Niðurstöður könnunar á ígulkeramiðum í Álftafirði í Ísafjarðardjúpi sýna að skollakopp, sem einnig er nefndur grænígull, var víða að finna eða á sex af tíu stöðvum þar sem ígulkerjaplógur var dreginn. Rannsóknir á ígulkeramiðum hafa verið gerðar á fimmtán stöðum við landið á síðan árið 2019.

Könnunin fór fram á 10 stöðvum á fimm til átta metra dýpi var heildarafli (ígulker og meðafli) í 10 mínútna togi tíu til 400 kíló. Magn skollakopps í togi var mest utarlega og austan til í firðinum, eða 135-300 kíló. Greinóttir kóralþörungar sáust á fjórum en þeir mynda afar viðkvæm og fjölbreytilegt búsvæði með hátt verndargildi. Tegundafjölbreytni botnlífvera í meðafla var lítill, þar sem aðeins greindust 19 tegundir sem gæti orsakast af fáum myndum frá hverri stöð, segir í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um rannsóknina.

Nýjar reglur

Árið 2019 voru sett skilyrði með nýrri reglugerð að allar veiðar utan Breiðafjarðar yrðu háðar tilraunaveiðileyfi. Tilraunaveiðarnar og kannanir á útbreiðslu skollakopps byggðar á tilraunaveiðileyfum, hafa farið fram á ýmsum stöðum við landið síðan þá, eða í fimmtán fjörðum og flóum. Árið 2021 voru slík rannsókn gerð í Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði, Norðfjarðarflóa og Mjóafirði fyrir austan og í Jökulfjörðum, Seyðisfirði, Hestfirði og Álftafirði fyrir vestan, sem ný skýrsla Hafrannsóknastofnunar nær til. Fiskifréttir hafa fjallað um fyrri rannsóknir að undanförnu. Útgerðarfélagið Þórishólmi í Stykkishólmi fékk leyfi fyrir tilraunaveiðunum sem skýrslan fjallar um en fyrr á árinu hafði sama útgerð farið í leiðangra í Jökuldjúpi og í  Seyðis- og Hestfirði. Ígulkeraveiðibátur Þórishólma, Sjöfn SH 707, var notaður við leitina og ígulkeraplógur.

Japanir kaupa

Hrogn ígulkera hafa verið nýtt til manneldis öldum saman, víða um heim. Síðan um miðja síðustu öld hefur langstærsti markaðurinn fyrir hrognin verið í Japan. Veiðar annars staðar í heiminum jukust mikið um 1975 þegar verulega tók að halla undan fæti fyrir ígulkerastofnum í Suðaustur-Asíu vegna ofveiði, samhliða aukinni eftirspurn, sérstaklega í Japan. Helstu veiðiþjóðir á síðustu áratugum hafa verið Sílemenn, Japanir, Bandaríkjamenn, Rússar og Kanadamenn. Eftir miðjan níunda áratuginn hófust veiðar á ígulkerinu skollakoppi við Atlantshafsströnd Bandaríkjanna og Kanada. Eftir 1990 jukust þær veiðar til muna þegar Japansmarkaður opnaðist fyrir innflutningi á skollakoppi.

Kafarar á veiðum

Tilraunaveiðar við Ísland hófust árið 1983 og voru stundaðar af köfurum í örfá ár. Árið 1993 hófust síðan ígulkeraveiðar að nýju og nú með plógi og var aflinn seldur á Japansmarkað. Skollakoppur er eina ígulkerategundin sem hefur verið nýtt hérlendis. Árið 1998 hrundi Japansmarkaður og stöðvuðust þar með veiðar hérlendis. Árið 2004 hófust veiðar að nýju í innanverðum Breiðafirði, en litlu var landað.

Veiðiráðgjöf var í fyrsta sinn veitt árið 2016 en þá aðeins fyrir aðalveiðisvæðið í Breiðafirði. Ráðlagt aflamark var 250 tonn á afmörkuðu svæði í Breiðafirði en veiðar utan þess svæðis voru frjálsar.

Ýmsar rannsóknir á skollakoppi hafa verið gerðar hérlendis í gegnum tíðina og aðallega beinst að nýtingarmöguleikum, stofnstærð, útbreiðslu, kynþroskaferli og hrygningu.