„Ég flutti bara fyrirtækið, með kennitölu og húð og hári af C-svæðinu yfir á A-svæðið,“ segir Oddur Örvar Magnússon, strandveiðimaður á Gimli ÞH, sem gerir nú út frá Bolungarvík í staðinn fyrir í heimabænum Húsavík.

Ástæðan fyrir flutningnum er sú hversu mikið er gengið á sameiginlegan kvóta strandveiðiflotans er veiðin glæðist loks á norðausturhlutanum.

„Þetta er það sem stjórnvöld bjóða okkur upp á,“ segir Oddur. Á samtals 24 dögum sem róa mátti í maí og júní í fyrra hafi verið níu dagar sem hann hafi ekki náð skammtinum á Húsavík.

Þegar rætt er við Odd hafði hann róið í tvo daga frá Bolungarvík. „Það gengur ljómandi vel. Við höfum fengið skammtinn báða dagana,“ segir hann. Tekið hafi fimm tíma að sækja skammtinn í bæði skiptin. „Á Húsavík náði ég jafnvel ekki skammtinum þó að ég væri fjórtán tíma á sjó.

Oddur segir þorskinn sem nú sé að veiðast vera mjög fínan og það sama gildi um verðið sem fáist á markaði. „Þetta er þrjú til fjögur hundruð krónur og hærra fyrir stóra fiskinn,“ segir hann.

Dýrara að róa án afla

Að sögn Odds sköpuðu stjórnvöld núverandi ástand undir forystu Vinstri grænna. „Þeir opnuðu pottinn 2018 án þess að afnema svæðaskiptinguna. Núna eftir fyrsta daginn, sem var á fimmtudaginn í síðustu viku þá var C-svæðið með átta prósent af veiddum afla og A-svæðið með 55 prósent. Þeim var bent á að þetta myndi gerast og þau gerðu þetta samt.“

Því fylgir kostnaður að flytja útgerðina. „En það er meiri kostnaður að vera fjórtán tíma á sjó og fá ekki skammtinn,“ segir Oddur sem stekkur nú landshluta á milli eftir því hvenær má róa.

„Ég keyrði hingað á miðvikudaginn var [í síðustu viku], svaf hér um nóttina, fór í róður á fimmtudaginn og keyrði til Húsavíkur eftir hann. Svo keyrði ég aftur til Bolungarvíkur á sunnudaginn,“ segir Oddur sem kveður sér lítast ljómandi vel á framhaldið þar. „En mér líst ekkert á þetta kerfi eins og það er,“ ítrekar hann.