„Það er rétt að það er ekki á hverjum degi sem menn fá nýjan bát og það er reyndar alls ekki algengt í dag,“ segir Ólafur Haraldsson, strandveiðisjómaður og útgerðarmaður Einherja ehf. á Patreksfirði, sem tók við nýjum Sóma 990 frá Víkingbátum á dögunum. Við hittum á Ólaf í smábátahöfn Snarfara við Elliðavog í Reykjavík þar sem verið var að ganga frá síðustu atriðunum áður en hann gæti siglt bátnum vestur.
Eina sem er opið
Ólafur segir sér virðist samt eins og einhver endurnýjun eigi sér stað um þessar mundir í smábátaflotanum. Þannig sé Haukur Eiðsson á Húsavík að fá sams konar bát og fleiri afhendingar eru fram undan hjá Víkingbátum.
„Meiningin er að koma bátnum vestur á Patreksfjörð við fyrsta tækifæri. Bátinn ætla ég að nota á strandveiðar. Það er það eina sem opið er fyrir auk grásleppuveiða sem ég hef aldrei stundað. Ég hef átt smábáta í yfir 40 ár og ég er alveg hættur þessu að öðru leyti en því að fara á strandveiðar á sumrin. Þessi bátur er sérhannaður fyrir þær veiðar og fyrir mig,“ segir Ólafur.
Hraðfiskibátur
Í bátnum verða þrjár DNG rúllur og ein færeysk Oilwind rúlla sem Ólafur hyggst prófa. Sex kör komast í lestina og tvö á dekkið og brúin er búin nýjasta búnaði sem fæst, þar á meðal siglinga- og fiskleitartækjum frá Furuno og vélin er Volvo D6, 380 hestafla. Mestur ganghraði er 30 hnútar. Það er því ekki að ástæðulausu að þessi gerð báta hafi verið kölluð hraðfiskibátar.
Alls staðar fiskur
„Ég get varla beðið eftir að strandveiðin byrji. Ekki þarf maður að hafa áhyggjur af fiskiríinu. Það er sama hvert farið er – alls staðar er fiskur og boltafiskur. Þetta stutta strandveiðitímabil stendur auðvitað ekki undir svona fjárfestingu en ég er með dálitla sérstöðu að því leyti að ég fæddist ekki í gær. Eftir rúmlega 40 ár í þessu get ég alla vega gert svona hluti. En auðvitað er það varla vinnandi vegur fyrir unga menn að byrja í þessu eins og kerfið er núna. Svo er þessi óvissa alltaf í kringum strandveiðikerfið. Við vitum í raun aldrei hvað er fram undan. Það er gefið út að veiðarnar eiga að standa í fjóra mánuði, eða 48 daga, en svo er niðurstaðan aldrei þannig. Menn treystu á að svo yrði í upphafi og reiknuðu með því með öllum sínum fjárfestingunum en svo hefur það aldrei staðist. Afleiðingin af þessari óvissu er að endurnýjunin verður lítil inni í kerfinu. Forsendurnar sem menn gefa sér þegar þeir byrja standast ekki,“ segir Ólafur.
Að gera gott kerfi betra
Ólafur segir að stóra breytingin sé að sjómenn fái nú vel greitt fyrir fiskinn. Áður fyrr var fiskverð mun lægra en menn bættu það upp með meiri vinnu og meiri afla. Hann segir að strandveiðarnar séu í grunninn gott kerfi og afar litlu þurfi að breyta til þess að gera það enn betra og að menn gætu haft af þessu alvöru viðurværi.
„Kostnaðurinn við að kaupa svona bát, koma honum af stað og róa honum er sá sami hvort sem veidd eru á hann 10, 20 eða 30 tonn. Það eina sem þyrfti að koma til væri að standa við 48 dagana.“
„Það er rétt að það er ekki á hverjum degi sem menn fá nýjan bát og það er reyndar alls ekki algengt í dag,“ segir Ólafur Haraldsson, strandveiðisjómaður og útgerðarmaður Einherja ehf. á Patreksfirði, sem tók við nýjum Sóma 990 frá Víkingbátum á dögunum. Við hittum á Ólaf í smábátahöfn Snarfara við Elliðavog í Reykjavík þar sem verið var að ganga frá síðustu atriðunum áður en hann gæti siglt bátnum vestur.
Eina sem er opið
Ólafur segir sér virðist samt eins og einhver endurnýjun eigi sér stað um þessar mundir í smábátaflotanum. Þannig sé Haukur Eiðsson á Húsavík að fá sams konar bát og fleiri afhendingar eru fram undan hjá Víkingbátum.
„Meiningin er að koma bátnum vestur á Patreksfjörð við fyrsta tækifæri. Bátinn ætla ég að nota á strandveiðar. Það er það eina sem opið er fyrir auk grásleppuveiða sem ég hef aldrei stundað. Ég hef átt smábáta í yfir 40 ár og ég er alveg hættur þessu að öðru leyti en því að fara á strandveiðar á sumrin. Þessi bátur er sérhannaður fyrir þær veiðar og fyrir mig,“ segir Ólafur.
Hraðfiskibátur
Í bátnum verða þrjár DNG rúllur og ein færeysk Oilwind rúlla sem Ólafur hyggst prófa. Sex kör komast í lestina og tvö á dekkið og brúin er búin nýjasta búnaði sem fæst, þar á meðal siglinga- og fiskleitartækjum frá Furuno og vélin er Volvo D6, 380 hestafla. Mestur ganghraði er 30 hnútar. Það er því ekki að ástæðulausu að þessi gerð báta hafi verið kölluð hraðfiskibátar.
Alls staðar fiskur
„Ég get varla beðið eftir að strandveiðin byrji. Ekki þarf maður að hafa áhyggjur af fiskiríinu. Það er sama hvert farið er – alls staðar er fiskur og boltafiskur. Þetta stutta strandveiðitímabil stendur auðvitað ekki undir svona fjárfestingu en ég er með dálitla sérstöðu að því leyti að ég fæddist ekki í gær. Eftir rúmlega 40 ár í þessu get ég alla vega gert svona hluti. En auðvitað er það varla vinnandi vegur fyrir unga menn að byrja í þessu eins og kerfið er núna. Svo er þessi óvissa alltaf í kringum strandveiðikerfið. Við vitum í raun aldrei hvað er fram undan. Það er gefið út að veiðarnar eiga að standa í fjóra mánuði, eða 48 daga, en svo er niðurstaðan aldrei þannig. Menn treystu á að svo yrði í upphafi og reiknuðu með því með öllum sínum fjárfestingunum en svo hefur það aldrei staðist. Afleiðingin af þessari óvissu er að endurnýjunin verður lítil inni í kerfinu. Forsendurnar sem menn gefa sér þegar þeir byrja standast ekki,“ segir Ólafur.
Að gera gott kerfi betra
Ólafur segir að stóra breytingin sé að sjómenn fái nú vel greitt fyrir fiskinn. Áður fyrr var fiskverð mun lægra en menn bættu það upp með meiri vinnu og meiri afla. Hann segir að strandveiðarnar séu í grunninn gott kerfi og afar litlu þurfi að breyta til þess að gera það enn betra og að menn gætu haft af þessu alvöru viðurværi.
„Kostnaðurinn við að kaupa svona bát, koma honum af stað og róa honum er sá sami hvort sem veidd eru á hann 10, 20 eða 30 tonn. Það eina sem þyrfti að koma til væri að standa við 48 dagana.“