„Þegar maður horfir á stóru myndina, alla þessa mismunandi þætti, þá benda þeir til þess að það sé ólíklegt að það komi mikið af makríl inn í lögsöguna í sumar,“ segir Anna Heiða Ólafsdóttir, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.
Anna Heiða segist hafa talið tíma til kominn að taka saman gögn úr fyrirliggjandi rannsóknum á makrílnum og aðstæðum í hafinu til að reyna að draga upp heildarmynd af stöðunni og horfum. Á fyrirlestri sem hún hélt á málstofu Hafrannsóknastofnunar í síðustu viku setti hún niðurstöður rannsóknanna í samhengi við útbreiðslu makríls síðustu sumur og spáði í spilin fyrir sumarið 2024.
Svipað og síðustu ár
„Miðað við niðurstöðurnar úrhinum mismunandi rannsóknum sem við höfum gert og þegar allt er lagt saman þá er það frekar neikvætt. Þetta verður bara svipað og það hefur verið síðustu tvö, þrjú ár,“ segir Anna Heiða um horfurnar.
Meðal þess sem hefur áhrif á göngur makríls er sjávarhiti. Hann kýs að vera í 8 til 13 gráðu heitum sjó í fæðugöngum sínum. Anna Heiða segir sjóinn fyrir austan land hafa á undanförnum árum hlýnað síðar á sumrin en árin þar á undan.
Þess utan segir Anna Heiða hinn sameiginlega stofn í Norður-Atlantshafi einfaldlega hafa minnkað mikið frá því á árunum 2014 til 2016 þegar endurteknar og stórar makrílgöngur voru hér við land enda þurfi minni stofn minna svæði til þess að éta.
Hægt og rólega á niðurleið
„Makrílstofninn hefur verið á niðurleið og það er ekki líklegt að hann stækki í ár eða á næsta ári miðað við spána úr stofnmatinu í fyrra. Þar af leiðandi getur maður ekki annað sagt en að því miður virðist ekkert benda til þess að við megum búast við meiri makríl í lögsögunni núna heldur en í fyrra,“ segir Anna Heiða.
Spár benda til þess að makrílstofninn verði dálítið minni nú í ár en í fyrra. „Hann hefur farið hægt og rólega niður frá því að hann var í hámarki. Og eftir því sem stofninn hefur minnkað hefur gengið minna hingað í vestur til okkar,“ segir Anna Heiða. Ekkert bendi til þess að stofninn muni stækka að nýju á næstu árum.
Veitt umfram ráðgjöf
„Nýliðunin bendir til þess að árgangarnir sem eru að koma inn séu ekki stórir. Ef það er að koma lítið inn og við tökum enn þá fullt út með veiðum þá gæti stofninn minnkað mjög hratt. Ég er ekki að segja að það sé að fara að gerast en sá möguleiki er fyrir hendi,“ segir Anna Heiða.
Það liggur þá beint við að velta fyrir sér hvort makrílstofninn sé ofveiddur.
„Vísindamennirnir gera stofnmat og byggt á því segja þeir að það megi veiða ákveðið mörg tonn úr stofninum. En af því að löndin sem eru að veiða úr honum eru ekki búin að koma sér saman um skiptinguna á aflamagninu þá ákveður hvert land fyrir sig hversu mikið það ætlar að taka. Þegar það er lagt saman er það á bilinu 110 til 140 prósent af því sem vísindamenn mæla með að sé veitt. Þannig hefur þetta verið í mörg ár,“ segir Anna Heiða.
Ekki nóg að sjórinn hlýni
Jafnvel þótt sjórinn fyrir austan land myndi hlýna þá segir Anna Heiða það eitt og sér ekki ávísun á það að makríll myndi ganga inn í lögsögu okkar. „Það eru miklu fleiri þættir sem spila inn í,“ segir hún.
Það eru tilgátur um að árgangar fari svipaða gönguleið ár eftir ár og árgangarnir 2010 og 2011 hafi borið uppi vesturgönguna þegar hún var stór hér frá árinu 2014. „Við vitum ekki af hverju þessir árgangar voru svona vestlægir og þetta hefur ekki gerst síðan þá.“
Í vorralli sem farið var í mars kom ekki einn einasti makríll, hvorki stór né lítill, að sögn Önnu Heiðu. Það sé reyndar í takt við það sem var í fyrra og hittifyrra þegar aðeins örfáir fiskar fundust.
