Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar á Seyðisfirði í gærmorgun. Aflinn var 107 tonn eða nánast fullfermi. Rætt er við Þórhall Jónsson skipstjóra á heimasíðu SVN þar sem hann segir stuttlega frá veiðiferðinni.

„Við vorum búnir að landa tvisvar sinnum í Hafnarfirði fyrir þennan túr. Að lokinni seinni lönduninni héldum við út á Eldeyjarbanka en þar reyndist vera hálfdauft. Eftir tvo sólarhringa yfirgáfum við Eldeyjarbankann og sigldum austureftir. Þegar komið var á Síðugrunn reyndum við fyrir okkur og þar var mokveiði. Á Síðugrunni fengust 70 tonn á 20 tímum og þarna var um að ræða graðýsu og stórþorsk. Að loknum þessum 20 tímum var komið hrygningarstopp á svæðinu og þá var keyrt austur á Fótinn. Á Fætinum tókum við 15 tonn og þar með var skipið nánast fullt og haldið til löndunar. Gert er ráð fyrir að Gullver haldi á ný til veiða á laugardagskvöld,” segir Þórhallur.