Íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs hefur gert samkomulag við Carbon to Sea Initiative, alþjóðlegt rannsóknar- og þróunarverkefni um að skoða kosti þess að setja upp rannsóknarstöð á Íslandi. Verkefnið tengist nýrri aðferð við föngun og bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu. Sagt er frá þessu í ítarlegra máli í frétt á vb.is.

Meðal bakhjarla verkefnisins er sjóður stofnaður af fyrrverandi tæknistjóra Facebook en verkefnið hefur þegar fengið um 7 milljarða króna í styrki.

Aðferðin sem um ræðir snýst um að magna upp náttúrulegt veðrunarferli sem á sér stað þegar basískt berg berst með ferskvatni í hafið og setur af stað efnahvörf sem fanga koltvísýring úr andrúmsloftinu. Í tilkynningu segir að aðferðin muni koma til með að umbreyta koltvísýringnum og geyma á öruggan hátt í efnasamsetningu hafsins.