„Þegar maður horfir á stóru myndina, alla þessa mismunandi þætti, þá benda þeir til þess að það sé ólíklegt að það komi mikið af makríl inn í lögsöguna í sumar,“ segir Anna Heiða Ólafsdóttir, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.
Anna Heiða segist hafa talið tíma til kominn að taka saman gögn úr fyrirliggjandi rannsóknum á makrílnum og aðstæðum í hafinu til að reyna að draga upp heildarmynd af stöðunni og horfum. Á fyrirlestri sem hún hélt á málstofu Hafrannsóknastofnunar í síðustu viku setti hún niðurstöður rannsóknanna í samhengi við útbreiðslu makríls síðustu sumur og spáði í spilin fyrir sumarið 2024.
Svipað og síðustu ár
„Miðað við niðurstöðurnar úrhinum mismunandi rannsóknum sem við höfum gert og þegar allt er lagt saman þá er það frekar neikvætt. Þetta verður bara svipað og það hefur verið síðustu tvö, þrjú ár,“ segir Anna Heiða um horfurnar.
Meðal þess sem hefur áhrif á göngur makríls er sjávarhiti. Hann kýs að vera í 8 til 13 gráðu heitum sjó í fæðugöngum sínum. Anna Heiða segir sjóinn fyrir austan land hafa á undanförnum árum hlýnað síðar á sumrin en árin þar á undan.
Þess utan segir Anna Heiða hinn sameiginlega stofn í Norður-Atlantshafi einfaldlega hafa minnkað mikið frá því á árunum 2014 til 2016 þegar endurteknar og stórar makrílgöngur voru hér við land enda þurfi minni stofn minna svæði til þess að éta.
Hægt og rólega á niðurleið
„Makrílstofninn hefur verið á niðurleið og það er ekki líklegt að hann stækki í ár eða á næsta ári miðað við spána úr stofnmatinu í fyrra. Þar af leiðandi getur maður ekki annað sagt en að því miður virðist ekkert benda til þess að við megum búast við meiri makríl í lögsögunni núna heldur en í fyrra,“ segir Anna Heiða.
Spár benda til þess að makrílstofninn verði dálítið minni nú í ár en í fyrra. „Hann hefur farið hægt og rólega niður frá því að hann var í hámarki. Og eftir því sem stofninn hefur minnkað hefur gengið minna hingað í vestur til okkar,“ segir Anna Heiða. Ekkert bendi til þess að stofninn muni stækka að nýju á næstu árum.
Veitt umfram ráðgjöf
„Nýliðunin bendir til þess að árgangarnir sem eru að koma inn séu ekki stórir. Ef það er að koma lítið inn og við tökum enn þá fullt út með veiðum þá gæti stofninn minnkað mjög hratt. Ég er ekki að segja að það sé að fara að gerast en sá möguleiki er fyrir hendi,“ segir Anna Heiða.
Það liggur þá beint við að velta fyrir sér hvort makrílstofninn sé ofveiddur.
„Vísindamennirnir gera stofnmat og byggt á því segja þeir að það megi veiða ákveðið mörg tonn úr stofninum. En af því að löndin sem eru að veiða úr honum eru ekki búin að koma sér saman um skiptinguna á aflamagninu þá ákveður hvert land fyrir sig hversu mikið það ætlar að taka. Þegar það er lagt saman er það á bilinu 110 til 140 prósent af því sem vísindamenn mæla með að sé veitt. Þannig hefur þetta verið í mörg ár,“ segir Anna Heiða.
Ekki nóg að sjórinn hlýni
Jafnvel þótt sjórinn fyrir austan land myndi hlýna þá segir Anna Heiða það eitt og sér ekki ávísun á það að makríll myndi ganga inn í lögsögu okkar. „Það eru miklu fleiri þættir sem spila inn í,“ segir hún.
Það eru tilgátur um að árgangar fari svipaða gönguleið ár eftir ár og árgangarnir 2010 og 2011 hafi borið uppi vesturgönguna þegar hún var stór hér frá árinu 2014. „Við vitum ekki af hverju þessir árgangar voru svona vestlægir og þetta hefur ekki gerst síðan þá.“
Í vorralli sem farið var í mars kom ekki einn einasti makríll, hvorki stór né lítill, að sögn Önnu Heiðu. Það sé reyndar í takt við það sem var í fyrra og hittifyrra þegar aðeins örfáir fiskar fundust.