Gunnþór Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar og Hermann Björnsson forstjóri Sjóvár undirrituðu nýlega áframhaldandi samstarfssamning um tryggingar. Samningurinn felur í sér að Sjóvá tryggir starfsemi Síldarvinnslunnar, Vísis og tengdra félaga. Í samningnum er einnig lögð áhersla á áframhaldandi öflugt samstarf um forvarnir og öryggismál hjá umræddum fyrirtækjum.

Síldarvinnslan hf. er eitt af stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og byggir starfsemi sína á yfir hálfrar aldar reynslu í fiskvinnslu og útgerð. Fyrirtækið er hið umsvifamesta á Íslandi á sviði veiða og vinnslu á uppsjávartegundum og stærsti framleiðandi á fiskimjöli og lýsi á landinu.

„Þessi samningur er okkur afar mikilvægur, og ánægjulegt að við séum að ná saman um áframhaldandi tryggingar fyrir Síldarvinnsluna. Sjóvá var auðvitað stofnað í kringum tryggingar í sjávarútvegi og áfram viljum við vera sterk og standa með þessari undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga. Við hlökkum því til að halda áfram að byggja við þetta farsæla samstarf, sem hefur meðal annars reynst árangursríkt þegar litið er til forvarna,“ segir Hermann.

Sjóvá hefur eins og nafnið ber með sér tengst íslenskum sjávarútvegi sterkum böndum allt frá stofnun Sjóvátryggingafélags Íslands árið 1918. Sjóvá býður upp á víðtæka tryggingarvernd fyrir fólk og fyrirtæki sem starfa í sjávarútvegi og hefur að auki lagt mikla áherslu á forvarnarstarf og öryggismál í greininni, meðal annars með öflugu samstarfi við fyrirtæki eins og Síldarvinnsluna.