er svo sem lítið að frétta enn þá,“ segir Birkir Bárðarson, leiðangursstjóri loðnuleitar Hafrannsóknastofnunar.

Af þremur skipum sem hófu loðnuleiðangurinn fyrir helgi er aðeins Heimaey VE eftir á miðunum. Ásgrímur Halldórsson SF og Polar Ammassak luku yfirferð sinni fyrir suðaustan land fyrir nokkrum dögum án þess að finna loðnu í því magni sem menn eru að fiska eftir.

Heimaey hefur hins vegar verið úti af norðvesturhorni landsins og er nú við ísröndina á Grænlandssundi.

„Þeir eru að færa sig suðvestur með ísnum og skoða upp á grunnið líka þarna úti af Vestfjörðum. Þeir hafa enn sem komið er bara mestmegnis séð ungloðnu, ókynþroska loðnu, sem er ekki hluti af veiðistofninum,“ segir Birkir um stöðuna.

Vonin liggur í vestangöngu

ríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi þegar loðnuvertíð er annars vegar. Í Fiskifréttum sagði frá því þann 23.  mars í fyrra að vertíðin sem þá var að ljúka myndi skila á bilinu 42 til 45 milljörðum króna í tekjur.
ríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi þegar loðnuvertíð er annars vegar. Í Fiskifréttum sagði frá því þann 23. mars í fyrra að vertíðin sem þá var að ljúka myndi skila á bilinu 42 til 45 milljörðum króna í tekjur.

Nú segir Birkir búið að skoða fyrir suðaustan og núna fyrir norðvestan. Austur frá hafi verið lítið að sjá, að minnsta ekki áberandi viðbót.

„Þannig að helsta vonin teljum við núna vera að hún birtist sem vestanganga, að hún sé þá að ganga vestur fyrir í stað þessarar hefðbundnu gönguleiðar austur fyrir landið. Við sáum svipaðan atburð í febrúar í fyrra. Þá birtist mikið magn úti af Húnaflóa sem gekk síðan vestur fyrir land,“ segir Birkir.

Sérstaklega í ljósi þess að lítið hafi verið hægt að komast í Grænlandssundið út af ís segir Birkir mest horft til þess möguleika að þar sé eitthvað af loðnu sem ekki hafi náðst að mæla og gæti birst svona seint.

Fer að birtast undan ísnum

„Það hefur dálítið einkennt þessar vestangöngur að þær eru oft seinna á ferðinni heldur en hefðbundna gangan,“ segir Birkir.

Ísinn og veðrið hefur nokkuð hamlað leit áhafnarinnar á Heimaey. „Það hefur ekki lagst í þessar norðaustan vindáttir sem ýta ísnum frá okkur, ekki nógu lengi til að hann hopi almennilega að minnsta kosti. En þegar það er svona langt liðið á tímabilið núna þá förum við að eiga von á því að loðnan fari að birtast hvort sem er undan ísnum – ef hún er þar,“ segir Birkir.

Klárast á næstu dögum

Fram undan hjá Heimaey er sem fyrr segir að halda leitinni áfram um sinn. „Þeirra markmið er að halda áfram suðvestur eftir með kantinum úti af Vestfjörðum,“ segir Birkir. Veðuraðstæður séu erfiðar.

Birkir Bárðarson. Mynd/Aðsend
Birkir Bárðarson. Mynd/Aðsend

„Þannig að þeir þurfa að haga seglum eftir vindi. Þeir eru að reyna að komast í gegnum þetta en það eru frekar erfiðar aðstæður eins og er út af veðri.

Aðspurður segir Birkir að ekki hafi verið settur ákveðinn tímarammi fyrir Heimaey að ljúka verkefninu. „En þetta ætti að klárast hjá þeim á næstu dögum.“

Ef loðnan finnst ekki í þessari yfirferð segir Birkir ljóst að enn sem komið er sé ekki ástæða til að breyta ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um engar veiðar.

Vill hrygningu fyrir stofninn og vistkerfið

„En það hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort þá verði eitthvert framhald á leit eða mælingum. Það held ég að hljóti að vera opið en það er ekki mikill tími eftir í að loðnan hreinlega hrygni og verði þar með ekki veiðanleg sem verðmæti,“ segir Birkir. Glugginn til veiða sé nú aðeins nokkrar vikur.

„Maður hefði viljað sjá meiri merki um að það sem við þó mældum síðasta haust sé að birtast uppi á grunnunum núna, bæði til að hafa efni í góða hrygningu og til að fóðra vistkerfið á grunnunum,“ segir Birkir. Þessi fiskur hljóti einhvers staðar að vera. „Við teljum okkur ekki hafa séð alla loðnuna sem við sáum þá.“