Sólmundur Friðriksson hefur sett í gang verkefni sem felur í sér uppsetningu skilta  með upplýsingum um skip og báta sem gerð hafi verið út frá Stöðvarfirði. Til verkefnis Sólmundar var nú í mars samþykktur átta hundruð þúsund króna styrkur úr frumkvæðissjóði Sterks Stöðvarfjarðar.

Að því er Sólmundur segir stafar áhugi hans á útgerðarsögu bæjarins ekki síst af því að faðir hans, Friðrik  Júlíus Sólmundsson, var einn þriggja manna sem stóðu fyrir Varðar útgerðinni á sínum tíma. Sólmundur sem sjálfur er fæddur 1967 segir fjórtán árum eldri bróður sinn þekkja útgerðarsöguna vel og að hann komi einnig að verkefninu.

Þar sem lífæðin var eitt sinn

„Þetta snýst um að setja skilti á grjótgarðinn niðri við það sem kallað er gamla höfnin í dag. Þar var lífæðin á sínum tíma. Við ætlum að gera skiltaröð þar fyrir alla þilbáta og skip sem hafa verið gerð út frá Stöðvarfirði,“ lýsir Sólmundur því sem koma eigi í verk.

Sólmundur Friðriksson.
Sólmundur Friðriksson.

Á hverju skilti eiga að vera grunnupplýsingar, dálítill texti og síðan mynd af viðkomandi báti. Ekki er enn ljóst hversu mörg skiltin verða að sögn Sólmundar því endanlegur fjöldi bátanna liggur ekki fyrir.

Lítil útgerð og engin vinnsla

Að sögn Sólmundar bar fyrsti báturinn sem faðir hans og félagar gerðu út nafnið Vörður og var fyrirtækið kennt við hann. Síðan hafi þeir meðal annars verið með Heimi SU 100. Einnig fyrsta togarann í samstarfi við Breiðdælinga.

Sólmundur segir eiginlega enga útgerð núna stundaða frá Stöðvarfirði.

„Það eru kannski einhverjir smábátar sem eru hluta af ári en það er engin vinnsla,“ segir Sólmundur sem kveður gulltímabilið í útgerðarsögu Stöðfirðinga hafa verið frá miðri tuttugustu öld og fram undir lok aldarinnar.

Stærri og stærri fiskar

„Varðar útgerðin er stór hluti af þessu og þess vegna höfum við bræðurnir mikinn áhuga á þessu. Útgerðin gekk inn í Hraðfrystistöð Stöðvarfjarðar 1976 eða 1977 þegar Kambaröstin var keypt,“ segir Sólmundur. Í framhaldinu hafi saga sem nú sé orðin gamalkunn tekið við.

Friðriks Júlíus Sólmundsson, útgerðarmaður án Stöðvarfirði.
Friðriks Júlíus Sólmundsson, útgerðarmaður án Stöðvarfirði.

„Á endanum var alltaf stærri og stærri fiskur sem gleypti fyrirtækið getum við sagt og það endaði hjá Samherja. Það er þessi klassíska saga sem endaði þegar Samherji fór og útgerðin lognaðist út af þegar Kambaröstin sigldi út fjörðinn,“ segir Sólmundur.

Hæstu tekjur á íbúa

Um er að ræða útgerðarsögu sem Sólmundur segir vert að halda á lofti. Mikið sé um að vera á hafnarsvæðinu. Þar sé Sköpunarmiðstöðin til dæmis og kaffibrennsla og miklar hugmyndir uppi um svæðið.

„Okkur fannst þá tilvalið að glæða grjótgarðinn lífi sem tengist sögu staðarins; útgerðarsögunni og því lífi sem var. Ég las einhvers staðar í gamalli grein að á tímabili voru hæstu tekjur á íbúa á landsvísu á Stöðvarfirði. Það var gífurlegur uppgangur,“ segir Sólmundur.

Mikill hugur í Stöðfirðingum

„Það er ljóst að það er mikill hugur í fólki og mikill kraftur hér í samfélaginu á Stöðvarfirði. Það má sannarlega sjá á bæði fjölda umsókna sem og gæðum þeirra, mörg spennandi verkefni sem öll sem eitt hafa það að markmiði að styrkja innviðina okkar sem og samfélagið,“ segir meðal annars um styrkúthlutun ársins úr frumkvæðissjóði Sterks Stöðvarfjarðar á vef Fjarðabyggðar. Alls fengu átján verkefni styrk í þessari þriðju úthlutun sjóðsins