Seiði í eldisstöð Samherja fiskeldis að Núpsmýri í Öxarfirði bárust úr einni af eldiseiningum seiðastöðvar yfir í settjörn stöðvarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Umrætt atvik er sagt hafa uppgötvast á mánudaginn var, þann 6. maí.

„Seiðin sem um ræðir voru ekki sjógönguhæf. Samherji tilkynnti samdægurs um mögulega slysasleppingu til viðeigandi aðila, ásamt því að efldar voru varnir í frárennsli úr settjörn í viðtaka,“ segir í tilkynningu Samherja.

Fram kemur að við fyrstu athugun virðist kerfisbilun í nýju eldiskerfi seiðastöðvar hafa valdið því að seiði soguðust í frárennsliskassa á eldiskeri og út um frárennslisrör, yfir í millibrunn og þaðan í settjörn. Sleppivarnir séu á þremur stöðum í frárennsliskerfi seiðastöðvar; á hverri eldiseiningu, í millibrunni og settjörn. Sleppivarnir á frárennsliskassa og millibrunni virðist ekki hafa virkað sem skyldi en þær hafi þegar verið yfirfarnar og efldar.

Gætu hafa borist til sjávar

Í tilkynningu Matvælastofnunar um málið segir að strokið hafi uppgötvaðist við eftirlit starfsmanna. Seiðin hafi verið 70 til 80 grömm og ósmoltuð.

„Ekki er hægt að útiloka að seiðin hafi smoltast í settjörn og komist út í sjó. Samkvæmt upplýsingum frá rekstraraðila fundust 868 seiði utan kers en óljóst er á þessum tímapunkti hvers mörg seiði struku í heild og þar af leiðandi óljóst hve mörg seiði bárust í settjörnina. Rekstrarleyfishafi vinnur að endurheimt fiska úr settjörn og nákvæmari talningu til þess að meta umfang stroksins,“ segir á mast.is þar sem kemur fram að atvikið sé til rannsóknar hjá stofnuninni.

Óverulegt magn sem slapp

„Um óverulegt magn seiða var að ræða og er unnið að endurheimt þeirra úr settjörn í samráði við Matvælastofnun,“ segir Samherji. Samhliða hafi verið unnið að orsakagreiningu og úrbótaáætlun sé þegar komin í framkvæmd. Samherji fiskeldi hafi stundað landeldi í 25 ár án slíkra óhappa.

„Félagið vinnur eftir ströngum verklagsreglum og gæðastöðlum og leggur ríka áherslu á að stunda landeldi á sjálfbæran og öruggan hátt. Samherji fiskeldi harmar atvikið en strax var hafist handa við að rannsaka orsakir og hefja mögulegar úrbætur til að fyrirbyggja að slíkt endurtaki sig,“ segir á samherji.is.