Svanur RE, uppsjávarskip Brims hf., er að ljúka löndun á um 1.800 tonnum af kolmunna sem fékkst á Gráa svæðinu sunnan Færeyja. Hjalti Einarsson skipstjóri segir að ákveðið hafi verið að landa á Akranesi vegna mikilla anna í bræðslunni á Vopnafirði.

„Við vorum á Gráa svæðinu og lönduðum fullfermi, um 1.800 tonnum með smákælingu. Þegar kemur yfirleitt að því að það fyllist allt á Vopnafirði. Þá höfum við farið hingað og landað úr eins og einum túr til þess að létta á vinnslunni fyrir austan. Það hefur verið góð veiði og stórir farmar og hin skipin tvö hafa verið að koma með 2.500-2.600 tonn til löndunar,“ segir Hjalti.

Það munar talsverðu í siglingu að landa á Akranesi eða Vopnafirði eða rúmum sólarhring fram og til baka. Hjalti segir að það skipti litlu máli upp á hráefnið að gera. Aflinn fæst á skömmum tíma og kælingin er góð um borð.

Bræðslan Akranesi hefur verið verkefnalaus að mestu í loðnubrestinum í vetur en þó hafa verið brædd þar bein úr bolfiski. Hún er svo ræst af stað á fullu þegar svona kolmunnafarmur berst. Ljúka átti löndun strax eftir hádegi og stóð þá til að halda rakleiðis á miðin á ný sunnan Færeyja. Siglingin þangað tekur tæpa tvo sólarhringa. Hjalti segir að það sé ennþá mjög góð veiði og það gangi auðvitað á kvótann. Líklega verði eitthvað skilið eftir til þess að veiða næsta haust.