Verði af kaupum Vinnslustöðvarinnar á útgerðarfélaginu Ós ehf. og fiskvinnslunnar Leo Seafood ehf. eins og vilji þessara aðila stendur til, má gera ráð fyrir að langleiðina í tvo tugi milljarða króna skipti um hendur ef kaupin taka mið af verðmætum á markaði. Vinnslustöðin og forsvarsmenn Óss og Leo Seafood hafa þó ekkert gefið upp um kaupverð takist samningar.

Ós ehf. gerir út aflaskipið Þórunni Sveinsdóttur VE. Aflamark hennar í upphafi fiskveiðiársins var tæp 1.441 tonn í þorski, 988 tonn í ýsu, 1.306 tonn í ufsa, 210 tonn í karfa, 109 tonn í djúpkarfa og 45 tonn í löngu. Þá er ótalinn lítilsháttar kvóti í öðrum tegundum. Í þorskígildistonnum er kvóti Þórunnar Sveinsdóttur 3.749 tonn. Ós ehf. er í eigu Sigurjóns Óskarssonar og barna hans, Gylfa, Viðars og Þóru Hrannar.

Kílóið af þorski 5.000 kr.

Samkvæmt heimildamanni Fiskifrétta er kíló af varanlegum þorskkvóta ekki verðminna en 5.000 krónur þannig að einungis þorskkvótinn sem fylgir Þórunni Sveinsdóttur ætti samkvæmt því að vera 7,2 milljarða kr. virði. Hvert kíló af ýsu gengur á um 4.000 kr. Ýsukvótinn legði sig samkvæmt því á 3,9 milljarða kr. Kílóverðið á ufsa er 600-700 kr. sem þýðir 147-168 milljónir kr. og kílóverðið á karfa 700-800 kr. sem þýðir 147-168 milljónir kr. Verðmæti kvóta Þórunnar Sveinsdóttur á markaði er því á bilinu 12,4 til 13,7 milljarðar kr.. Þá er ótalinn 108 tonna djúpkarfakvóti, 45 tonna löngukvóti, 51 tonn af steinbít og 355 tonn af gulllaxi auk lítilsháttar kvóta í öðrum tegundum.

Ef kaup VSV á Ós ehf. ganga eftir verða þrjár sjálfstæðar útgerðir eftir í Eyjum.
Ef kaup VSV á Ós ehf. ganga eftir verða þrjár sjálfstæðar útgerðir eftir í Eyjum.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Seljendur í landeldið

Þórunn Sveinsdóttir VE var smíðuð fyrir Ós ehf. í Karstensens skipasmíðastöðinni í Danmörku árið 2010 og var lengt um 6,6 metra árið 2019 í sömu skipasmíðastöð. Heimildarmaður Fiskifrétta telur að verðmæti skipsins sjálfs sé á bilinu 600-700 milljónir kr. Af þessu mætti mjög gróflega áætla að verðmæti útgerðarfélagsins Óss sé að minnsta kosti 15 milljarðar kr. en verðmæti fiskvinnslunnar Leo Seafood er þá undanskilin. Leo Seafood byggir á grunni Godthaab í Nöf og var húsnæði þess á Garðavegi 14 endurnýjað frá grunni. 2020 hóf fyrirtækið jarðvegsframkvæmdir í botni Friðarhafnar í Vestmannaeyjum þar sem átti að reisa 4.500 fermetra fiskvinnsluhús á tveimur hæðum. Í samningum milli eigenda Leo Seafood og Vestmannaeyjabæjar breyttust þau áform og verður húsið, sem er í byggingu núna, nýtt fyrir seiðaeldi í tengslum við fyrirhugað landeldi í Vestmannaeyjum.

Vinnslustöðin hefur gefið það út að ekki verði greitt fyrir útgerðarfélagið Ós ehf. eða Leo Seafood með hlutabréfum í fyrirtækinu. Vinnslustöðin keypti í fyrra Huginn ehf. sem gerði út fjölveiðiskipið Hugin VE 55 ásamt aflaheimildum í síld, loðnu, kolmunna og makríl. Afkoma Vinnslustöðvarinnar á síðasta ári var sú besta í sögu félagsins og varð hagnaður af starfseminni 2,1 milljarður króna. Miðað við upphafsúthlutun á yfirstandandi fiskveiðiári var kvóti Vinnslustöðvarinnar 4,1% af heild í þorskíldistonnum en færi í 5,2% gangi kaupin í gegn.