Netaralli Hafrannsóknastofnunar er lokið og segir Gylfi Gunnarsson, skipstjóri á Leifi EA, sem var að taka þátt í rallinu í 13. sinn að afraksturinn að þessu sinni hafi verið afspyrnulélegur. Báturinn er þó áfram í verkefnum fyrir Hafró með prófanir á hvalafælum. Að því loknu verður hann afhentur útgerðinni Bárði SH í Ólafsvík sem hyggst gera hann út á dragnót.

Gylfi var úti á Eyjafirðinum á Leifi EA þegar náðist í hann. Verið var að leggja net með ílum og svo önnur sérútbúin net sem eiga að fæla hvalinn frá netunum. Áður hafði Gylfi tekið þátt í sams konar verkefni í Húnaflóa. Búnaðurinn sem var prófaður þar gaf frá sér hræðsluhljóð frá hnísu. Útkoman var sú að karlkyns hnísur löðuðust að hljóðunum og hölluðust menn helst að því að þeir væru tilbúnir að vaða eld og brennistein kvenkyns hnísum til bjargar.

Gylfi Gunnarsson hefur dregið nokkra fiska úr sjó á sinni tíð.
Gylfi Gunnarsson hefur dregið nokkra fiska úr sjó á sinni tíð.

Blandaðri fiskur

Þetta er í 29. sinn sem netarall Hafró er haldið en markmið þess er að safna upplýsingum um lengdar- og þyngdarsamsetningu, kynþroska og vöxt eftir aldri á helstu hrygningarsvæðum þorsks. 45-60 trossur eru lagðar á hverju svæði og er þeim dreift innan svæða á helstu hrygningarslóðir þorsks. Að loknu útboði voru sex bátar fengnir að verkefninu. Lögð eru net í Faxaflóa, frá Reykjanesi að Þrídröngum, frá Þrídröngum að Skeiðarárdjúpi, frá Meðallandsbugt að Hvítingum og fyrir Norðurlandi. Þar var Leifur EA á netaralli frá 1. til 19. apríl og segir Gylfi þetta einhverja þá lökustu útkomu í þeim 13 röllum sem hann hefur tekið þátt í. Leiðindaveður var mestallan tímann. Rallinu lauk þó bærilega í Eyjafirðinum þar sem fékkst 21 tonn í lögninni. Í heildina öfluðust rúm 60 tonn á Leif EA sem Gylfi segir að sé ágætt fyrir „þessa kvótalausu aumingja,“ eins og hann orðaði það.

„Heilt yfir var þetta mun blandaðri fiskur en öll hin röllin. Það er kannski af hinu góða að þetta séu ekki allt saman aular,“ segir Gylfi.